Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu lætur lítið yfir sér en innihald þess er fyrst og fremst hvorum meginn hryggjar opinberir starfsmenn eigi að liggja eftir breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sá er þó hængur á að ekki virðist hafa verið staðið nægilega vel að undirbúningi þessa máls og ekki höfð þau samráð við viðkomandi stéttarfélög sem eðlilegt og nauðsynlegt væri í þessu máli.
    Í frv. er lagt til að fólk geti valið um hvort það óski eftir því að vera í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða hvort það óski að tilheyra því félagi ríkisstarfsmanna sem hefur samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Það er eðlilegt að þessi háttur sé hafður á í byrjun en vafamál hvort festa á í lögum að sá háttur verði hafður á áfram og einungis nægi að ár hvert sé tilkynnt fyrir 15. jan. hverjum starfsmenn kjósa að framselja sinn samningsrétt.
    BHMR hefur sent frá sér bréf í tilefni þessa og vill undirstrika að við frágang kjarasamninga 18. maí sl. hafi verið gerð svohljóðandi bókun:
    ,,Samningsréttarlögin verði endurskoðuð í samvinnu við öll samtök opinberra starfsmanna. Stefnt verði að því að breytingar þær sem aðilar verða sammála um verði lagðar fram á haustþingi 1989.``
    Það er ljóst að við þetta hefur ekki verið staðið. Í fyrsta lagi er það auðvitað alvarlegt mál að heil stéttarfélög skuli ekki geta treyst því þegar slíkar bókanir eru gerðar við kjarasamninga að við þær sé staðið. En hér er ekki einungis um það að ræða að ekki hafi verið rætt við BHMR heldur átti að ræða við öll samtök opinberra starfsmanna og verður ekki séð að það hafi í rauninni verið hugsað til enda hvernig ástand skapast ef ekki verður sest niður og þessi mál gaumgæfð áður en fest verða í lögum þau ákvæði sem hér er lagt til. Því hefur Kvennalistinn flutt brtt. þess efnis að sá háttur sem er lagður til í frv. verði hafður á þetta ár en að lögin gildi aðeins í eitt ár og sá tími verði notaður til þeirra hluta sem þegar hafði verið kveðið á um með þessari bókun í kjarasamningi.