Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið. Ég ætti kannski reyndar að byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Það var athyglisvert, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason kom aðeins inn á, að í svörum ráðherrans kom staðfesting á því sem við höfum sagt, að allur undirbúningur við gerð þessa frv. er í molum og hefur verið ónógur þrátt fyrir verulegan og góðan tíma til að standa að því verki.
    Í stuttri ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann svaraði fimm af mínum spurningum kom fram að verið væri að skoða mál, verið væri að kanna mál, verið væri að vinna í og verið væri að endurskoða. Það þarfnast nú varla skýringar og þetta styður náttúrlega þá skoðun sem fram hefur komið hjá nokkrum stjórnarandstæðingum að frv. þetta er ekki nógu vel undirbúið eins og það liggur hér fyrir.
    Ef ég fer í sömu röð yfir svörin og þau bárust frá hæstv. ráðherra er það athyglisvert varðandi viðhald eða endurbætur á húsnæði að engin könnun hefur farið fram á því hvort þessi 7% viðmiðun af fasteignamati húseignar sé raunhæf eða ekki. Hæstv. fjmrh. virtist álíta að svo væri en lýsti því þó yfir að hann væri tilbúinn að endurskoða þetta eftir svona 1--2 ár í ljósi reynslunnar. Í sjálfu sér ber að fagna því að ráðherra sé tilbúinn að endurskoða þennan þátt sem ég hygg að falli í skaut annars aðila ef á að bíða í 1--2 ár eftir því.
    Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort skynsamlegt væri að binda þetta við almanaksár eins og það er núna í staðinn fyrir að binda það við 12 mánaða tímabil. Ég útskýrði hér áðan að ef aðilar ætluðu í framkvæmdir til að ná þessu tiltekna viðmiðunarmarki væri það ógerningur seint á ári því þeir hreinlega næðu ekki að uppfylla skilyrði á svo skömmum tíma. Þess vegna hefur verið lögð fram brtt. þess eðlis að miða við 12 mánaða tímabil.
    Ég er nú ekki klár á því hvað er meðalverð á íbúðum t.d. í Reykjavík. Ég gæti vel ímyndað mér að það væri í kringum 6 millj. eða eitthvað slíkt. Hæstv. ráðherra veit kannski betur í því efni. En sé það nærri lagi þarf viðkomandi aðili að kosta til 420 þús. kr. til að uppfylla þessi skilyrði. Hver heilvita maður sér að það eru ekki margir sem ráða við slíkar endurbætur. Þess vegna er það alveg nauðsynlegt að mínu viti að lækka prósentuna úr 7%. Við leggjum til 3%. Ég er ekkert endilega að segja að það sé hin eina sanna og rétta prósentutala en mér þykir alveg einsýnt að viðmiðunin er of há og hana þurfi að lækka.
    Varðandi bókaþáttinn kom fram að það þýddi verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð ef undanþágurnar tækju gildi strax við áramót. Það eru ákveðin rök út af fyrir sig og ég get í sjálfu sér skilið þau og ætla ekkert að gagnrýna þau. Ég hefði öllu frekar átt að spyrja hvað það mundi valda miklu tekjutapi fyrir ríkissjóðs að hefja undanþágur 1. sept. þannig að komið væri í veg fyrir að þetta íþyngdi námsmönnum eins og mikið hefur verið komið inn á í þessari

umræðu í báðum deildum. Ég legg til að ráðherra skoði það milli 2. og 3. umr. hvort ekki megi taka undir þá brtt. sem hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni, ég hygg bæði frá Kvennalista og Sjálfstfl., að færa þessa dagsetningu til. Annars vegar hygg ég að það sé 16. sept. sem farið er fram á, hins vegar 1. sept.
    Varðandi verðlagseftirlit fannst mér það blandast svolítið inn í umræðuna um tollkrít. Hæstv. ráðherra sagði að hann vildi passa upp á að fyrirtæki gætu ekki sótt sér verðhækkanatilefni til virðisaukaskattsins. Ég hlýt að inna eftir því hvernig á að koma í veg fyrir slíkt. Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að hafa neytendakannanir og kanna vöruverð í hinum ýmsu verslunum og birta það til leiðbeininga fyrir neytendur. En í frjálsri álagningu getur ráðherra aldrei komið í veg fyrir að verslunin veiti þessari hækkun út í verðlagið. Það er ekki nokkur einasta leið. Það er annaðhvort frjáls álagning eða ekki og meðan hún er þá getur ráðherra ekki komið til innflutningsverslunar og krafið hana svara við því hvers vegna hún hækkar sínar vörur. Henni er í lófa lagið að gera það. Hins vegar er það bara eðli markaðarins að menn verða að halda sig við samkeppnisaðilana. Ekki þýðir að hækka sínar vörur upp úr öllu valdi. Að sjálfsögðu þarf að skoða þetta í heildarmynd og það hef ég gert að ég hygg. Það er að mörgu leyti rangt og að sumu leyti rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta sé til bóta fyrir dreifbýlisverslunina. Í flestum tilfellum er þetta til lítilla bóta einfaldlega vegna þess að dreifbýlisverslun í dag fær vörurnar á sama verði og verslunin í Reykjavík frá öllum stærstu innflytjendum. Það er sama verð þannig að þessi þáttur, söluskattur á flutningskostnað, er ekkert inni í því verði í dag. Þessi rök falla að mestu leyti um sjálf sig en ekki í þeim tilfellum þegar dreifbýlisverslunin á viðskipti við smærri aðila.
