Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er ekki nema von að sú nýbreytni sem hér er á ferðinni, afgreiðsla frv. til fjáraukalaga, verði mönnum tilefni til nokkurra umræðna, tímamótaviðburður að sagt er af fróðum mönnum í þingsögunni að þessi háttur er upp tekinn að nýju, og hef ég ekki nema gott um það að segja. Ég sé mig hins vegar knúinn til þess að ræða lítillega ákveðin atriði sem tengjast afgreiðslu þessa máls hér við 2. umr. Eru það bæði nokkur atriði efnislega sem þar eru til afgreiðslu og heyra undir þau ráðuneyti sem ég fer með en einnig ákveðið orðalag í nál. frá meiri hl. fjvn. sem ég vil gera athugasemdir við og sný mér að því. Þar er vikið að þeirri ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn tók á sl. sumri í tengslum við efnahagsráðstafanir eða aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsmálum sem þá voru ákveðnar, að reyna að draga úr ríkisútgjöldum á yfirstandandi ári til að minnka þá fyrirsjáanlegan og vaxandi halla á fjárlögum ársins. Ríkisstjórnin ræddi þessi mál ítrekað á fundum sínum í sumar og það mun einnig hafa verið gert og að sjálfsögðu í þingflokkum stjórnarliðsins. Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórn og stjórnarflokkar tóku um það ákvörðun að reyna að draga úr ríkisútgjöldum yfirstandandi árs, þar með talið framkvæmdum, um allt að 800 millj. kr. ef ég man rétt. Þessi ákvörðun var svo endanlega tekin af ríkisstjórninni, einhvern tímann í júlí--ágúst og kom til framkvæmda og útfærslu á síðsumars- og haustmánuðum.
    Einn af þeim liðum sem þar var ákveðið að lækka nokkuð frá gildandi fjárlögum voru framlög til vegamála. Upphaflegar hugmyndir gerðu reyndar ráð fyrir allmiklum niðurskurði á framkvæmdafé Vegagerðarinnar en ég gerði mönnum grein fyrir því að verk væru svo langt fram gengin hjá Vegagerð ríkisins á því sumri, þegar þar var komið, að slíkur niðurskurður, upp á hundruð milljóna, sem ráðgerður var eða tillögur komu um væri óframkvæmanlegur og óhugsandi.
Niðurstaðan varð sú að Vegagerð ríkisins drægi úr framkvæmdum sínum á þessu ári um 33 millj. kr. og hafði ég þá upplýsingar frá Vegagerðinni um að slíkri tölu væri hægt að ná með því að stöðva framkvæmdir sem ekki voru þegar komnar til framkvæmda eða boðnar hefðu verið út.
    Ég benti hæstv. ríkisstjórn á það í sumar og ræddi það í mínum þingflokki að að mörgu leyti væri sú framkvæmd vandkvæðum bundin að skera niður samþykktar framkvæmdir svo síðla árs. Og sérstaklega þar sem þannig er að ákvörðunum um framkvæmdir í vegamálum staðið að þær eru afgreiddar sérstaklega af Alþingi með vegáætlun en ekki einungis með niðurstöðutölu fjárlaga hverju sinni. Engu að síður var það ákvörðun ríkisstjórnarinnar og væntanlega studd af þingflokkum stjórnarliðsins að fara í þennan niðurskurð. Og úr því að svo varð, og ég tók þátt í þeirri ákvörðun þrátt fyrir þessi tormerki sem ég hafði

rakið, þá gekk ég að sjálfsögðu í það að koma þeirri ákvörðun til framkvæmda og heyktist ekki á því eða dró lappirnar í þeim efnum eins og mér sýnist reyndar að raunin hafi orðið sums staðar. Ég fór í það verk, þó óvinsælt væri og ekki skemmtilegt og ekki mér sérstaklega að skapi, að óska eftir tillögum frá Vegagerð ríkisins um hvaða verkefni væru þannig stödd að þau væru ekki enn komin til framkvæmda og ekki skuldbundin með öðrum hætti, fá þann lista, kynna hann fyrir ríkisstjórn og í mínum þingflokki. Senda síðan upplýsingar til allra þingflokka og til fyrstu þingmanna allra kjördæma um að ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna um þennan sérstaka niðurskurð væri sú að honum yrði að haga á þann hátt sem þarna var gerð tillaga um. Málin lágu ósköp einfaldlega þannig fyrir að sjálfgefið var hvar þessi niðurskurður yrði að koma fram, jafnlangt og liðið var á árið. Yfirleitt var farið þannig að að þær fáu eða einu framkvæmdir sem ekki voru þegar skuldbundnar eða hafnar voru settar á þennan sérstaka niðurskurðarlista. Þess vegna kom það mér mjög á óvart, hæstv. forseti, að lesa í nál. virðulegs meiri hl. fjvn. á bls. 4 það sem þar segir og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa. Þar segir um þær niðurskurðartillögur sem nefndinni, þ.e. hv. fjvn., hafi borist:
