Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í ljósi þess að tíminn er nú nokkuð liðinn og miðnætti hefur gengið í garð ætla ég að stytta mjög mál mitt í framsögu fyrir þessu frv. Í framsöguræðu minni í hv. Ed. var hins vegar að finna ítarlega greinargerð fyrir öllum helstu efnisþáttum þessa frv. Það birtist hv. Nd. að mestu leyti í óbreyttum búningi. Þær breytingar sem gerðar hafa verið taka að mestu mið af niðurstöðum fjárlagafrv. við 3. umr. sem kynntar verða hér á morgun.
    Það frv. til lánsfjárlaga sem ég mæli hér fyrir mótast fyrst og fremst af því að þenslumyndandi áhrif ríkissjóðs og opinberra lánastofnana á lánsfjár- og peningamörkuðum á árinu 1990 verða hverfandi og munu lækka um 8 milljarða kr. frá því sem verið hefur í ár. Hrein innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs og opinberra lánastofnana mun lækka í kringum 4 milljarða á árinu 1990 og eru góðar horfur á að hægt verði að ná henni án þess það hafi áhrif á vaxtastigið í landinu. Það er rétt að vekja athygli á því að þetta frv. til lánsfjárlaga er miðað við að innlendi lánamarkaðurinn hefur þróast í átt til aukins jafnvægis á árinu 1989. Það hefur dregið úr eftirspurn eftir lánsfé og betra jafnvægi komist á milli aukningar inn- og útlána innlánsstofnana. Gætir þar áhrifa af samdrætti í einkaneyslu og fjárfestingu auk þess sem birgðir
útflutningsvara eru með allra minnsta móti um þessar mundir. Í kjölfar þessa hafa raunvextir lækkað og lausafjárstaða innlánsstofnana hefur farið batnandi. Útlit er fyrir að hún batni um tæpa 6,3 milljarða kr. á árinu 1989.
    Helstu niðurstöður peningamálaáætlunar vegna ársins 1990 benda til lítils háttar rýrnunar lausafjárstöðu innlánsstofnana og horfur eru á að lán og endurlán innlánsstofnana aukist um 15%. Samkvæmt lánsfjáráætlun og því frv. sem hér er mælt fyrir er reiknað með að heildarlántökur opinberra aðila, opinberra fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja, nemi í kringum 40 milljörðum kr.
    Eins og nú er ástatt í þjóðarbúskapnum er ekki talið ráðlegt að ríkissjóður greiði á næsta ári niður erlendar skuldir sínar, en jafnframt er leitast við að móta þá stefnu að erlendar skuldir verði ekki auknar. Ríkissjóður mun því taka ný erlend lán á árinu 1990 fyrir því sem nemur afborgunum af eldri lánum og hugsanlegum greiðslum ríkissjóðs til Seðlabanka á þeim lánum sem hann þarf að standa skil á þar frá fyrri árum. Verulega mun draga úr innlausn spariskírteina á næsta ári. Áætlað er að innlausn á árinu 1990 verði 2 milljarðar en áætlun um innlausn á árinu 1989 var 3,8 milljarðar kr. Hrein lánsfjáröflun í formi spariskírteina á næsta ári er því áætluð um 4 milljarðar kr. samanborið við 2,2 milljarða kr. á árinu 1989.
    Eins og hv. alþm. er kunnugt á stærsti hluti innlenda fjármagnsins uppruna sinn að rekja til lífeyrissjóðanna. Áætlað er að ráðstöfunarfé þeirra verði um 24 milljarðar kr. á áætluðu meðalverðlagi

næsta árs og aukist að raungildi um 18% frá því sem það er áætlað á yfirstandandi ári. Sú aukning skýrist einkum af tvennu: Lokaáfanga í breikkun iðgjaldsstofns lífeyrissjóðanna sem kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs og stækkun eignastofns lífeyrissjóðanna sem leiðir til mjög vaxandi vaxtatekna og afborgana. Reiknað er með að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af byggingarsjóðunum fyrir 45% af ráðstöfunarfé sínu, þ.e. fyrir 10,8 milljarða kr., og er þá miðað við að kauphlutfallið lækki úr 55% í 45% af ráðstöfunarfé.
