Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Af vangá gætti ég þess ekki við atkvgr. við 2. umr. að óska eftir því að þrír liðir við 9. brtt. á þskj. 392 yrðu bornir upp sérstaklega. Í fyrsta lagi b-liður, eða núverandi 33. gr., sem fjallar um að ríkissjóður standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóðunum. Ég legg til að sú grein verði felld úr frv.
    Í öðru lagi geri ég mér vonir um að sú skoðun hafi skilning hér í hv. þingdeild að við reynum að standa við þau lög sem sett voru hér 1987 um sóknargjöld og kirkjugarða. Sérstök nefnd er starfandi, samstarfsnefnd þjóðkirkju og Alþingis, og ég man ekki betur en hæstv. forseti Alþingis eigi sæti í þeirri nefnd. Ég vil auðvitað að það nefndarstarf gangi sem best og legg þar af leiðandi til að 35. og 36. gr., um skerðingu á sóknargjöldum og skerðingu á gjöldum til kirkjugarða, falli niður.
    Ég vil líka taka fram, herra forseti, að ég sat ekki fund fjh.- og viðskn. í kvöld þannig að ég er ekki aðili að brtt. á þskj. 418 sem fjallar um að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga um virðisaukaskatt skuli fjmrh. heimilt að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, svo og til mannúðar- og líknarstarfsemi. Ég tel, ef þingið á annað borð telur rétt að virðisaukaskattur falli niður af gjöfum til björgunarsveita og mannúðar- og líknarstarfsemi, að sú heimild eigi heima í lögum um virðisaukaskatt en frv. um það efni er nú til umræðu í Nd.