Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 391 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara mjög mikið ofan í þetta mál þar sem flest af því sem fram hefur komið kemur fram í nál. og tel því rétt að lesa nál. upp eins og það kemur fram á framlögðu skjali, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar um nokkurt skeið og fékk til fundar við sig Ingimund Friðriksson frá alþjóðadeild Seðlabanka Íslands, Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Harald Andrésson frá Hafnabótasjóði, Birgi Þorgilsson, Kristínu Halldórsdóttur og Árna Þór Sigurðsson frá Ferðamálaráði, Jóhönnu Leópoldsdóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Guðbrand Gíslason frá Kvikmyndasjóði, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvald Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Einar Laxness frá Menningarsjóði, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði, Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Guðmund Malmquist frá Byggðastofnun, Gunnlaug Sigmundsson frá Þróunarfélagi Íslands, Markús Örn Antonsson og Hörð Vilhjálmsson frá Ríkisútvarpinu, Pál Hersteinsson veiðistjóra, Jóhönnu Ottesen frá Útflutningslánasjóði, Hrafn Pálsson frá Framkvæmdasjóði aldraðra, Jónas Jónsson og Gunnar Hólmsteinsson frá Búnaðarfélagi Íslands, Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Jóhann Guðmundsson frá landbúnaðarráðuneytinu, Magnús E. Guðjónsson og Birgi Blöndal frá Bjargráðasjóði, Árna Gunnarsson frá Listskreytingasjóði, Sveinbjörn Óskarsson frá fjármálaráðuneytinu, Þórð
Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneytinu, Hilmar Þórisson, Hauk Sigurðsson og Percy B. Stefánsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Indriða H. Þorláksson frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Birgi Björn Sigurjónsson og Pál Halldórsson frá BHMR, Guðrúnu Árnadóttur frá BSRB, Svanhildi Kaaber, Láru Ingólfsdóttur og Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Lárus Ögmundsson og Sigþrúði Ingimarsdóttur frá Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, Þorleif Pálsson frá dómsmálaráðuneytinu, Kristján Þorgeirsson frá leikmannaráði Þjóðkirkjunnar og biskup Íslands, hr. Ólaf Skúlason.
    Halldór Árnason, skrifstofustjóri Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, hefur verið nefndinni til ráðuneytis og aðstoðar.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar hefur orðið sammála um að gera.
    Samkvæmt tillögunum hækka lántökuheimildir frv. um 2.010 millj. kr. og eru meginástæður þess eftirtaldar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lántökuheimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs hækki um 1.300 millj. kr. og verði 8.670 millj. kr. Verður 2.370 millj. kr. aflað

með erlendu lánsfé, eða sem svarar til afborgana af erlendu lánsfé og endurgreiðslna til Seðlabanka. Innlend lánsfjáröflun verður alls 6.300 millj. kr. og eykst um 300 millj. kr. Aukin lánsfjárþörf stafar af eftirfarandi:
    a. Aukinn rekstrarhalli á A-hluta ríkissjóðs 460 millj.
    b. Aukin lántökuheimild Lánasjóðs ísl. námsmanna 400 millj.
    c. Lántökuheimild fyrir Endurbótasjóð menningarstofnana 300 millj.
    d. Lántökuheimild fyrir Hafnabótasjóð 50 millj.
    e. Lántökuheimild fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins 50 millj.
    f. Lántökuheimild fyrir Háskólabíó 40 millj.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Lánasjóðsins fyrir árið 1990 er fjárvöntun umfram frv. til fjárlaga um 500 millj. kr. Lántökuheimild sjóðsins er aukin um 400 millj. kr. til að mæta þeirri fjárvöntun. Endurbótasjóður menningarstofnana var stofnaður með lögum nr. 83/1989. Er hér gert ráð fyrir lántökuheimild fyrir sjóðinn og er helmingur lánsins ætlaður til framkvæmda við Bessastaðastofu, en hinn helmingurinn til framkvæmda við Þjóðleikhús. Hafnabótasjóði er veitt 50 millj. kr. lántökuheimild á árinu 1990 til þess að endurlána 30 millj. kr. til framkvæmda við dýpkun innsiglingarinnar í Sandgerðishöfn og 20 millj. kr. til hafnarframkvæmda í Grímsey. Háskólabíó er veitt heimild til 40 millj. kr. lántöku á árinu 1990 til að ljúka við byggingu ráðstefnusala fyrir þing Norðurlandaráðs í lok febrúar.
    Í öðru lagi er lagt til að heimilaðar verði erlendar lántökur vegna skuldbreytinga. Lagt er til að veita 20 millj. kr. lánsheimild til handa Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Greiðslubyrði hitaveitunnar er óeðlilega mikil á næstu þremur árum og verður lánið nýtt til skuldbreytinga og greiðslu vanskila. Með þessu móti á hitaveitan auðveldlega að geta staðið í skilum við sína lánardrottna í framtíðinni. Bæjarsjóði Siglufjarðar er veitt 50 millj. kr. lántökuheimild til að breyta skammtímalánum í langtímalán. Hitaveitu Hjaltadals er veitt 40 millj. kr. heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar og breytinga á eignaraðild, en gert er ráð fyrir því að fiskeldisfyrirtækið Hólalax hf., sem á 40% eignarhlut í hitaveitunni, hætti þátttöku en Hólahreppur og ríkissjóður reki hitaveituna áfram. Lagt er til að Skallagrímur hf. fái heimild til að taka 60 millj. kr. lán til
endurskipulagningar.
    Í þriðja lagi er lagt til að Herjólfi hf. og Hríseyjarhreppi verði heimilað að taka erlend lán til smíði og kaupa á ferjum. Lagt er til að lántökuheimild til nýrrar Vestmannaeyjaferju verði 500 millj. kr., en ákvörðun um smíði slíkrar ferju verður tekin bráðlega. Þá er lagt til að heimilað verði að taka erlent lán að upphæð 40 millj. kr. til kaupa á ferju til siglinga milli Hríseyjar, Grímseyjar og Eyjafjarðarhafna. Á lánsfjárlögum fyrir árið 1989 var heimild fyrir 35 millj. kr. láni í sama tilgangi og verður sú heimild notuð til að staðfesta kaupin en hugmyndir eru uppi

