Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Góðir fundarmenn. Ég hlýt að hefja mál mitt á því að vekja athygli ræðuritunar, þó ekki væri annarra, á því hversu fjölmennt hér er í þingsal. Þessa stundina er akkúrat enginn þingmaður viðstaddur og er þó verið að ræða eitt af stærri málum þingsins þessa dagana. Þegar hv. síðasti ræðumaður flutti sína ræðu, þá voru einn til tveir þingmenn í salnum sem hlýddu á hans mál og inni í þeirri tölu er hv. þm. Friðrik Sophusson. Hinn þingmaðurinn var sá sem hér talar. Það er nefnilega afar merkilegt að verða vitni að því hvað áhugaleysi þingmanna fyrir þessu máli er augljóst í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga sem þingmenn láta frá sér fara á tyllidögum og úti í bæ og í fjölmiðlum í baráttu sinni við matarskatt og skattpíningu ríkisstjórnarinnar yfirleitt. Það eru greinilega innantóm orð, meiningarlaus með öllu, og aðeins sögð til þess að slá um sig eða slá pólitískar keilur eins og hæstv. utanrrh. mundi orða það.
    En talandi um matarskatt þá er það einsýnt að stjórnarliðar hafa gefist upp í þeirri baráttu. Þeir hafa gert sér grein fyrir því að það verður að finna aðrar leiðir til þess að minnka matarkostnað heimilanna og því til vitnis hefur nú verið dreift hér í deildinni hugmyndum að aðferð fyrir almenning til þess að skera matarinnkaup við nögl, til þess að neyta minni matar --- sem er reyndar afar athyglisvert og er þá væntanlega verið að fylgja stefnu hæstv. forsrh. sem boðar mjög gjarnan hina svokölluðu sultarólastefnu.
    Í ræðu minni hér við 1. umr. var ég með fjölmargar spurningar til hæstv. fjmrh. og reyndar annarra ráðherra, þar á meðal hæstv. landbrh. Eins og ég hef áður getið eru þeir ekki hér viðstaddir nú en ég veit til þess að hæstv. fjmrh. kemur hér innan stundar og mun þá svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann verða lagðar þannig að ég ætla að leyfa mér í upphafi máls míns að gera grein fyrir þeim brtt. sem Frjálslyndi hægriflokkurinn leggur fram við þetta frv. og birtast á þskj. 385.
    Fyrsta brtt. orðast svo: ,,C-liður 1. gr. orðist svo:
    Rekstur skóla og menntastofnana, þar með talin starfsemi sérskóla og námskeiðahald, svo og ökukennsla.``
    Hér er verið að taka inn í sérskóla og námskeiðahald þar sem öll önnur kennsla virðist vera komin inn. Fyrir utan þessa tvo þætti þykir okkur rétt að beita sanngirnissjónarmiðum og taka allan þáttinn, allt sviðið því að okkur þykir einsýnt að að öðrum kosti verði órói á þessum markaði og menn muni bera sig illa þannig að við tókum þarna inn sérskóla og námskeiðahald. Það er reyndar þegar búið að koma þarna inn dansskólum þannig að okkur þykir einsýnt að til þess að fyllstu sanngirni sé gætt þá verði þetta svona orðað.
    Önnur brtt. sem við gerum er við 6. gr. og orðast svo: ,,Við c-lið bætist: svo og íslenskar hljómplötur, snældur og geisladiskar.``
    Þarna er má segja sama hugsunin að baki, þ.e. flestir menningarliðir eru komnir inn í frv. með

undanþágur, tímarit, bækur, landsmála-, héraðs- og fréttablöð, afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva, en út af borðinu stendur enn þá íslensk tónlist og þess vegna gerum við tillögu um það að hún njóti sömu undanþágu og aðrir menningarþættir og væntum þess að menn geti tekið undir þá tillögu.
    Í þriðja lagi erum við með brtt. við 7. gr. sem hljóðar svo: ,,Við bætist nýr liður, a-liður, er orðist svo:
    Skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr., telst heildarskattverð allra greiddra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem greidd hefur verið á tímabilinu.``
    Hérna er að mínu mati um mjög veigamikla breytingu að ræða þar sem þarna er farið fram á að ekki verði farið eftir hinni svokölluðu reikningsaðferð heldur eftir greiðsluaðferð sem þýðir það að virðisaukaskatt ber ekki að greiða nema af greiddum reikningum og sömuleiðis af greiddri vinnu og þjónustu. Í dag er það svo í söluskattskerfinu að það er reikningskerfið sem farið er eftir sem þýðir það að strax og gerður hefur verið reikningur þarf að greiða af honum söluskatt á tilteknum tíma hvort sem varan hefur verið greidd eða ekki þannig að seljanda er gert að greiða ríkissjóði í söluskattskerfinu 25% söluskatt sem ríkissjóður á í raun hjá þriðja aðila. Eins má benda á að í mörgum tilfellum hafa verið gerðir reikningar, vara seld og send af stað, henni síðan skilað eftir einhvern tiltekinn tíma, en þrátt fyrir það þarf seljandi að skila söluskatti. Þá má einnig benda á það að mikið er selt nú orðið í póstkröfu. Póstkröfur eru mjög oft ekki leystar inn, ekki greiddar, þar af leiðandi endursendar eftir einhvern tiltekinn tíma og nákvæmlega það sama skeður. Seljanda er gert að greiða ríkissjóði söluskatt sem ríkissjóður á í raun enga heimtingu á.