    ,,Hvað varðar aðrar tillögur er nefndinni bárust hefur hún gert þær allar að sínum og flytur þær nú að einni tillögu undantekinni. Var það tillaga samgrn. um niðurskurð á framkvæmdum til tiltekinna viðfangsefna í vegagerð að fjárhæð samanlagt 33 millj. kr. Vaninn hefur verið sá að þegar þurft hefur að skera niður framkvæmdafé vegna vegagerðar hefur verið haft um það samráð við þingmenn kjördæmanna og þeir hafðir með í ráðum um hvaða viðfangsefni eru valin. Svo var ekki gert nú. Ekki var leitað til þingmannahópanna um þennan niðurskurð og ekkert samráð við þingmenn um það haft og telur fjvn. því að ekki sé stuðningur á Alþingi við þær hugmyndir um niðurskurð á einstökum vegaframkvæmdum sem fólust í tillögum samgrh. Vildi nefndin því ekki fallast á að leggja þær þannig fyrir Alþingi heldur gerir tillögu um niðurskurð sem raunar er mun meiri á öðrum framlögum til vegagerðarinnar sem ráð var fyrir gert í frv. sjálfu.``
    Þessum orðum neyðist ég til að mótmæla, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er rangt með farið að þingmannahópar kjördæmanna eða þingflokksformenn hafi ekki haft vitneskju um þennan niðurskurð. Ég vil leyfa mér að vitna í bréf sem ég
sendi til fyrstu þingmanna allra kjördæma og formanna allra þingflokka þar sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar og útfærsla samgrn. er tilkynnt. Hvort tveggja er dags. 15. sept. 1989. Ég gríp til að mynda niður í bréf til hv. Alexanders Stefánssonar sem mun vera 1. þm. Vesturl. Það er dags. 15. sept. 1989 og þar segir:
    ,,Ríkisstjórnin ákvað í sumar að grípa til aðgerða vegna mikils halla á ríkissjóði, m.a. með því að draga úr framkvæmdum. Að ósk samgrh. hefur Vegagerð ríkisins tekið saman lista yfir verkefni sem ekki eru

komin til framkvæmda eða hefur verið ráðstafað með útboði og skýrist það hvernig þau verkefni voru valin sem á listann lentu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta framkvæmdum á vegum Vegagerðarinnar í samræmi við umræddan lista og er eftirtöldum framkvæmdum í kjördæmi yðar frestað.``
    Þannig er 1. þm. kjördæmisins fyrir hönd þingmannahópsins tilkynnt hvaða framkvæmdir séu þarna á ferðinni og að sjálfsögðu er honum þar með í sjálfsvald sett hvernig hann bregst við því eða fer með það mál. Þingflokksformönnum öllum var sendur sambærilegur listi. Ég gríp niður í bréf til hv. þm. Eiðs Guðnasonar, formanns þingflokks Alþfl. Það er dags. 15. sept. 1989 og póstlagt af samgrn. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að sú ágæta stofnun, Póstur og sími, hafi komið bréfinu á leiðarenda. Í því stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin ákvað í sumar að grípa til aðgerða vegna mikils halla á ríkissjóði, m.a. með því að draga úr framkvæmdum. Að ósk samgrh. hefur Vegagerð ríkisins tekið saman lista yfir verkefni sem ekki eru komin til framkvæmda eða hefur verið ráðstafað með útboði. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta framkvæmdum á vegum Vegagerðarinar í samræmi við umræddan lista og er hann hér með sendur yður til kynningar.``
    Það má deila um hvaða orðalag væri eðlilegast á þessum bréfum og ég gæti út af fyrir sig, ef menn telja það gagnrýnivert að ekki sé öðruvísi að því staðið að forminu til að kynna þetta fyrir þessum aðilum, hlustað á gagnrýni um slíkt. En ég get ekki setið undir því að fá það í nál. á Alþingi að með engum hætti hafi verið kynnt fyrir þingmönnum, þingflokksformönnum eða fyrstu þingmönnum kjördæma að þessi niðurskurður ætti að fara af stað og hvernig ætti að honum að standa.
