Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. hefur leyft sér að flytja brtt. á þskj. 431. Þessi brtt. var kölluð aftur við atkvæðagreiðslu við 2. umr. þessa máls og er hér til umræðu og afgreiðslu. Þessi tillaga gerir ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé skylt að framkvæma greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli með ákveðnum hætti. Í lögum um virðisaukaskatt segir svo í 3. mgr. 34. gr., með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur fjmrh. ákveðið að ákvæði 109. gr. tollalaga, nr. 55/1987, um greiðslufrest aðflutningsgjalda af innfluttum vörum, skuli gilda með sama hætti um greiðslu virðisaukaskatts við innflutning. Gjalddagi skal eigi vera síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts þess tímabils þegar tollafgreiðsla fer fram.``
    Í nefndarstörfum hefur komið fram, ekki eingöngu af hálfu fulltrúa verslunarinnar heldur eru það einnig skoðanir opinberra aðila, þeirra sem komu til nefndarinnar á vegum fjmrn., að verði ekki um slíkan greiðslufrest að ræða geti það og muni að öllum líkindum leiða til þess að verðlag muni hækka nokkuð. Hugmyndir manna um hve verðlag muni hækka mikið eru mismunandi. Lægst hefur verið nefnt 0,5% en aðrir hafa farið upp fyrir 2%.
    Nú rétt í þessu gaf hæstv. ráðherra yfirlýsingu sem ég leyfi mér að skilja svo að hann muni beita 3. mgr. 34. gr. laganna um virðisaukaskatt í svo miklum mæli að ekki þurfi að koma til hækkunar á almennu verðlagi vegna þess að heimildin sé ekki nýtt. Ég skildi orð hans á þann veg og í trausti þess að framkvæmdin verði með þeim hætti að heimildin verði nýtt og verð hækki ekki af þeim sökum tel ég eðlilegt að við flm. brtt. á þskj. 431 köllum þá tillögu aftur og væntum þess að hæstv. ráðherra framfylgi yfirlýsingu sinni á þann veg að fullt samkomulag geti orðið þar um milli hans og hæstv. ríkisstjórnar annars vegar og verslunarinnar og annarra þeirra sem hagsmuna hafa af því að þessu ákvæði í 3. mgr. 34. gr. verði beitt hins vegar.