Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég því víst yfir að ég mundi verða stuttorð í það skipti um frv. það sem hér er til umfjöllunar en þeim mun langorðari við 2. umr. Nú hafa mál skipast þannig að hver mínúta er dýrmæt og best að þær mínútur sem eftir eru nýtist allar vel. Því mun ég reyna að stytta mál mitt að mun og ekki fara um víðan völl varðandi frv. heldur reyna að einskorða mig við þær brtt. sem við kvennalistakonur leggjum fram við þetta frv. auk fáeinna almennra orða um frv. Ég vil geta þess strax í upphafi að við munum að sjálfsögðu styðja þær brtt. sem fjh.- og viðskn. stendur öll að en mun koma að brtt. Kvennalistans seinna.
    Við kvennalistakonur vorum aldrei þeirrar skoðunar að kostir virðisaukaskatts væru stærri en gallar hans og greiddum þess vegna atkvæði gegn honum. Engar nýjar forsendur hafa að okkar mati komið fram til að breyta þeirri afstöðu. Þvert á móti hefur flest það komið fram sem Kvennalistinn spáði í umræðum um virðisaukaskattinn á sínum tíma.
    Helstu rök fyrir upptöku hans eru brostin. Undanþágum átti að fækka, en þeim fjölgar ört svo að nú er útlit fyrir að þær undanþágur sem nú eru frá söluskatti rati flestar inn í virðisaukaskattslögin. Kostnaður við upptöku þessa skattkerfis er mikill, það viðurkenna allir, bæði hjá skattyfirvöldum og fyrirtækjum. Það var haft á orði þegar virðisaukaskattslögin sjálf voru til umræðu að það þyrfti a.m.k. 70 ný störf við skattinnheimtu til þess að anna innheimtu þessa skatts og vafalaust mun eitthvað svipað gerast hjá fyrirtækjum því að þau eru mörg hver mjög vanbúin að mæta þessum breytingum. Þetta kerfi er flóknara, kostar þar af leiðandi meiri skriffinnsku, meiri mannafla og verður því óhjákvæmilega dýrara en það sem nú er í gildi.
    Frestun á gildistöku laganna hefur ekki verið notuð sem skyldi til undirbúnings en þau voru rökin fyrir frestuninni. Um þetta ber öllum saman sem til viðtals komu við fjh.- og viðskn. auk þess sem við höfum fengið að fylgjast með því hér á Alþingi að reglugerðir hafa verið seint á ferðinni og sumar enn ókomnar. Það var upplýst í meðförum nefndarinnar á frv. að nú yrði tekin upp öflug fræðslustarfsemi fyrir fyrirtæki. Hvað er öflugt er eflaust afstætt orð en ég hef það fyrir satt að um 20 manns muni nú fara á yfirreið til þess að hjálpa fyrirtækjum yfir byrjunarörðugleika í framkvæmd þessa skattkerfis. Það má í raun segja að eini árangur frestunarinnar sé sá að ráðrúm gafst til þess að breyta skatthlutfalli og hækka það frá því sem ákveðið var þegar lögin um virðisaukaskatt voru samþykkt hér á Alþingi. Það þarf náttúrlega engum að koma á óvart þegar svo virðist vera að í hvert skipti sem einhver tekjuöflunarfrumvörp eru til umræðu á þingi hafi skatthlutföll hækkað í þeim sömu frv. og virðist 2% eða þar um bil vera að verða sígild tala í þeim efnum.

    Þrátt fyrir það að við höfum aldrei verið fylgjandi upptöku þessa skatts og vildum helst að menn sæju að sér í tíma og hættu við gildistöku þessara laga freistum við þess nú að flytja nokkrar brtt. í þeirri von að enn sé ráðrúm til að færa eitthvað til betri vegar. Það hefði verið hægt að flytja fjölmargar brtt. við frv. sem hér er til umræðu. Við völdum þá aðferð að hafa þær fáar og leggja þar með áherslu á mikilvægi þeirra.
    Ég mun fyrst taka 2. brtt. sem er við 10. gr. og inniber að ríkið geti ekki með yfirgangi gengið þannig til innheimtu að hægt sé að nota skuldir til skuldajöfnunar. Það er í rauninni ekki líðandi að ríkið geti í krafti styrks síns viðhaft aðferðir í innheimtu sem það ekki leyfir öðrum. Við leggjum því til að greinin orðist svo:
    ,,Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum er heimilt að skuldajafna á móti endurgreiðslu enda eigi fyrirtæki ekki á sama tíma kröfu á ríkissjóð fyrir seldar vörur eða þjónustu.``
    Brtt. nr. 3 varðar skattlagningu á bókum. Þegar er í frv. að finna brtt. þar sem bækur á íslensku, hvort sem þær eru frumsamdar eða þýddar, eru undanþegnar virðisaukaskatti og er það vel og í samræmi við þá brtt. sem Kvennalistinn flutti við virðisaukaskattsfrv. hér um árið. Þó er sá galli á að þessari undanþágu er ekki ætlað að taka gildi fyrr en 16. nóv. 1990. Ég gerði það að umtalsefni í 1. umr. þessa máls hversu illa þetta kæmi niður á námsmönnum sem mundu flestir hverjir þurfa að verða sér úti um námsbækur áður en til undanþágu kæmi. Því væri óréttlátt að miða við þessa dagsetningu og það yrðu eflaust þeir sem ekki þyrftu að horfa í aurinn sem gætu keypt námsbækur, aðrir yrðu að bíða og standa þar með hallari fæti en þeir sem efnameiri væru. Við leggjum til að undanþágan taki gildi 16. sept. í stað 16. nóv. og miðum þá við uppgjörstímabil.
    Þriðja brtt., sem reyndar er nr. 1 á þskj. 397, er auðvitað sú sem mestu máli skiptir, er þess vegna nr. 1 á þingskjalinu, en ég tek hana síðast í máli mínu til þess að undirstrika mikilvægi hennar. Í frv. er aðeins lagt til að gerðar verði mjög takmarkaðar breytingar á skattlagningu matvæla. Lagt er til
að endurgreiða skuli hluta virðisaukaskatts af nokkrum tegundum matvæla, af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að verð á þeim verði álíka og ef skatthlutfallið af þessum matvörum væri 14% í stað 24,5%. Endurgreiðslu stendur svo til að fjármagna með um það bil 900 millj. kr. á næsta ári. Enn hefur því ekki verið svarað og kannski veit enginn enn þá hversu mikið fé þarf í raun. Það er einmitt ein sú reglugerð sem enn er ókomin, þ.e. hvernig standa skal að þessum endurgreiðslum. Jafnvel þótt ígildi 14% virðisaukaskatts sé á matvörum í stað 24,5% er ljóst að þarna er samt verið að skattleggja matvörur meira en gengur og gerist annars staðar. Flestar þjóðir virðast hafa hliðrað sér hjá því að leggja svo þungan skatt á nauðþurftir fólks.

