Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki tekið undir þá bjartsýni sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. til lánsfjárlaga. Ég er ekki sammála honum um að jafnvægi hafi náðst og tel að til marks um það sé sú útgjaldastefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt á þessu ári og mun fylgja á næsta ári. Nú er ljóst að halli á ríkissjóði verður um það bil 5 milljarðar á yfirstandandi ári og gera má ráð fyrir því að hallinn á næsta ári verði ámóta mikill.
    Það eru allar líkur á því að lánsfjáröflun í ár muni ganga tregar en gert var ráð fyrir og ríkissjóður verði þess vegna að brúa bilið með erlendri lántöku í byrjun næsta árs eða með láni frá Seðlabankanum. Í raun er gert ráð fyrir því eins og fram kom í umræðum fyrr á þessu þingi þegar rætt var um aukalánsfjárlögin. Ýmsar líkur benda til þess að enn horfi verr á næsta ári. Ríkissjóður áformar að stórauka sölu spariskírteina umfram innlausn og velta síðan áfram 3,8 milljörðum í ríkisvíxlum. Þetta á að gerast á sama tíma og þjóðhagsáætlun felur í sér minni sparnað. Ofan á þetta bætist að horfur eru á því að halli á ríkissjóði verði meiri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir eins og ég hef fyrr sagt og að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna sé ofmetið. Ég hefði talið að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að beita sér fyrir því að opna heimildir fyrir lífeyrissjóðina til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í stað þess að róa fyrst og fremst á þessi mið. Það er álit okkar sjálfstæðismanna að þær áætlanir sem liggja að baki frv. séu ekki raunhæfar. Við teljum að annaðhvort verði raunvextir hér á landi áfram jafnháir og hingað til hefur verið, þeir hækki jafnvel vegna ásóknar ríkissjóðs á innlenda fjármagnsmarkaðinn, eða að ríkissjóður verði að sækjast eftir erlendu láni með þeim afleiðingum sem allir þekkja og framkallar verðbólgu. Sumir álíta að niðurstaðan verði sú að á næsta ári megi sjá einhverja blöndu af þessu tvennu.
    Það er ekki ætlun mín að hefja hér langa ræðu um efnisatriði frv. Við sjálfstæðismenn viljum að þetta frv. verði afgreitt nú fyrir áramótin og teljum að frv. eigi að fylgja fjárlögum. Ég bendi hins vegar á að efrideildarnefndin kallaði til sín hvorki meira né minna en 46 aðila þegar fjallað var um málið þar og ýmsar breytingar voru gerðar í meðferð deildarinnar á þessu frv. Við erum tilbúnir til að greiða fyrir því að málið verði afgreitt sem allra fyrst en munum fara fram á að ýmsir aðilar verði kallaðir til fundar við nefndina og vonandi gefst tími til þess í önnum nú á síðustu dögum þingsins að efna til slíkra fundahalda.
    Virðulegi forseti. Þar sem klukkan er nú að verða hálfeitt og væntanlega á enn eftir að setja nýjan fund tel ég ekki ástæðu til þess, þar sem þingstörf hafa nokkuð tafist að undanförnu, á undanförnum klukkutímum, að hafa þessa ræðu lengri. Ég mun gera frekari grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. við 2. umr. málsins.