Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli hv. alþingismanns á því að sú heimild í lögum til að undanþiggja lántökugjaldið er bundin við að um sé að ræða sérstakar aðgerðir í þágu útflutningsgreina. Í lögunum er ekki --- eða var ekki því lögin hafa nú verið afnumin, þau eru ekki lengur í gildi --- var ekki almenn heimild til þess að undanþiggja atvinnugreinar lántökugjaldinu. Það er mjög mikilvægt að hv. alþm., og sérstaklega fyrirspyrjandi sem hér hafði stór orð í seinni ræðu sinni, geri sér grein fyrir því hvernig lagatextinn var orðaður. Þar var ekki um að ræða almenna lagaheimild sem veitti fjmrh. eða ríkisstjórn rétt til þess að undanþiggja heilar atvinnugreinar lántökugjaldinu, heldur var það eingöngu bundið við sérstakar aðgerðir í þágu útflutningsgreina. Þess vegna hefur sá skilningur verið ráðandi að hér væri um að ræða þær lánveitingar sem Byggðastofnun og Byggðasjóður önnuðust til þess að beita sér sérstaklega fyrir eflingu skipasmíða. Ef það hefði verið vilji hæstv. Alþingis að undanþiggja heilar atvinnugreinar lántökugjaldinu hefði það auðvitað komið fram í lögunum.
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna seinni ræðu hv. þm. Ég tel að lögin sem sett voru á sínum tíma en eru nú ekki lengur í gildi hafi ekki veitt fjmrh. eða ríkisstjórn almenna heimild til þess að undanþiggja atvinnugreinar eða aðra þá starfsemi sem ekki félli undir þann texta, þar sem í lögunum stóð að um sérstakar aðgerðir væri að ræða. Ég held að verið væri að túlka orðalagið ,,sérstakar aðgerðir`` óeðlilega ef ætti að gefa því þá merkingu að heil atvinnugrein væri ,,sérstök aðgerð``. Þess vegna hef ég ekki talið mér fært að túlka lögin eins og þau voru á sínum tíma með þeim hætti að skipasmíðar sem atvinnugrein væru undanþegnar. Að þessu leyti hafa samskipti fjmrn. varðandi framkvæmd þessa þáttar verið bundin við aðgerðir Byggðastofnunar sem hv. fyrirspyrjandi gerði reyndar að sérstöku umræðuefni á Alþingi 10. maí sl.
þegar hann ræddi þetta mál og vék þá sérstaklega að þessum málum Byggðastofnunar. Það má í sjálfu sér gagnrýna það að málið hafi ekki verið afgreitt endanlega fyrr af hálfu fjmrn. og Byggðastofnunar. ( HBl: Hvenær var bréfið skrifað?) Bréfið hefur ekki verið skrifað, hv. þm. ( HBl: Það hafa engin fyrirmæli borist.) Jú, jú, það hafa borist ( HBl: Það er ósatt.) fyrirmæli. En það er auðvitað oft þannig að embættismenn hafa sín á milli munnleg samskipti þar sem þeir ræða málin og greina hver öðrum frá því hvað gert verður. Og Byggðastofnun er ljóst að áður en árið er á enda verður frá þessum málum gengið ( HBl: Hvenær var bréfið skrifað?) með formlegum hætti, bæði bréfaskriftum og greiðslum, þannig að málinu verði lokið á þessu ári. Það hefur aldrei staðið ( HBl: Hvenær var þetta sem Byggðastofnun og fjmrn. ræddust við?) annað til, hv. þm., en að þessu máli yrði lokið á þessu ári. Það er eðlilegt að fjármálaleg samskipti ríkissjóðs og Byggðastofnunar, sem eru

margvísleg, séu gerð hrein við lok ársins og þetta er eitt af þeim málum. Sem betur fer er þetta nú ekki stór upphæð, 2,5 millj. kr., eins og ég gat um áðan, þannig að það er kannski eðlilegt að menn hafi ekki verið að horfa á það alveg sérstaklega og flýtt sér í þessum greiðslum þó að það sé út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. að það hefði mátt gera það fyrr. Hitt er hins vegar höfuðatriðið að fyrir árslok verði framfylgt þeirri samþykkt og þeim vilja sem ég kynnti hér áðan.