    Ég vil líka segja þá skoðun mína að þó að ég sé mikill stuðningsmaður vegáætlunar og vilji síst gera hlut hennar lítinn í einu eða neinu, þá á það sama að sjálfsögðu við um vegáætlun og allar aðrar ákvarðanir hv. Alþingis, þær geta breyst. Nýr meiri hluti á hv. Alþingi getur auðvitað breytt slíkum ákvörðunum, aflað sér lagaheimilda og formlegra samþykkta til að gera svo. Ég bendi á að í raun og veru á það við um hverja einustu breytingu sem gerð er á samþykktum fjárlögum innan yfirstandandi árs frá því sem Alþingi hefur áður ákveðið að til þarf formlega ákvörðun sem studd er af meiri hluta þingsins að svo geti orðið. Ég bendi á að þingmannahópar kjördæmanna skipta framkvæmdafé fjölmargra annarra liða en til vegamála. Þeir skipta niður, fara yfir og hafa áhrif á skiptingu framkvæmdafjár til hafnarmannvirkja, til skólaframkvæmda í sínu kjördæmi o.s.frv. Þetta er hv. þm. kunnugt. Að því leyti til er enginn eðlismunur á því að gripið sé til niðurskurðar á slíkum framkvæmdum eða niðurskurðar á vegamálum. Í báðum tilvikum liggur fyrir sérstök ákvörðun Alþingis frá afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár og eða við afgreiðslu vegáætlunar fyrir það ár.
    Ég hlýt því, herra forseti, að koma þessum

staðreyndum málsins hér á framfæri vegna þeirra orða sem þarna eru látin falla í nefndri greinargerð og fjölyrði síðan ekki meira um það. Það fór sem mig grunaði að þessi sérstaki niðurskurður á framkvæmdafé svo síðla árs yrði ekkert sérstaklega vinsæll af hv. þm. Hafði ég þar rétt fyrir mér þegar ég ræddi hann við mína félaga í ríkisstjórninni og kynnti hann í mínum þingflokki. En ég hafði gefið mér það, þar sem hér var um að ræða ákvörðun sem kom til umræðu á fjölmörgum ríkisstjórnarfundum í sumar og var að sjálfsögðu kynnt í þingflokkum stjórnarliðsins, að allir hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vissu af þessum áformum og stæðu að baki þeim eins og öðrum þeim efnahagsráðstöfunum sem þarna voru til meðferðar. Það kom mér þess vegna sérstaklega á óvart að ætla mætti af lestri þessa nál. og viðbrögðum hv. meiri hl. fjvn. að þeim hefði verið málið ókunnugt með öllu. Það á ég mjög erfitt með að skilja í ljósi þess sem ég hef hér rakið, hvernig unnið var að þessu sl. sumar og þeirra bréfa sem samgrn. sendi frá sér strax 15. sept. í haust til að kynna málið bæði fyrir formönnum þingflokka og fyrstu þingmönnum kjördæma.
    Ég vil svo enn fremur segja að hefði hv. fjvn. eða meiri hl. hennar óskað eftir því við mig að breyting yrði á þessari ákvörðun þar sem hv. meiri hl. teldi auðveldara að framkvæma þennan niðurskurð t.d. með því að draga úr viðhaldsfé hefði ég að sjálfsögðu brugðist vel við slíkum óskum. Ekki hefði þurft um það nema hálft orð við mig og hefði ég þá fúslega tekið það upp í ríkisstjórn og kynnt á nýjan leik fyrir fyrstu þingmönnum kjördæma og formönnum þingflokka að að ráði meiri hl. fjvn., sem ég teldi skynsamlegt,
vildi ég breyta frá fyrri ákvörðun og falla frá þeim verkefnabundna niðurskurði en taka frekar lækkun til að mynda á viðhaldsfé vegáætlunar.
