Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það urðu mér mikil vonbrigði að fjvn. treysti sér ekki til að taka inn í fjáraukalög 5 millj. kr. fyrirheit sem hæstv. menntmrh. hafði gefið Leikfélagi Akureyrar. Og eftir þeim brtt. sem ég hef séð um fjárlögin nú við 3. umr. er ekki heldur gert ráð fyrir að rétta hlut þess þar. Þvert á móti dregur nú í sundur með Leikfélagi Akureyrar og Leikfélagi Reykjavíkur í fjárlögum eftir þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur gagnvart menningarmálum á Akureyri og kemur það víðar fram að skilningur er ekki mikill á því sviði. Ég sé ekki ástæðu, hæstv. forseti, til að orðlengja þetta. Það veldur mér vonbrigðum. Þetta sýnir að ríkisstjórnin stendur ekki við sínar skuldbindingar að þessu leyti. Og ef svo fer að Leikfélag Akureyrar verður að hætta rekstri á næsta ári þá vitum við hvert má rekja það.