Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mjög mál mitt enda legg ég mikla áherslu á að fjáraukalagafrv. sem hér er á ferðinni nái afgreiðslu á Alþingi fyrir áramótin. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú að hér er um mjög merka nýbreytni að ræða, að fyrir Alþingi er lagt frv. til fjáraukalaga á haustþingi fyrir yfirstandandi fjárlagaár. Það væri til mikils vansa fyrir Alþingi ef Alþingi lyki ekki slíku máli og mun ég því stytta mjög mál mitt og fara þess eindregið á leit við alþingismenn að þeir bregðist þannig við í þessum nauma tíma sem eftir er að tala heldur minna en meira um þetta mál þannig að Alþingi geti örugglega lokið afgreiðslu þess.
    Virðulegi forseti. Mjög mikið og lengi hefur verið rætt um þetta fjáraukalagamál. Sennilega lengur en nokkurn tíma áður hefur gerst í sögunni. Hvers vegna er það sem sú mikla umræða hefur orðið? Það er vegna þess að við erum hér að ræða fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár. Og af hverju erum við að ræða fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár? Vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur tekið þá ákvörðun að flytja slíkt frv. Það er alfarið og hefur verið í hans valdi hvenær slíkt frv. er flutt og það er að hans frumkvæði sem sú gerbylting er gerð í meðferð fjárlaga á Alþingi Íslendinga að flutt er fjáraukalagafrv. á yfirstandandi ári. Þessu mega menn ekki gleyma í hita umræðunnar. Vissulega er eðlilegt við slíkar aðstæður að komi til deilna og kannski harkalegra deilna milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Því miður hafa fjölmiðlarnir gert það að meginatriði málsins eins og það sé einhver tímamótaviðburður að slíkt eigi sér stað, sem ekki er því átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu er hefðbundið deiluefni hér á Alþingi Íslendinga. En vegna þessara deilna, þeirra hörðu orða sem fallið hafa í þeirri umræðu, hefur kjarni málsins gjörsamlega farið fram hjá í frásögn fjölmiðla og umræðum hér á Alþingi. Kjarni málsins er auðvitað þau nýju vinnubrögð sem hér eru upp tekin.
    Aðeins örfá orð út af því sem hér hefur verið sagt. Það er rétt sem hæstv. fjmrh. hefur sagt. Hann óskaði eftir samstarfi við fjvn. um þá afgreiðslu sem hér fer fram. Það samstarf hefur verið ágætt við hann og hans starfsmenn í ráðuneytinu. Sú niðurstaða sem hér liggur fyrir, m.a. um uppsetningu frv., var unnin af fjvn. í samráði við fjmrn. og aðra þá aðila sem að málinu komu. Ég lít á þessa uppsetningu frv., sem fjvn. vissulega leggur fram og leggur tillögur sínar fram um, sem sameiginlega niðurstöðu þeirrar vinnu og ég hef a.m.k. ekki orðið var við að fjmrh. gagnrýndi þá niðurstöðu með einum eða neinum hætti. Þvert á móti lít ég svo á að hann sé sammála því hvernig að því verki hefur verið staðið. Það er auðvitað alveg laukrétt eins og hér hefur komið fram að fjáraukalagafrv. var lagt fram öðruvísi að búningi en sú afgreiðsla sem hér fer fram. En ég vil einnig taka það fram, virðulegi forseti, að það gerði fjmrh. eftir að hafa rætt við fulltrúa meiri hl. í fjvn. og hæstv. fjmrh. ræddi um að hann veldi þann kostinn til að einfalda málið en ekki

vegna þess að hann byggist við því að slík yrði lokaafgreiðsla hv. fjvn. á málinu.
    Að lokum, herra forseti, það sem við erum hér að gera með afgreiðslu þessa máls má vera að hægt sé að kalla, eins og mig minnir að hæstv. menntmrh. hafi gert í ræðu sinni, þróunarverkefni í þingræði. Við erum að reyna að feta hérna nýjar brautir. Um það verk út af fyrir sig, án tillits til þess hver eru efnisatriði hinna einstöku tillagna, hefur verið fullt samstarf og samstaða í fjvn. og góð samvinna við fjmrn. Það er sá kjarni í þessu máli sem ég vil ekki að gleymist og vil ekki að niður falli þó menn deili hér harkalega um einstök atriði. Ég vil vitna til þess og lýsa sérstakri ánægju minni yfir því að þrátt fyrir að hér hafi fallið hörð orð í umræðum og þrátt fyrir að þessi afgreiðsla hafi einnig orðið tilefni til þess að hart hafi verið vegið að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn, eins og kannski er eðlilegt þegar fjárlagagerð er á dagskrá, þrátt fyrir þessi hörðu orðaskipti hefur fjmrh. lýst því yfir að hann hyggist halda áfram því verklagi að leggja fjáraukalagafrv. fyrir Alþingi á yfirstandandi fjárlagaári. Það er vissulega mjög ánægjulegt og ég lýsi sérstökum stuðningi við þann málflutning hæstv. ráðherra.
