Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. hefur fjallað efnislega í þessum þingskapaumræðum um það ágreiningsefni sem hefur verið helst til umfjöllunar hér, þ.e. áform hæstv. ríkisstjórnar um að brjóta samninga við sveitarfélögin sem lögfestir voru hér á hinu háa Alþingi. Það væri því ærin ástæða til þess að ræða þau mál einnig nokkuð efnislega af því tilefni að hæstv. forsrh. hefur kosið að gera það hér í umræðum um þingsköp.
    En fyrst er rétt að taka fram að þegar hæstv. forsrh. er hér að lýsa aðdraganda þeirra samningaumleitana sem fram hafa farið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar lætur hann svo sem hann viti mest lítið um framgang þingmála og mest lítið um hvenær hæstv. ríkisstjórn tekur mikilvægar ákvarðanir. Þegar hæstv. forsrh. setti þá ósk fram við stjórnarandstöðuna sem hann lýsti hér, um að greiða fyrir þingstörfum og falla frá hefðbundnum og góðum vinnubrögðum, lá ekki fyrir sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta fjárlögum með þeim hætti sem brýtur algerlega í bág við verkaskiptasamkomulag ríkis og sveitarfélaga sem Alþingi hefur staðfest. Sú ákvörðun lá einfaldlega ekki fyrir þegar þetta tilboð var gert. Annaðhvort er hæstv. forsrh. að lýsa þessum aðdraganda á þann veg að hann reynir að sneiða hjá þessum kjarna málsins eða hann fylgist ekki betur með ákvörðunum innan hæstv. ríkisstjórnar undir forustu hæstv. fjmrh. og veit ekki hvenær hinar mikilvægustu ákvarðanir eru teknar. Það er býsna alvarlegt mál. Það var fyrst í gær sem ljóst var að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að koma þessum breytingum fram í fjárlagafrv. Það hlýtur að vera alveg augljóst að þegar hæstv. ríkisstjórn er að biðja stjórnarandstöðuflokkana að víkja frá hefðbundnum vinnubrögðum og þeir hafa léð máls á því, þá hlýtur hæstv. forsrh. að skilja að það hlýtur að vera bundið því skilyrði að slíkt samkomulag við sveitarfélögin sé ekki rofið einhliða af ríkisvaldinu af því að það hefur meiri hluta á löggjafarsamkomunni. Löggjafarsamkoman hlýtur að bera
meiri virðingu fyrir sjálfri sér en svo að hún geti staðið þannig að málum. Það verður hæstv. forsrh. að skilja og ég veit að mjög margir í þingliði ríkisstjórnarinnar skilja þetta og vilja taka tillit til þess.
    Ég skil ekki hvers vegna hæstv. forsrh. getur ekki lesið það bréf sem skrifað hefur verið og komið hefur til umræðna hér í kvöld í tilefni af ummælum hæstv. forseta í kvöldfréttum útvarpsins. Ég fæ með engu móti skilið hvers vegna ekki er hægt að lesa þetta bréf frá orði til orðs. Það er varla svo langt. Það snertir efni þeirrar höfuðdeilu sem hér er til meðferðar og umfjöllunar og ég skil ekki hvernig þingflokksformenn eiga að koma saman til ærlegra umræðna ef hæstv. forsrh. ætlar að halda þessu bréfi leyndu. Ég bara get ekki skilið hvernig ríkisstjórnarforustan ætlast til þess að fram fari ærlegar og heiðarlegar umræður ef efni þessa bréfs á að fara leynt, aðeins lýsa því í tveimur, þremur setningum

með óljósum hætti. Sú krafa er hér uppi og fullkomlega eðlileg ef þessar umræður eiga að fara heiðarlega fram og ærlega hér á eftir að bréfið verði lesið hér í umræðunni.