um að kaupa notað skip frá Noregi. Að gerðum þessum breytingum eru heildarlántökur innan lands og erlendis á árinu 1990 áætlaðar 41.705 millj. kr. Þar af eru innlendar lántökur 18.625 millj. kr. og erlendar lántökur 23.080 millj. kr.
    Breytingar á II. kafla frv. eru í samræmi við fjárlagafrv. fyrir árið 1990 og breytingar á því í meðförum fjvn. og Alþingis. Þar má nefna að framlag til Hafnabótasjóðs hækkar úr 20 millj. kr. í 47,5 millj. kr., framlag til Ferðamálasjóðs og sérstakra verkefna Ferðamálaráðs hækkar úr 36 millj. kr. í 38,6 millj. kr. og framlag ríkissjóðs til bóta fyrir eyðingu refa og minka hækkar úr 10 millj. kr. í 18 millj. 750 þús. kr. Þá er framlag ríkissjóðs til Húsafriðunarsjóðs takmarkað við 3,7 millj. kr. Í samræmi við fjárlagalið 09-381 í fjárlagafrv. 1990, sbr. greinargerð bls. 325, er gert ráð fyrir því að framlag til lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins og hjúkrunarkvenna verði ekki hærra en 540 millj. kr. Einnig er gert ráð fyrir 5% skerðingu á hlutdeild sókna, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs í óskiptum tekjuskatti (sóknargjöld), en áætlað er að skerðingin nemi um 37,5 millj. kr. á árinu 1990, og 15% skerðingu á hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti (kirkjugarðsgjöld), en áætlað er að sú skerðing nemi um 47,5 millj. kr.
    Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á III. kafla frv., miða fyrst og fremst að því að fjármagna skammtímaskuld ríkissjóðs við Seðlabankann í árslok 1989. Erfitt er að áætla hver yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabanka verður í árslok. Nokkur óvissa ríkir um tekjur ríkissjóðs í desembermánuði. Sama gildir um fyrirhugaða innlenda lánsfjáröflun, einkum sölu á ríkisvíxlum þar sem lausafjárstaða bankanna er óviss. Hér er heimildin því höfð rúm. Þá er fjmrh. veitt heimild að fenginni umsögn fjvn. til að gera samning við Rafveitu Siglufjarðar um yfirtöku á hluta langtímaskulda veitunnar. Verður sá samningur hliðstæður samningum sem stjórnvöld gerðu við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um yfirtöku skulda á liðnu sumri. Enn fremur er fjmrh. veitt heimild til að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktar og búfjárræktar á árinu 1988 og 1989. Að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. er loks lagt til að ríkisábyrgð sé veitt á lántöku Dýpkunarfélagsins hf. hjá Framkvæmdasjóði á árinu 1989.
    Meiri hl. nefndarinnar telur eðlilegt að opinberir sjóðir sem taka lán erlendis leiti eftir samþykki Seðlabanka Íslands um þau kjör sem í boði eru. Er gert ráð fyrir slíku samþykki í fyrsta sinn í lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1990. Stuðlar slíkt samþykki að því að sem bestum kjörum sé alltaf náð og minnkar líkur á því að ríkissjóður skaðist vegna óhagstæðra kjara annarra opinberra sjóða.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.``
    Undir þetta nál. rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Eiður Guðnason og Skúli Alexandersson.
    Ég hef hér farið yfir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn.

en vil taka fram að lokum um það ákvæði sem minnst er á undir lok nál., um lán sem einstakir sjóðir og einstakar stofnanir á vegum ríkisins sem hafa ríkisábyrgð eru að taka á erlendum mörkuðum, að eins og fram kemur í nál. er nú í fyrsta skipti krafist samþykkis Seðlabanka fyrir því að þessar lánveitingar megi fara fram. Það kom fram í máli ýmissa sem komu fyrir nefndina að þeir teldu þetta óæskilegt þar sem Seðlabanki gæti jafnvel stöðvað lántökur sem þeir hefðu tekið og töldu rétt að í ákvæðinu stæði samráð en ekki samþykki. En meiri hlutinn telur að vegna þeirra miklu hagsmuna sem ríkið hefur beri að hafa orðið samþykki í staðinn fyrir samráð. Ég vil taka þetta fram hér til þess að mönnum sé ljóst að vegna hagsmuna ríkisins --- og það er ríkið sem veitir ábyrgð á flestum þessara lána fyrir utan lán Fiskveiðasjóðs --- hlýtur það að vera krafa ríkisins að þessir sjóðir spilli ekki lánskjörum ríkissjóðs á erlendum mörkuðum, en því miður hefur það gerst á undanförnum árum að margir þessara sjóða hafa fengið óhagkvæm lán á erlendum markaði og síðan hefur ríkissjóður þurft að þola sams konar kjör vegna þessa.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að gera meiri grein fyrir áliti meiri hl. en á þskj. 392 eru þær brtt. sem meiri hl. leggur til og ég hef hér á undan gert grein fyrir.