Almannatryggingar
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar athugasemdir við þær reikningslegu forsendur sem liggja að baki þessu frv. Hér er um að ræða frv. sem hefur það að markmiði að ná fram ákveðnum sparnaði í útgjöldum ríkisins vegna almannatrygginga á sviði tannlækninga.
    Ég tel að í nefndarstarfinu hafi verið leitt í ljós að þær aðfinnslur sem ég hafði hér uppi við 1. umr. hafi haft við rök að styðjast og að allur hinn reikningslegi grunnur, þær reikningslegu forsendur sem hér liggja að baki séu byggðar á sandi. Þannig hefur komið fram í nefndarstarfinu að allur kostnaður ríkisins á árinu 1988 vegna tannréttinga var rúmar 62 millj. kr. Samt á að spara 60 millj. á næsta ári á þessum eina lið. Og harla þykir mér það ólíklegt, herra forseti, að það takist þrátt fyrir mikla verðbólgu og þrátt fyrir einhverja magnaukningu á þessu sviði. Ég tel þess vegna, og það er álit 1. minni hl. nefndarinnar, að öll þessi áform séu því miður á brauðfótum. Ég segi, því miður, vegna þess að það er fyllsta ástæða til þess að leita sparnaðar á þessum sviðum almannatrygginganna eins og annars staðar í ríkiskerfinu.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar hefur þess vegna ekki treyst sér til þess að standa að meirihlutaáliti sem gengur út á það að mæla með samþykkt frv. Fyrsti minni hl. nefndarinnar styður hins vegar þær brtt. frá nefndinni sem lúta að öðrum þáttum sem gerð var grein fyrir hér af frsm. meiri hl. nefndarinnar. Fyrsta minni hl. var hins vegar nokkur vandi á höndum vegna þess að hér er lýst andstöðu við öll meginefni þess frv. sem upphaflega var lagt fram en hins vegar stuðningi við þær brtt. sem raunverulega gera þetta frv. að nýju þingmáli. Og í stað þess að leggja til að hinu upphaflega frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar, eins og var nú ráðgert og hefði verið eðlilegt vegna þess að það er verið að vinna að þessum málum á vegum ríkisstjórnarinnar í heild
sinni í sérstakri nefnd, þá hefur 1. minni hl. tekið þá afstöðu að vel athuguðu máli að leggja til að 1.--3. gr. frv. falli brott --- þær greinar frv. sem gera ráð fyrir þessum sparnaði sem ég hef vikið að og sem er óraunhæfur --- en lýsir stuðningi við þær brtt. sem formaður nefndarinnar gerði grein fyrir hér áðan.
    Með þessum hætti er þinglega komið til skila þeim athugasemdum sem 1. minni hl. nefndarinnar hefur við þetta mál, en hann skipa auk mín hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og við höfum á þskj. 440 gert nákvæmari og nánari grein fyrir okkar afstöðu til þessa máls og leyfi ég mér að vísa til þess.