Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að þetta frv. þarf að fara til lokaatkvæðagreiðslu hér í þinginu fyrir áramót. Og ég vil líka bæta því við að ég tel að hér sé aðeins upphaf á átökum milli þings og framkvæmdarvalds. Ekki spurning um nýjan meiri hl. á Alþingi Íslendinga, af og frá að þetta eigi skylt við það. Þetta er aftur á móti spurningin um það að ráðherrar átti sig á því hvar er upphaf og endir þess valds sem þeir hafa. Ég segi fyrir mig að mér finnst að það eigi að vera bljúgir menn sem koma til þingsins með greiðslur milli 8 og 9 milljarða fram yfir heimildir. Mér finnst að það eigi að vera hógværir menn. Því ef slíkt er ekki samþykkt af þinginu, hvað gerist þá? Þá bætast þessir menn einfaldlega í hóp brotamanna íslenskrar þjóðar, svo alvarlegt er málið. Þá bætast þeir í hóp brotamanna íslenskrar þjóðar. Manna sem ekki sitja sjálfir með ráðstöfun á sínu lífi. Þess vegna er það alger nauðsyn að menn geri sér grein fyrir því að aukafjárveitingar eru heimildarlausar og hafa verið það alla tíð. Og það er ekkert fordæmi til fyrir því að hægt sé að breyta stjórnarskrá með því að brjóta hana, ekkert fordæmi til fyrir því.
    Mér er ljóst að mjög harðar umræður hafa átt sér stað á undanförnum árum um að þingmenn séu ekki að skipta sér af verkefnum framkvæmdarvaldsins og þessar umræður hafa staðið lengi. En hin umræðan, hvort það gangi upp að ráðherrar gegni jafnframt þigmennsku, hún gæti komið á dagskrá ef ekki verður gætt hófsemdar í því að menn virði leikreglur valds. Annars vegar að þingið virði vald framkvæmdarvaldsins og framkvæmdarvaldið virði vald þingsins. Mér er líka ljóst að eitt og annað í því sem við erum að leggja til hefur verið skorið niður frá því sem frv. boðaði eins og það kom frá fjmrh. Það hefur þó verið gert eftir þeim upplýsingum Hagstofunnar að þessar fjárhæðir væru ógreiddar og talið að hvorki himinn né jörð væru í hættu þó að þær yrðu skornar út. En menn
mættu þá líka gjarnan átta sig á því hver er staða þeirra þegna þessa lands sem eru að greiða skattana í dag. Vita menn hve margir Íslendingar hafa verið gerðir gjaldþrota það sem af er árinu? Og vita menn hve margir þeirra munu e.t.v. yfirgefa landið af þeirri ástæðu? Það má vel vera að ástin á rofabörðunum sé svo heit að mannlífið sé minna metið en ég held að menn verði að hugsa sig örlítið um áður en menn taka slíkar ákvarðanir. Við höfum þörf bæði fyrir fólkið og landið. Og þess vegna vil ég segja það alveg ákveðið að ég tel að íslensk þjóð þurfi að gæta hófs í þeirri skattheimtu sem við þurfum á að halda til að verja velferðarkerfið. Við þurfum að gæta hófs. Því svo hörð getur hún orðið að hún brjóti niður eðlilegt mannlíf hjá þó nokkuð stórum hóp Íslendinga.
    Ég hef orðið var við þann anda, og reyndar oft heyrt hann áður, að ef ráðherra hafi ákveðið einhvern hlut eða ríkisstjórn samþykkt, þá beri skilyrðislaust að fara eftir því, alveg án tillits til þess hvort ráðherrann

hafði umboð til að gefa slíka yfirlýsingu eða það var á valdsviði ríkisstjórnarinnar að taka þá ákvörðun. Og ég vil að það komi fram hér og nú og verði ráðherrum ljóst að verði stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ekki virt á næsta ári gagnvart aukafjárveitingum mun ég standa að því með stjórnarandstæðingum að láta á það reyna hvort ráðherrar fari fyrir landsdóm. Svo alvarlegt er það mál í mínum huga hvort framkvæmdarvaldið ætlar að halda áfram að traðka á lýðræðinu eða ekki. Og það er rétt að hér og nú komi þessi yfirlýsing fram. Menn eiga rétt á viðvöruninni en það er vonlaust, gjörsamlega vonlaust að búa við að menn bæti við kannski 8 eða 9 milljörðum upp á hvert einasta ár án þess að gert sé ráð fyrir því við fjárlagaafgreiðslu og tekjuöflun fyrir íslenska ríkið.
    Mér er ljóst að ráðherrum er sumum kannski skemmt við svona yfirlýsingar. En það hefur samt aldrei gerst að ráðherrum væri skemmt ef þeir hafa lent í því að lenda fyrir dóma. Og menn mættu hugleiða fyrir hvaða brot við erum að setja menn í tugthúsið á Íslandi, fyrir hvaða upphæðir. Og menn mættu hugleiða það líka að sennilega hefur það ekki gerst áður í sögu íslenska lýðveldisins að jafnháttsettur maður hafi verið dæmdur í þessu landi og gert var nú fyrir skömmu. Það hlýtur að kalla á ábyrgð þingsins að sjá til þess að aðrir sleppi þá ekki betur ef þeir virða ekki þær leikreglur sem þeim er ætlað að fara eftir.