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. fór hér efnislega út í umræður um þetta ágreiningsefni og er óhjákvæmilegt að svara því nokkrum orðum. Engar athugasemdir voru gerðar við þann hluta í ræðu hæstv. forsrh. þar sem með öllu var vikið frá þingskapaumræðuefninu en farið út í efnslega umræðu og ég hlýt að óska eftir því að sama gildi um formann Sjálfstfl. í þessu efni. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir að frá upphafi hefði verið gengið út frá því að verkaskiptingin kæmi út á jöfnuð. ( Forseti: Má ég biðja hv. 1. þm. Suðurl. að bíða með þessa umræðu þangað til hún er á dagskrá.) Má ég spyrja hæstv. forseta, hvers vegna voru ekki gerðar athugasemdir við ræðu hæstv. forsrh. þegar hann var efnislega að fara út í þetta efni og ég er aðeins að svara þeim atriðum sem hann fór efnislega út í? Má ég spyrja, hvers vegna gildir ekki sama um þingmenn og hæstv. forsrh.? ( Forseti: Nú hefur forseti leyft hv. 1. þm. Suðurl. að svara að nokkru því sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., en þessa umræðu verður að stöðva því nú verður gefið hálftíma hlé.) Ég á auk þess eftir, frú forseti, að bera fram hér fyrirspurn vegna hinna grófu ásakana hæstv. forseta á hendur þingmönnum, að tveir ótilgreindir þingmenn hafi haft í hótunum við hæstv. forseta hér fyrr í dag um að hefja þessa umræðu áður en hún lét ummæli sín falla. Hér með liggja allir þingmenn undir grun vegna þessara ásakana um þessar hótanir og það er lágmarkskrafa að frú forseti annaðhvort biðjist afsökunar á þessum ummælum eða tilgreini þá hv. þm. sem hér áttu hlut að máli. Annars liggja allir aðrir þingmenn hér að ósekju undir þessum grófu ásökunum forsetans og óhjákvæmilegt var að koma þessum ábendingum á framfæri. En ég vil harðlega mótmæla því þegar hér er gerður sá greinarmunur í þessari umræðu að óbreyttir þingmenn fá ekki að svara efnisþáttum í ræðu hæstv. forsrh. Ég skal fullyrða og gefa hæstv. forseta fyrirheit um að ég skal einungis víkja að þeim efnisatriðum sem hæstv. forsrh. vék að og í engu meir. Ég óska eftir að njóta jafnréttis hér í þinginu á við forsrh. og tel að annað sé brot á jafnræðisreglu sem þingmenn eiga að starfa hér eftir. ( Forseti: Má ég biðja hv. 1. þm. Suðurl. að fresta þá síðari hluta ræðu sinnar meðan gefið
er hálftíma hlé. Ég held að það hljóti að vera sanngjörn krafa. Hv. þm. er auðvitað kominn langt út fyrir allt sem getur talist þingskapaumræða.) Það er að vísu rétt, en hæstv. forsrh. hefur gefið hér tilefni án athugasemda af hálfu hæstv. forseta með því að fara mjög ítarlega út í efnisatriði málsins. Og hvers vegna njóta ekki aðrir þingmenn sama réttar?
    Ég hef þar að auki ítrekað ósk mína um að þetta bréf verði lesið hér frá orði til orðs þannig að ærlegar umræður geti farið fram hér á eftir og ég vona að hæstv. forseti hindri það ekki. Ég vil aðeins í örfáum orðum taka fram að í upphafi þegar frá verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var gengið var um það samið að

nokkur munur yrði þarna á og að sveitarfélögin högnuðust lítið eitt eða um 115 millj. eða svo. Það var aldrei út frá því gengið að hér væri um að ræða fullkomnari jöfnuð á milli í þessu efni. Það er rangt.
    Í annan stað, vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið í haust og hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hér nú vitna til að fram hafi farið milli hæstv. ríkisstjórnar og sveitarfélaganna, þá innti ég formann Sambands ísl. sveitarfélaga eftir því í dag með hvaða hætti þetta hefði farið fram. Í því samtali kom fram að sveitarfélögin óskuðu eðlilega eftir því að þessi samtöl færu fram á þeim grundvelli að sá grunnur sem lagður var þegar samið var um verkaskiptinguna, þ.e. útgjöldin á árunum 1985 og 1986, yrði í heild sinni lagður til grundvallar í þessum umræðum um hugsanlegt endurmat sem eðlilegt er, enda fór samkomulagið fram á þeim tíma. En því var hafnað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að ræða á þeim grunni og einungis tekið í mál að ræða þetta út frá áætlunum ríkisstjórnarinnar um árið 1990. Eðlilega gátu umræðurnar ekki farið fram á þeim grundvelli og það verður því að líta svo á að hæstv. ríkisstjórn hafi hindrað það að þessar eðlilegu umræður færu fram milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Það er rangt að þar hafi strandað á sveitarfélögunum. Og ég hygg að það séu hér inni menn í stjórnarliðinu sem geti borið vitni um það og standi þeim hagsmunum nær. --- [Fundarhlé.]