    Þannig háttar til á þessu hausti, eins og hv. þm. eflaust vita, að það hefur verið okkur heldur hagstætt hvað tíðarfar snertir. Fram í þriðju viku desembermánaðar hefur verið sáralítill snjómoksturskostnaður sem gerir að verkum að viðhaldsliður vegamálanna stendur nú betur en nokkur möguleiki var að vonast til að hann mundi gera um þetta leyti á sl. sumri.
    Ekki hefði þurft nema einn stuttan fund og hefði þá orðalag þessa nál. getað orðið á þá leið að í samráði við samgrh. hefði meiri hl. hv. fjvn. ákveðið að breyta þessari ákvörðun. Ég verð að segja eins og er að mér hefði þótt skemmtilegra að lesa í nál. að þessa breytingu hefði borið þannig að að samgrh. hefði komið á fund hv. fjvn. eða meiri hl. hennar og þar hefði sameiginlega orðið að ráði að standa svona að málum. Það er að sönnu ekki vinsælt að fara í það verkefni sem ég lét mig hafa á sl. sumri, að ganga í slíkan niðurskurð í viðkvæmum framkvæmdaflokkum eins og vegamálunum. Ég veit mætavel að það er auðvelt verk að berja pínulítið á viðkomandi ráðherra fyrir það að vera þó maður til þess að gera það sem ríkisstjórnin ákvað, studd af stjórnarflokkunum, að fara

í þennan niðurskurð. En ég er ekki viss um að það sé, svona upp á spjöld sögunnar að gera, sérstakt karlmennsku- eða hreystimerki að ganga í þá hluti með þeim hætti sem hér hefur því miður orðið raunin á.
    Ég vona að þess sé ekki að vænta að þessu nál. verði sérstaklega veifað til sannindamerkis um hverjir það hafi nú verið sem hafi barið niður þennan vonda samgrh. sem gekk í það, af tómum níðingsskap að því er ætla mætti, á sl. sumri að draga úr framkvæmdafé til vegamála. Það var ekki svo, eins og ég vona að hv. þm. skilji og trúi, að samgrh. væri það sérstaklega ljúft verkefni. En við sem í þessu stöndum verðum að láta okkur hafa að gera ýmislegt fleira en gott þykir, ekki satt? Og er þá ekki réttast að standa karlmannlega að því og gera það fyrir opnum tjöldum, en draga ekki í því lappirnar og reyna að komast undan því með einhverjum slíkum hætti, að horfast í augu við það að slíkum ákvörðunum á, þá þær eru einu sinni teknar, að fylgja eftir? ( Gripið fram í: Þetta var nú góð æfing fyrir ráðherrann.) Góð æfing fyrir ráðherrann og hann er alveg til í að endurtaka hana, enda verður hann þá reynslunni ríkari og mun haga þannig hnútunum að þeir rakni ekki einfaldlega upp, hv. þm.
    Ég vil síðan, virðulegur forseti, gera athugasemdir við 2--3 efnisatriði. Ég tel að það sé óheppilegt að liðir sem komu inn í fjáraukalagafrv. og voru þar með staðfestir af ríkisstjórn og meiri hluta hér á hinu háa Alþingi þar sem um stjfrv. er að sjálfsögðu að ræða, frv. til fjáraukalaga er stjfrv. eins og hvert annað stjfrv., og mér var ekki kunnugt um og hefur ekki verið kunnugt um að settir hafi verið fram sérstakir fyrirvarar af hálfu einstakra þingflokka eða þingmanna stjórnarliðsins um stuðning þeirra við þetta stjfrv. Þess vegna hef ég skilið þá einföldu vinnureglu þingræðisins þannig að til þess að breytingar kæmu á slíku frv., samþykktu stjfrv. án fyrirvara af hálfu allra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, þyrfti nýtt samkomulag að takast um slíkar breytingar. Engu