Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þess að mér gafst ekki tækifæri við lok 2. umr. til að víkja örfáum orðum að tveimur atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Inga Björns Albertssonar í lok umræðunnar vil ég í fyrsta lagi taka fram að það er ekki með ráðnum huga gert að í auglýsingu á vegum ríkisskattstjóraembættisins um útreikninga í virðisaukaskatti sé sérstaklega verið að gefa til kynna að álagning í heildverslun sé óeðlilega mikil. Það dæmi sem þarna er tekið er eingöngu byggt upp af reikningslegum ástæðum. Sjálfsagt hefði mátt taka annað dæmi með öðrum tölum en ég get fullvissað hv. alþm. um að í þessari auglýsingu er ekki verið að koma áleiðis þeim boðskap að álagning í heildverslun sé þetta há og þessum mun hærri hjá heildsöluverslun en smásöluverslun eins og tölurnar gefa til kynna. Mér láðist að svara þessari spurningu hv. þm. eins og hann benti á hér við lok 2. umr. en ég vildi ekki ljúka þessari umræðu án þess að koma þessu á framfæri alveg skýrt.
    Í öðru lagi vil ég ítreka það sem ég lét koma fram hér áður að ég hef undanfarið átt í viðræðum við hagsmunaaðila um upptöku virðisaukaskatts. Og eins og fram kom í máli mínu hér áðan hafa m.a. aðilar vinnumarkaðarins í þeim viðræðum lagt mikla áherslu á að ríkisstjórnin beiti áhrifum sínum til að stemma stigu við verðhækkunum við upptöku virðisaukaskatts. Í kjölfar þessara viðræðna tel ég nauðsynlegt að undirbúa ákvörðun eins og ég gat um áðan að greiðslufrestur verði veittur við innflutning á vörum þannig að hindrað verði að upptaka virðisaukaskatts verði tilefni til almennra verðhækkana nú um áramótin.
    Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að hv. þm. taldi nauðsynlegt að fá nánari útskýringar á því sem ég sagði hér áðan. Ég vænti þess að þessi orð fullnægi þeim óskum.