Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hefði nú kannski getað fallið frá orðinu. Það er nokkuð liðið síðan ég bað um orðið og margt hefur verið sagt síðan. En það sem kom mér til að óska eftir að fá að taka hér til máls voru kannski ummæli hæstv. forseta um það hvernig staðið hefði verið að kjöri forseta. Hins vegar upplýsti hv. 1. þm. Reykn. það og staðfesti að líklega hefðu bæði forseti Sþ. og varaforsetar fengið atkvæði svona sitt úr hverri áttinni svo að ég held að við getum bara sæmilega vel við unað og ég ætla því ekki að orða það frekar.
    Ég kom því miður of seint á þennan fund. Þessi þingskapaumræða var hafin. Ég heyrði ekki viðtal við hæstv. forseta sem er tilefni þessarar þingskapaumræðu, en ég þykist geta ráðið hvert tilefnið hafi verið til þess að þessi umræða fór af stað. Ég heyrði hins vegar annað viðtal í útvarpinu, eða lok þess, þegar ég var á leiðinni hingað á fundinn. Þar var verið að ræða við --- ég held það hafi verið hjón, a.m.k. forstöðumenn, karl og kona, heimilis sem tekur til skemmri eða lengri dvalar börn og unglinga sem eiga við félagsleg vandamál að stríða eða af heimilisástæðum. Forstöðumaðurinn var spurður hvort ekki kæmu oft upp vandamál á þessu heimili þar sem unglingarnir kæmu svona sinn úr hverri áttinni og mismunandi að gerð. Hann svaraði því játandi en sagði: ,,Við leysum málin með því að tala saman.`` Og mér datt það satt að segja í hug, þegar ég hef setið hér og verið að hlusta á þessar umræður, hvort það væri ekki vel við hæfi að höfuð þessarar stóru fjölskyldu sem hér situr á Alþingi, þessara þingflokka sem koma sinn úr hverri áttinni, eins og við öll vitum, eigum þó margt sameiginlegt og getum auðveldlega unnið saman --- hvort hæstv. forseti vill ekki gerast friðar- og sáttasemjarinn og beita sér fyrir því að menn ræði nú af einlægni saman og leysi þessi vandamál og það skulu vera mín síðustu orð.