að síður eru tillögur hér um að fella út ákveðna liði. Þar nefni ég brtt. eða lið 04 231 630, sem var aukafjárveiting til Skógræktar ríkisins. Skógræktin lenti óvænt í því á árinu 1987 að þurfa að greiða söluskatt af vélum og tækjum sem hún keypti og mér skilst að hún hafi áður fengið felldan niður. Lagaheimild mun hafa brostið á því ári til að framkvæma slíka niðurfellingu og var því ekki um annað að ræða en að Skógræktin greiddi þessi óvæntu útgjöld sem hún þannig varð fyrir. Þetta mun hún hafa þurft að greiða síðan á árinu 1988 og fékk þetta ekki borið uppi í fjárlögum ársins 1989 þannig að fjárhagur hennar var skertur sem þessu nam. Við þessu var brugðist með því að óska eftir aukafjárveitingu fyrir þessum útgjöldum. 22. júlí sl. fékk landbrn. bréf frá hv. Fjárlaga- og hagsýslustofnun undirritað af engum öðrum en honum sjálfum, Indriða H. Þorlákssyni. Þar er staðfest af fjmrn. að viðkomandi aukafjárveiting hafi verið afgreidd og samþykkt og sé heimil til ráðstöfunar. Að sjálfsögðu

lét landbrn. Skógrækt ríkisins vita að borist hefði staðfesting frá fjmrn. um að þessi aukafjárveiting hafi verið afgreidd. Ég tel rétt að ég lesi hér bréfið, virðulegur forseti, til þess að menn hafi þetta skjalfest fyrir framan sig. Svo stendur, með leyfi forseta:

    ,,Vísað er til bréfs ráðuneytisins frá 7. júlí varðandi beiðni um aukafjárveitingu til Skógræktar ríkisins að fjárhæð 887 þús. kr. til þess að greiða söluskatt af tveimur dráttarvélum sem keyptar voru 1987, en fyrirtækið [þ.e. Skógrækt ríkisins] hafði ekki gert ráð fyrir að þurfa að greiða söluskatt af þessum tækjum þegar þau voru keypt. Fjmrh. hefur fjallað um beiðnina og samþykkt að veita aukafjárveitingu sömu fjárhæðar vegna þessa. Það skal skýrt tekið fram að þessa fjárveitingu ber ekki að skoða sem endurgreiðslu söluskattsins, enda ekki heimildir í lögum til þess. Fjárhæðin verður færð á fjárlagalið 04 231 630.

Fyrir hönd ráðherra,

Indriði H. Þorláksson.``


    Hann sjálfur, sem sagt. Og ég taldi, hafandi þetta bréf í höndunum strax 22. júlí sl., að þessi aukafjárveiting yrði ekki aftur tekin. Ég var þess vegna satt best að segja, hv. alþm., forundrandi þegar ég sé það svo hér þegar langt er liðið á desembermánuð að í brtt. meiri hl. fjvn. við 2. umr. er lagt til að þessi liður falli brott og lái mér hver sem vill. ( EKJ: Þið eruð búnir að eyða honum, þetta er allt í lagi.) Það mun að vísu hafa verið svo að skv. þeim listum sem hv. fjvn. eða meiri hl. hennar vann út frá á þessum tíma hafi þessi fjárveiting verið ógreidd. Það skýrir að hún taldi mögulegt að fella hana niður eins og ýmsar slíkar fleiri. Ég hygg að þess vegna eigi þetta sér eðlilegar skýringar. Hv. fjvn. taldi sig hafa í höndum upplýsingar um að þessi fjárveiting hefði ekki verið greidd. Hana hefur kannski skort þá vitneskju sem landbrn. hafði, að fjmrn. væri þegar fyrir sitt leyti búið að samþykkja greiðsluna. En þá er hún hér með komin og ég mundi gjarnan kjósa, ef hv. fjvn. vildi vera svo góð, að hún skoðaði þetta mál milli umræðna, tæki þessa brtt. aftur og skoðaði þetta mál ásamt einum eða tveimur liðum öðrum milli umræðna sem má segja að svipað hátti til um.