    Að lokum vil ég aðeins fara örfáum orðum um það sem kom fram hér áðan hjá hæstv. landbúnaðar- og samgönguráðherra. Auðvitað er það svo um öll frv., hvort sem þau eru stjfrv. eða ekki, að Alþingi segir um þau sitt síðasta orð. Til þess er Alþingi, að setja lög. Til þess er flutt fjáraukalagafrv. á yfirstandandi þingi, að fá afgreiðslu Alþingis á því hvort fjárveitingavaldið fellst á þær greiðsluheimildir sem þar er óskað eftir. Og ég vek athygli á því, sem líka hefur fallið niður í þessum umræðum, að meiri hl. fjvn. gerir engar brtt. varðandi þær heimildir, aukafjárveitingaheimildir, sem hæstv. ráðherra hefur veitt og búið er að skuldbinda eða greiða. Auðvitað hefði verið hægt að flytja um það tillögu að einhverjar af þessum heimildum yrðu ekki samþykktar. Fjvn., eða meiri hl. hennar, gerir það samt sem áður ekki. Enda þótt gerðar séu athugasemdir við einstakar afgreiðslur, nokkrar afgreiðslur af þeim fjölmörgu sem þar hafa farið fram og er ekkert óeðlilegt að það sé gert.
Vegna þess að í fjáraukalagaafgreiðslum upp á 8,8 milljarða kr. er ekkert óeðlilegt að aðrir en þeir sem að þeirri afgreiðslu hafa komið kunni að sjá sitthvað sem þeir mundu hafa gert athugasemdir við ef til þeirra hefði verið leitað. Hins vegar er mjög óeðlilegt að gera ráð fyrir því að afgreiðslur sem ekki hafa farið fram séu í öllum atriðum staðfestar. Því ef svo væri, til hvers væru menn þá að leggja fram fjáraukalagafrv.? Þá væri það auðvitað hrein markleysa því tilgangur þess er sá að fá úr því skorið hvort fjárveitingavaldið, og við skulum gæta þess vel að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi en ekki hjá hæstv. ríkisstjórn, fellst á þær greiðsluheimildir sem verið er að leita eftir. Fjárveitingavaldið er ekkert skuldbundið af því þó ríkisstjórn lýsi áhuga sínum á tilteknum verkefnum. Og þegar ríkisstjórn leitar til

fjárveitingavaldsins og spyr hvort það vilji fallast á þær greiðsluheimildir sem ríkisstjórn óskar eftir hlýtur ríkisstjórnin auðvitað að eiga von á því að Alþingi hafi sína sjálfstæðu skoðun á hverju og einu því viðfangsefni og það geti alveg gerst að einhverju af því verði hafnað. Ég held að hæstv. ráðherrar geti á engan hátt haft undan neinu að kvarta í þeirri afgreiðslu sem meiri hl. fjvn. hefur gert á þeirra málum, vegna þess að meiri hl. hefur fallist á að staðfestar yrðu allar þær heimildir til aukafjárveitinga sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa ráðstafað og einskorðað sig við það eitt að gera athugasemdir við greiðsluheimildir sem fjvn. fékk uppgefið hjá hæstv. fjmrh. eða fjmrn. að ekki hefðu verið notaðar.
    Um það mál sem hæstv. landbrh. talaði um sérstaklega, þ.e. niðurskurð á framkvæmdum til vegamála, vil ég aðeins taka fram að í fjvn. komu fram eftirfarandi upplýsingar:
    1. Þessar hugmyndir höfðu verið kynntar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þær voru kynntar þar sem hugmyndir um frestun verkefna en ekki sem niðurskurður. Engin afgreiðsla hafði farið fram á því hvort þingmenn stjórnarinnar féllust á þetta eða ekki.
    2. Ekki var haldinn kynningarfundur um þetta nema hjá nokkrum þingmannahópanna. Til að nefna voru þessi mál ekki rædd á fundum þm. Austurl. Þau voru ekki rædd á fundum þm. Vestf. Þau voru ekki rædd á fundum þm. Norðurl. v. Það kom einnig fram í fjvn. hvað það kjördæmi varðar, og vitna ég þar í orð hv. þm. Pálma Jónssonar, að hann hefði spurst fyrir um það hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., formanni þingflokks Framsfl., hvort nokkurt slíkt bréf hefði honum borist og formaður þingflokks Framsfl. gaf þær upplýsingar að hann hefði ekkert slíkt bréf fengið. Vona ég að ég fari hér rétt með orð hv. þm. Pálma Jónssonar en þetta er það sem fram kom á fundi fjvn.
