Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sýndi mér samþykkt á sl. vori sem hann sagði að hefði verið gerð í ríkisstjórninni og var þess efnis að lántökugjald yrði ekki lagt á erlend lán sem tekin yrðu vegna meiri háttar viðhalds eða endurbóta sem unnar yrðu í íslenskum skipasmíðastöðvum. Ég átti í allhörðum orðaskiptum við hæstv. viðskrh. af þessu tilefni og raunar einnig við hæstv. fjmrh. hinn 10. maí sl. Þá lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að það lántökugjald sem hefði verið greitt af 200 millj. kr. sem Byggðastofnun hafði tekið vegna skipasmíðaverkefna yrði endurgreitt. Gert var sérstakt samkomulag milli mín og hæstv. ráðherra um að frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga þyrfti ekki að fara aftur til fjh.- og viðskn. úr því að þessi yfirlýsing lægi fyrir.
    Ég bað starfsmann Alþingis að afla upplýsinga um það nú í nóvembermánuði hvort staðið hefði verið við yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um að endurgreiða þetta fé. Og þau svör sem ég fékk úr fjmrn. voru þess efnis að það hefði ekki
verið endurgreitt. Ég spurði forstjóra Byggðastofnunar á fundi fjh.- og viðskn. fyrir skömmu hvort hann hefði fengið tilkynningu um að þetta fé yrði endurgreitt og hann sagði að engin slík tilkynning hefði borist. Á hinn bóginn viðhafði hæstv. viðskrh. vægast sagt strákslegt orðalag í sambandi við lántökugjaldið í Ed. 10. maí sem ekki vinnst tími til að rekja hér. Af þessu tilefni og af því að ég er að reyna að stuðla að því að hæstv. ríkisstjórn standi við sínar yfirlýsingar hef ég lagt fram svohljóðandi fyrirspurn:
,,1. Hversu hljóðar samþykkt ríkisstjórnar um að ekki skuli greitt sérstakt gjald af erlendum lántökum vegna viðhalds og endurbóta á fiskiskipum, unnum hér á landi, sbr. ummæli viðskrh. í Ed. 10. maí 1989?
    2. Hvaða dag var samþykkt ríkisstjórnarinnar gerð?
    3. Hversu hefur framkvæmd samþykktarinnar verið háttað og hvernig hefur hún verið kynnt?
    4. Hefur komið til endurgreiðslu samkvæmt samþykktinni?``