Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Þetta eru fróðlegar og nokkuð gagnlegar umræður sem hér hafa farið fram. En það er rétt að undirstrika það, og það er nú fyrst og fremst erindi mitt hér í þennan ræðustól að sinni, að enginn bindandi samningur var gerður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta þinghlé. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykn. Ólafi G. Einarssyni að ekki var langt í samkomulag. En þó voru lausir endar þannig að samkomulag var ekki orðið. Að sjálfsögðu verður samkomulag að taka til allra ágreiningsmála áður en hægt er að telja það í gildi.
    Það var röng frétt í Tímanum sem hv. 1. þm. Suðurl. las hér í þessum umræðum. Rangar fréttir hafa verið í fleiri fjölmiðlum þar sem menn hafa verið að skapa sér það að samkomulag væri orðið. Og enginn hefur heldur brotið neitt samkomulag, hvorki stjórnarandstaða né við stjórnarliðar. Alla tíð hefur verið ágreiningur um ákveðin atriði. Það er heldur ekki búið að brjóta upp verkaskiptalögin sem við samþykktum hér á sl. vetri. Að vísu hafa komið í ljós mjög áberandi vankantar á þeirri lagasmíð og hæstv. forsrh. bauð upp á breytingar til bráðabirgða þar sem hann var að leita leiða til að komast hjá ágreiningi sem komið hafði í ljós að ríkti milli borgarstjórans í Reykjavík og ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna hvað varðaði stjórnarfyrirkomulag eða rekstur Borgarspítalans. Samningamenn ríkisins hafa því miður látið hlunnfara sig þegar þeir voru í samningum við sveitarfélögin um verkaskiptinguna og þess vegna er okkur mjög örðugt að koma saman fjárlögum. Það er einn þátturinn í því að okkur er örðugt að koma saman fjárlögum. Þeir eru reyndar miklu fleiri en þetta er einn þeirra. Þennan ágreining milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar verður náttúrlega að leysa með samkomulagi. Ekki samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu fyrst og fremst, þó að út af fyrir sig sé náttúrlega gott að þar sé gott samkomulag, heldur samkomulagi
milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar.
    Ég legg til, frú forseti, að þessum fundi verði nú þegar frestað. Ég er vonlítill um að þingmálum þoki að marki fram að svo komnu máli og ég tel að þingflokksformönnum eigi að gefast tækifæri til að fara að vinna að því að undirbyggja enn á ný traust samkomulag sem bæði stjórn og stjórnarandstaða geti sæmilega vel við unað. Ósk mín er sem sagt sú að fundi verði nú þegar frestað svo okkur gefist færi á að fara að vinna að nauðsynlegu samkomulagi.