    Ég leitaði enn fremur eftir því, virðulegi forseti, við þingmenn hvort þeir styddu þennan niðurskurð, þ.e. leitaði eftir því hjá stjórnarþingmönnum, og fékk þau svör að svo væri ekki. Þegar það lá fyrir treysti ég mér ekki til þess að gera tillögu um það hér að við þennan niðurskurð yrði staðið og hann lagður fyrir þingið vegna þess að ég þóttist sannfærður um að hér væri ekki þingmeirihluti fyrir því.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það hefði verið ákjósanlegt að ræða þessi mál við hann. Ég gerði tilraun til þess en hann var ekki á landinu. Ég ræddi hins vegar málin við starfsmenn Vegagerðarinnar og þeir upplýstu mig um það til viðbótar að a.m.k. sum af þeim verkum sem gert var ráð fyrir að ekki yrðu unnin í sumar hefðu verið unnin samkvæmt fyrirlagi þm. úr þeirra kjördæmum. Niðurskurður á þeim verkefnum væri útilokaður, búið væri að vinna þau.
    Þetta eru nú rökin, hæstv. forseti, fyrir þeirri afgreiðslu sem fjvn. gerði á þessu máli en á móti lagði hæstv. fjvn. til að önnur viðfangsefni Vegagerðarinnar yrðu skorin niður og það var einnig gert í samráði við Vegagerðina. Ég ræddi sjálfur um

það við aðstoðarvegamálastjóra. Ástæðan fyrir því að ég ræddi það mál ekki við hæstv. ráðherra, þegar sú ákvörðun var tekin í fjvn. og áður og hafði um það samráð við hann, var einfaldlega sú, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra var ekki kominn til landsins, þegar sú afgreiðsla var gerð. ( Landbrh.: Ég var tvo og hálfan sólarhring erlendis.) Það er alveg rétt, en ég er að skýra frá atburðunum eins og þeir gengu fyrir. Þetta er auðvitað að mínu mati minni háttar atriði. Meginatriði málsins er sú afgreiðsla sem hér er að fara fram og sú nýbreytni sem hér er verið að gera.
    Það er hins vegar ekki tilgangur fjvn., virðulegi forseti, að leggja fyrir till. um niðurskurð á verkefnum sem búið er að taka skuldbindandi ákvarðanir um. Það hefur aldrei verið okkar tilgangur. Niðurskurðartillögur okkar miðast við þær upplýsingar sem við fengum úr fjmrn. um greiðslustöðu verka. Vel má vera að þær upplýsingar sem fyrir lágu um það hjá fjmrn. hafi ekki verið fullnægjandi, m.a. vegna þess að fagráðuneytin hafi verið búin að taka ákvarðanir um skuldbindingu verkefna sem fjmrn. vissi ekki um. Og það er sjálfsagt að fjvn. skoði slík mál. Ákveðnum óskum um þau efni hefur verið beint til okkar. Ég mun beita mér fyrir því, nú á milli 2. og 3. umr. um þetta frv., að þau verði skoðuð. Ég hef haft samráð um það við samnefndarmenn mína í fjvn. að halda þannig á málum að skoða slík viðfangsefni á milli umræðna. Þess
vegna vil ég, virðulegur forseti, mælast til þess að till. er varðar Landgræðslu ríkisins á bls. 22 gangi ekki til atkvæða nú heldur verði dregin til baka þannig að við getum skoðað hana betur. En í því sambandi vil ég aðeins skýra frá því að sú till. sem þar er gerð, um 2 millj. kr. niðurskurð á framlögum til Landgræðslu ríkisins vegna stofnframkvæmda, barst okkur frá fjmrn. Ástæðan fyrir því að hún barst okkur þaðan var sú að 32 millj. kr. vantaði í niðurskurð upp á það að staðið væri við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um 650 millj. kr. niðurskurð. Það vantaði till. upp á 32 millj. kr. sem aldrei bárust frá þeim fagráðuneytum sem áttu að ganga frá slíkri tillögugerð. Því var sá kostur valinn að fjmrn. var beðið að benda á hvar mætti taka þær 32 millj. í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar. Fjmrn. benti m.a. í bréfi til fjvn. á þennan lið. Sé það hins vegar rétt að búið sé að ráðstafa þessu fé án þess að fjmrn. hafi verið látið af því vita, og því gefið okkur rangar upplýsingar að þessu leyti, er sjálfsagt að taka það til skoðunar.
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki fara fleiri orðum við þessa umræðu hér, en ítreka að menn gleymi ekki meginatriði málsins. Ég vil aftur segja að það yrði til vansa fyrir Alþingi ef málið yrði ekki afgreitt fyrir áramót, það yrði til vansa fyrir Alþingi þegar hæstv. fjmrh. leggur fram frv. til fjáraukalaga á haustþingi ef Alþingi afgreiðir ekki málið. Því vil ég hvetja til þess að menn stytti heldur mál sitt og greiði með þeim hætti fyrir afgreiðslu Alþingis á þessu máli. ( EgJ: Fjmrh. gæti gefið gott fordæmi í þeim efnum.)