Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Mér var ekki alveg ljóst hvernig ætti að standa að því að efna gefin loforð við Ríkisútvarpið. Það er meginmálið. Ég spurði ekki hvort það ætti að tryggja öll framkvæmdaverkefni eða rekstur stofnunarinnar heldur hvort standa ætti við gefin loforð. Það kom fram að í þessu gefna loforði var trygging fyrir því að gerðar yrðu upp þessar launaskuldir upp á 318 millj. kr. en ekki endilega að staðið yrði við allar framkvæmdaþarfir Ríkisútvarpsins. Ég tel það meginefni að fá það skýrt fram hvort stjórnvöld ætla í raun að standa við gefin loforð við Ríkisútvarpið eða ekki. Á því veltur afkoma Ríkisútvarpsins og fulltrúar þess og forsvarsmenn lýstu yfir miklum áhyggjum og mikilli óánægju með skerðingarákvæðið ef ekki yrði staðið við gefin loforð. Mér finnst þetta vera meginefni.