Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Frv. til fjáraukalaga liggur hér fyrir og er á margan hátt tímamótaákvörðun hjá þinginu að afgreiða það fyrir áramót. Annað mál er að sú afgreiðsla sem hér fer fram á sér stað í miklu tímahraki og er þess valdandi að sú umfjöllun verður ekki jafnmikil og nauðsynlegt hefði mátt telja.
    Ég vil, vegna þess hve tími er skammur, aðeins nefna að ég get tekið undir hvert orð sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér í ræðustól áðan. Það er kominn tími til að ríkisstjórn Íslands, hæstv. ráðherrar, fari að lögum, starfi skv. þeim ramma sem þingið setur þeim, en geri ekki öfugt við það sem þingið hefur ákveðið og berji það með ofbeldi hér í gegnum þingið. Það er einnig hárrétt sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér að ríkisstjórn Íslands getur ekki ákveðið að breyta því sem hæstv. Alþingi hefur samþykkt án þess að bera málið undir þing og það sé rætt þar og fái afgreiðslu.
    Jafnframt er ljóst að sú fjármálastjórn sem ríkið stendur að er svo léleg að þeim mönnum sem stjórna fjármálum ríkisins yrði öllum sagt upp störfum hjá meðalfyrirtæki. Sú skattheimta sem ríkisstjórn Íslands leggur á fólkið í landinu er tilkomin vegna stjórnleysis ríkisstjórnarinnar á fjármálum, stjórnleysis ráðherranna og hefur valdið því að fjölda fólks hefur verið sagt upp störfum í fyrirtækjum, er atvinnulaust og fjöldi manna hefur lent í gjaldþrotum. Það ábyrgðarleysi kemur fram bæði með fjáraukalögum og brtt. við þau og lýsir því vel að ríkisstjórn Íslands er vanhæf til að stjórna fjármálum. Á sama tíma sem heimilunum og fyrirtækjunum í landinu er ætlað að hafa minna til umráða og hærri skattar eru lagðir á fólkið í landinu flýtur ríkisstjórn Íslands að feigðarósi og einu úrræðin hjá henni eru --- ekki að laga rekstur ríkisins heldur að leggja meiri skatta á fólkið í landinu. Þessi stefna er þegar farin að birtast í þjóðfélaginu og mun hafa alvarlegar
afleiðingar. M.a. er fjöldi fólks sem nú þegar hefur ákveðið að flytjast til útlanda og flýja þessa ríkisstjórn sem er líkt og hefur gerst í austantjaldslöndunum um fjölda ára. Þar hafa aðeins múrar haldið fólkinu innan landanna en segja má að ríkisstjórn Íslands njóti þess að hér skuli vera stórt og mikið haf í kringum landið. Ég efast um að nema helmingur þjóðarinnar væri lengur hér á landinu ef hægt væri að keyra yfir næstu landamæri. Það er svo komið að maður heyrir víða hjá fólki að það bíður bara eftir því að hæstv. ríkisstjórn fari frá svo að það sé hægt að kjósa og kjósa menn sem er hægt að treysta.