    Annar liður fjallar um lækkun á ýmsum verkefnum og ýmissi starfsemi undir landbúnaðarmálum upp á 2 millj. kr. Ég hef að vísu ekki fengið tæmandi skýringar á því hvaðan þær 2 millj. eigi að koma af þessum verkefnum. ( Gripið fram í: Staðgreiðslan.) Nei, það er önnur tala, hv. þm., ég kem að því síðar. Ég hef ástæðu til að ætla að þarna eigi að lækka um 2 millj. þá 12 millj. kr. aukafjárveitingu sem byggir á samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning að skógræktarátaki á Fljótsdalshéraði og flutningi Skógræktar ríkisins austur á Fljótsdalshérað nú um áramótin. Sé svo er það mjög bagalegt þar sem þær framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar að hluta til með góðvild heimaaðila, þ.e. með því að iðnaðarmenn og jafnvel viðskiptabankar á svæðinu hafa lánað bæði

Skógrækt ríkisins og nefndu átaki fé til framkvæmda til skamms tíma í trausti þess að ákvörðun ríkisstjórnarinnar og aukafjárveitingin næðu fram að ganga. Það væri því bagalegt ef slíkir aðilar, sem af áhugasemi og góðvild við þessi verkefni tvö, þ.e. flutning Skógræktarinnar og skógræktarátakið á Fljótsdalshéraði, hafa lagt því lið með þeim hætti, yrðu fyrir vonbrigðum. Ég mun sömuleiðis fara fram á að athugað verði hvaðan þessar 2 millj. til lækkunar á ýmsum verkefnum, liðum 299 122 hjá landbrn., áttu að koma og sé svo sem ég hef getið mér hér til að þær eigi að koma af þessum verkefnum mundi ég eindregið óska eftir því að kannað verði hvort staða þeirra liða leyfi að þessir fjármunir séu teknir í burtu.
    Hið þriðja og síðasta, og lýk ég þá senn máli mínu, hæstv. forseti, forseta ugglaust til ánægju, er svo ákvörðun um að lækka stofnframlög til Landgræðslu ríkisins um 2 millj. kr. Ég hygg að svo hátti til að sú stofnun, Landgræðsla ríkisins, sé í þessum efnum síst alls aflögufær og reyndar þykist ég hafa um það upplýsingar frá ríkisbókhaldi að þessi lækkun mundi koma fram sem samsvarandi aukinn halli hjá þessari stofnun vegna þess að þessari upphæð hafi þegar verið ráðstafað. Þess ber að vísu að geta að hv. fjvn., eða meiri hl. fjvn., sýnir skilning á þeim vandkvæðum sem Landgræðslan varð fyrir vegna söluskatts sem lagður var á starfsemi þar og gerir ráð fyrir því í sínum tillögum. Er ég þakklátur fyrir það ásamt öðru því sem hv. fjvn. hefur þarna vel að unnið og gerir tillögur um lagfæringar á. Vil ég síst lasta þá vinnu en fer í þriðja og síðasta lagi fram á að kannað verði milli umræðna hvort staða Landgræðslu ríkisins leyfi þá lækkun upp á 2 millj. kr. sem gerð er tillaga um í brtt. meiri hl. fjvn. á þskj. 367 þar sem 4. gr. frv. er breytt og sagt að lækkun gjalda skuli vera sem þar greinir: ,,Landgræðsla ríkisins, stofnkostnaður vegna fræverkunarstöðvar, lækkun um 2 millj. kr.`` Í þriðja lagi, ef þessi liður yrði athugaður milli umræðna yrði ég hv. fjvn. sérlega þakklátur fyrir það.
    Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð, virðulegur forseti, Ég er enn þeirrar skoðunar, þrátt fyrir þær mæðingar sem ég hef hér lítillega gert grein fyrir, að það sé þörf og góð nýbreytni að leggja fram þetta frv. til fjáraukalaga og ég tel að hæstv. fjmrh. eigi heiður skilið fyrir að taka þá nýbreytni upp. Ég tel hins vegar að í kjölfar þessarar afgreiðslu þurfi að skoða mjög vandlega hvernig í framhaldinu skuli staðið að þessum málum, þ.e. hvernig skuli þá farið með óvænt atvik sem ævinlega hljóta að koma upp innan hvers fjárlagaárs, til að mynda frá þeim tíma sem fjárlagafrv. er lokað og nýtt ár hefst og þangað til fjáraukalagafrv. viðkomandi árs lítur dagsins ljós. Hvenær það skuli vera, hvernig það skuli afgreitt og svo framvegis. Ég held að mjög þarft væri, virðulegur forseti og hv. þingdeildarmenn, að í þetta yrði lögð vinna sérstaklega af hinu háa Alþingi og viðkomandi ráðuneyti á fyrstu mánuðum næsta árs.