    Það er erfitt að koma auga á hvers vegna þetta skatthlutfall er valið og einnig rök fyrir því um hvaða neysluvörur það gildir. Það er ekki möguleiki að sjá nein rök fyrir því hvers vegna þessir fjórir flokkar eru valdir. Ég vil ítreka að það er ekki í samræmi við þá neyslustefnu sem samþykkt var á síðasta þingi og það mismunar líka innlendri matvælaframleiðslu þannig að helst dettur manni í hug að skýringin sé að reynt hafi verið að sleppa með eins fáa flokka og hugsanlegt væri.
    Það er óvíst að þessi endurgreiðsla muni í raun, þegar til lengdar lætur, skila sér í lækkuðu verði á matvælum. Þegar er vitað að talsverðar fúlgur vantar til að standa straum af niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum næsta ár og hætt er við að verð fari því hækkandi eftir því sem líður á árið þrátt fyrir boðaðar endurgreiðslur. Mönnum er e.t.v. í fersku minni að þegar söluskattur var lagður á matvæli átti m.a. að niðurgreiða söluskatt af fiski til þess að létta þessa nýju álögu eitthvað en þær niðurgreiðslur héldust ekki að raunvirði og mér segir svo hugur um að flestir hafi nú gleymt þeim.
    Það er mikil óvissa um heildaráhrif virðisaukaskatts á verðlag og því hvort, eins og ég sagði, boðaðar endurgreiðslur verði í raun til vörulækkunar, en þess verður líka að geta að það eru ýmis önnur atriði sem vafalaust leiða til hækkunar. Ég nefndi áðan aukin umsvif og kostnað við framkvæmd skattsins og því er t.d. spáð að aukin fjárbinding fyrirtækja í verslun og iðnaði vegna skorts á gjaldfresti við innflutning muni leiða til hærra vöruverðs. Talað er um u.þ.b. 2%.
    Það fer ekki á milli mála að alvarlegasti og stærsti og óréttlátasti galli þessara laga um virðisaukaskatt er matarskatturinn illræmdi og hann er enn til staðar þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar til að milda hann. 2. minni hl. telur það hættulegt fyrir afkomu hinna tekjuminni í þjóðfélaginu hve margir virðast hafa sætt sig við þessa óréttlátu skattheimtu af nauðþurftum. Þó að samtök launþega lýsi sig sum hver enn andvíg matarskatti er eins og flestir hafi sætt sig við þá sárabót sem boðið er upp á, þ.e. endurgreiðslurnar.
    Í raun má halda því fram með nokkrum rökum að þegar ekkert virðist eftir standa af því sem talið var virðisaukaskattinum til kosta í upphafi séu engar ástæður fyrir upptöku hans aðrar en einhver óskiljanleg og blind aðdáun á kerfisbreytingum, að geta gumað af því að hafa staðið að einum umfangsmestu kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið í skattheimtu. Ég er hrædd um að langlífari verði þau eftirmæli sem af þessari skattheimtu muni hljótast, þ.e. dómur sem hlýtur að falla um óréttmæti þess að skattleggja lífsnauðsynjar fólks.
    Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það í lokin að það er athygli vert hve menn hafa breytt um afstöðu hér inni á Alþingi til þessa skatts. Þeir sem hvað háværastir voru í andstöðu við skattinn hafa nú þagnað, aðrir hafa breytt um áherslur. Það eru kvennalistakonur einar sem aldrei hafa hvikað frá andstöðu sinni við þessa skattheimtuleið. Við viljum

því mótmæla henni og munum ekki samþykkja frv. sem hér er til umræðu nema því aðeins að brtt. okkar nái fram að ganga.