    Það kom ekki fram í máli ráðherra hvað það þýddi í krónum og aurum fyrir ríkissjóð að veita þessa heimild. Hins vegar sagði hæstv. ráðherra að verið væri að vinna í þessu og athuga hversu mikið mætti breikka þessa undanþáguheimild. Það er mín skoðun að eitt eigi yfir alla að ganga í
innflutningi og ekki eigi að vera að sigta út og mismuna atvinnugreinum þannig að ég get engan veginn sætt mig við það ásigkomulag og þá stefnu sem boðuð er í frv. í dag. Auðvitað njóta heildsalar, eins og aðrir, einhvers hags af því að draga innskatt frá hinum ýmsu þáttum rekstrar síns en það er ekki málið í þessu dæmi. Það er alveg ljóst að verði ekki veitt tollkrít leiðir það til hækkunar vöruverðs í landinu. Þá gildir einu hvort heildsali verslar með 45 daga víxil eða ekki. Það skiptir nákvæmlega engu máli og eru engin rök í þessu dæmi.
    Varðandi fyrirtækjabifreiðar. Með þessu frv. er komið í veg fyrir að lítil fyrirtæki og einyrkjar sem verða svo þúsundum skiptir í þessu kerfi geti notfært sér litlar bifreiðar, stationbifreiðar. Nú verða þeir, ef þeir vilja fá að skrá bifreið á fyrirtækið, að vera með 9 manna bifreið eða stærri. Hæstv. ráðherra lýsti því

yfir að þetta væri eitt af því sem væri verið að skoða og taldi að fara þyrfti yfir skráð fyrirtæki og meta í hverju tilfelli fyrir sig hvað fyrirtækið þyrfti á stórri bifreið að halda. Þetta er náttúrlega gersamlega óvinnandi verk. Hins vegar fannst mér það skína í gegnum mál hans að fjöldinn væri látinn líða fyrir nokkra svindlara sem hann er hræddur um að séu að notfæra sér glufur í þessu kerfi. Fjöldinn á ekki að þurfa að líða fyrir það þó að einhverjir örfáir einstaklingar slæðist inn og misnoti þessa heimild. Það á ekki að koma í veg fyrir að allur fjöldinn geti nýtt sér þetta.
    Það var einn liður sem hæstv. ráðherra svaraði ekki og ég hygg að það hafi verið með vilja. Það var sú auglýsing sem ég minntist hér á. Ég ætla ekki að rifja upp allt það sem ég sagði um þá auglýsingu annað en það að ég tel innflutningsverslun og heildsölu mjög misboðið með því dæmi sem þar er sett upp. Fólk er leitt út á hálan ís, látið trúa því að þarna sé um raunhæft dæmi að ræða sem sýni að heildsalar séu í raun hinir mestu okrarar. Dæmið sýnir fram á það að heildsali notar 70% álagningu en smásali 35% álagningu. Hver einasti maður sem þekkir eitthvað til verslunar veit að þetta er alrangt. Ég segi að þessu dæmi hafi verið stillt svona upp af annarlegum hvötum. Meðan það er ekki leiðrétt hlýtur það að teljast rétt skoðun hjá mér.
    Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta glatt hæstv. landbrh. Honum fannst það ánægja og heiður að fá að koma hér í ræðustólinn og segja örfá orð svona eins og hann væri í afmælisboði einhvers staðar. En vörn hans var afar veik. Fyrir tveim árum lýsti hæstv. landbrh. því yfir, og ég fór yfir það hér, að Alþb. gæti aldrei fallist á þá skattlagningu sem matarskattur héti. Ég veit ekki betur en matarskattur sé enn til staðar og ég veit ekki betur en alþýðubandalagsráðherrar standi að því að leggja þetta frv. fram í dag. Því fannst mér vörn ráðherra ansi veik. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. ráðherra að stefnan ætti að vera tvö þrep og hún er tvö þrep. Ég tel að það hafi komið fram í máli hæstv. fjmrh. þegar þessi umræða var hér fyrst í deildinni. En í dag er bara eitt þrep. Tveggja þrepa skattur er ekki til, ekkert innan gæsalappa eins og hæstv. landbrh. vildi láta að liggja í sínu máli.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég ítreka hins vegar að verðlagshöft mega ekki hefja innreið sína aftur á Íslandi. Mér fannst það liggja í orðum hæstv. fjmrh. að það væri í deiglunni og gripið yrði til aðgerða ef hann sæi fram á hækkandi verðlag með tilkomu virðisaukaskatts. Það er hins vegar alveg ljóst að virðisaukaskattur mun leiða til hækkandi vöruverðs á allri innfluttri vöru.