    Sömu rök eru fyrir vinnu og þjónustu. Menn fara í vinnu eða þjónusta einhverja fyrir tiltekna reikningsupphæð. Hún liggur síðan í vanskilum í fleiri, fleiri mánuði, en engu að síður er mönnum gert að gera ríkissjóði skil
á söluskatti sem ríkissjóður á hjá þriðja aðila. Þetta finnst mér persónulega alls óviðunandi, hef reyndar persónulega reynslu af slíkum viðskiptum og tel að þessu verði að breyta og er reyndar fullviss um að einhvern daginn komist hér til valda ríkisstjórn sem tekur þetta mál upp og breytir. Ég geri mér hins vegar engar grillur um það að sú ríkisstjórn sem nú situr og sá meiri hluti sem henni fylgir muni rétta upp hægri höndina þegar þessi brtt. verður borin upp í hv. deild. Engu að síður ítreka ég það óréttlæti sem hér kemur fram, að mönnum skuli vera gert að greiða ríkissjóði fjármagn sem ríkissjóður á inni hjá þriðja aðila.
    Í fjórða lagi erum við með brtt. við 8. gr. um að greinin orðist svo:
    ,,Virðisaukaskattur skal lagður á með tveimur skattþrepum og skulu þau ákveðin í fjárlögum ár hvert. Hið lægra virðisaukaskattsþrep, sem ekki má

vera hærra en 6%, skal notað við álagningu á matvæli og aðrar helstu nauðsynjavörur heimilanna samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Allar aðrar vörur og þjónusta, svo og annað sem er virðisaukaskattsskylt samkvæmt lögum þessum, skal bera skatt samkvæmt hærra þrepinu sem ekki má vera hærra en 24,5%.``
    Þannig hljóðar fjórða brtt. og eins og hv. þm. heyra er hér verið að gera tilraun til að ráðast til atlögu við hinn margfræga matarskatt og reyna að lina þær þjáningar sem hann hefur valdið. Um þetta er náttúrlega hægt að hafa langt mál sem ég ætla mér ekki að gera. Ég vil hins vegar benda á það að á síðasta þingi flutti ég þessa sömu tillögu, reyndar með hærra skatthlutfallinu sem var 22% þá eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Meðflm. og stuðningsmenn að því frv. voru þingmenn Borgfl. og reyndar fluttu hv. þm. Júlíus Sólnes og hv. þm. Guðmundur Ágústsson þessa tillögu einnig í Ed. Nú er það svo að þessi hv. flokkur hefur ekkert viljað tjá sig um þetta frv. sem þó tekur á því sem hann segist í orði vera að berjast gegn, matarskattinum, og væri afar fróðlegt að fá einhvern flokksmann þeirra til þess að tjá sig um málið og hvort þeir séu sáttir við þá niðurstöðu sem fengist hefur sem er nákvæmlega sú sama og lá fyrir þegar sá flokkur gekk til liðs við þessa ríkisstjórn.
    Sama má segja um hv. þm. Alþb. Þeir stóðu að tillögu sem þessari. Ég man nú ekki hvort það var nákvæmlega sama prósentutalan en hygg þó að það hafi verið allnærri lagi. Ég vitnaði hér í orð hæstv. landbrh. varðandi matarskattinn í umræðunni í fyrra þar sem hann hafði uppi mörg stór og þung orð um þá skattlagningu og óskaði ég þess í fyrri umræðunni að hæstv. landbrh. tjáði sig um það hvaða forsendur hefðu breyst svo mikið að hann gæti nú sætt sig við þennan skatt sem hann sagði þá að alþýðubandalagsmenn mundu aldrei fella sig við og gætu aldrei staðið að slíkri skattlagningu. Þar hefur sem sagt orðið veruleg hugarfarsbreyting á. Nú standa þessir hv. þm. Alþb. að matarskattsfrv. og það meira að segja undir forustu fjmrh. þess flokks. Hins vegar ætla ég ekki að gera kröfu um það að hæstv. landbrh. komi hér og geri grein fyrir stefnubreytingu Alþb. varðandi fólkið í landinu. Hún er augljós öllum og það þarf ekkert að fá hann hér upp til þess að útskýra það neitt nánar. ( Forseti: Ákveðið hafði verið að gera hlé á fundarhöldum í deildinni kl. 7 og vill forseti endilega standa við það og spyr því hv. ræðumann hvort hann sé tilbúinn að gera hlé á ræðu sinni og fresta henni til fundar sem hefst kl. 9 í kvöld.) Hæstv. forseti. Ég þekki ekki forseta að öðru en að standa við orð sín og vil ekki verða þess valdur að hann geri það ekki hér í kvöld og því fresta ég ræðu minni. ( Forseti: Ég þakka hv. þm. fyrir.)