    Í þjóðhagsáætlun fyrir 1990 er reiknað með að viðskiptahallinn verði um 10 milljarðar kr. eða um 3% af áætlaðri landsframleiðslu sem er svipað og reiknað var með í ár. Verður slíkt að teljast nokkur árangur í ljósi þess að næsta ár mun verða þriðja samdráttarárið í röð og samdráttur útflutningstekna verður umtalsverður. Þessi árangur verður enn meiri ef haft er í huga að flugvélakaup Flugleiða munu nema tæpum 8 milljörðum kr. á næsta ári. Erlendar lántökur til lengri tíma eru áætlaðar rúmur 21 milljarður kr. og greiðslur þjóðarbúsins af löngum erlendum lánum eru áætlaðar tæpir 25 milljarðar kr. á árinu 1990, þar af afborganir um 10 1 / 2 milljarður og vextir 14 milljarðar. Greiðslubyrði erlendra lána mun aukast á yfirstandandi ári og því næsta og eru ástæður þess auknar erlendar skuldir og einnig hækkun á meðalvöxtum af erlendum lánum í um 8,5%.
    Ég vil, virðulegi forseti, einnig vekja athygli á því að á allra síðustu árum hafa innlendar stofnanir með ríkisábyrgð leitað á erlendan lánamarkað í vaxandi mæli í stað þess að taka erlend lán fyrir milligöngu ríkissjóðs, Framkvæmdasjóðs Íslands eða annarra. Allar þessar stofnanir taka lán í skjóli ríkisábyrgðar og eru kynntar sem slíkar á alþjóðamarkaði. Hins vegar hefur í mjög takmörkuðum mæli verið fylgst með lántökustarfsemi þeirra enda þótt miklir hagsmunir séu í húfi fyrir ríkissjóð og mikilvægt sé að samræmi sé á milli þeirra lánskjara og skilmála sem stofnanir með ríkisábyrgðir og ríkissjóður sjálfur njóta á alþjóðlegum lánamörkuðum. Því er tekið upp það nýmæli hér í frv. að gera lánasjóðum og öðrum aðilum sem njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum skylt að kynna Seðlabanka Íslands í umboði fjmrn. fyrir
fram um áform sín um erlendar lántökur og leita eftir samþykki hans á þeim kjörum og skilmálum sem í boði eru hverju sinni. Þetta ákvæði er tekið upp til að tryggja að samræmi sé á milli þeirra lánskjara sem stofnanir með ríkisábyrgð og ríkissjóður sjálfur njóta á alþjóðlegum mörkuðum. Að dómi kunnáttumanna á þessu sviði er talið mikilvægt að þetta ákvæði nái fram að ganga vegna þess að það getur tryggt hagkvæmari lántökur Íslendinga á erlendum lánamörkuðum.
    Virðulegi forseti. Fjárfestingarlánasjóðirnir gegna þýðingarmiklu hlutverki í fjármögnun fjárfestinga á Íslandi, ekki hvað síst sökum þess hvað áhættufjármagn í atvinnurekstri er óverulegt í okkar landi. Í lánsfjáráætlun fyrir 1990 eru ný útlán fjárfestingarsjóðanna áætluð um 20 milljarðar kr. Er

það svipuð fjárhæð og áætluð var fyrir þetta ár. Endurskoðuð áætlun fyrir yfirstandandi ár felur í sér að útlánin verði nálægt 25,7 milljarðar kr. Ný útlán fyrir 1990 verða því um fjórðungi lægri en á yfirstandandi ári. Stafar þessi lækkun fyrst og fremst af minnkandi umsvifum Atvinnutryggingarsjóðs og Framkvæmdasjóðs. Fjármögnun fjárfestingarlánasjóða, sem útlánastarfsemi þeirra byggist á, gerist sem kunnugt er með þrennum hætti. Í fyrsta lagi eigin fjármögnun, að fé losnar úr rekstri. Í öðru lagi með framlögum frá hinu opinbera og skatttekjum eins og lög ákveða og í þriðja lagi með lánsfé eins og ákveðið er í lánsfjárlögum. Til að standa undir framangreindum heildarútgjöldum þurfa sjóðirnir að taka að láni um það bil tæpa 17 milljarða kr. Framlög og skatttekjur nema tæpum 3 milljörðum og eigið ráðstöfunarfé nemur aðeins um 1 / 2 milljarði kr. eða 2,4% af heildarútlánum.
    Virðulegi forseti. Í frv. er með hefðbundnum hætti einnig gerð grein fyrir ýmsum skerðingarákvæðum sem og fjármögnun byggingarsjóðanna og enn fremur lántöku vegna ýmiss konar framkvæmdaáforma á næsta ári. Ég tel hins vegar óþarfa hér við þessa 1. umr. með tilliti til þess hver tíminn er að rekja þessi atriði nánar, en tækifæri mun gefast til að víkja að þeim við 2. umr. eftir að fjh.- og viðskn. og aðrir deildarþingmenn hafa haft tækifæri til að kynna sér málið nánar. Ég mælist þess vegna til þess, virðulegi forseti, að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.