Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Í svari við fsp. sem ég bar fram varðandi endurgreiðslu á lántökugjaldi vegna lána til skipasmíðaverkefna sem unnin yrðu hér á landi vitnaði hæstv. ráðherra til ummæla hæstv. iðnrh. hér á Alþingi hinn 10. maí sl. þar sem hæstv. iðnrh. lýsti því yfir að þessi skattur yrði ekki á lagður. Nú er komið í ljós og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið sem nefndarmaður í fjh.- og viðskn., bæði hjá fulltrúum fjmrn. og Seðlabanka, hefur þessi skattur verið á lagður. Þegar ég lagði þessa fsp. fram hér í þinginu lágu fyrir upplýsingar um það frá embættismanni fjmrn. að engin fyrirmæli hefðu borist frá ríkisstjórn um það að þetta sérstaka lántökugjald yrði endurgreitt. Ég hef beðið hæstv. fjmrh. hér í fyrirspurn um að hann dagsetji hvenær tiltekin fyrirmæli hafi borist til Byggðastofnunar og borist til embættismanna fjmrh. Það er nauðsynlegt að sú dagsetning komi fram, hvenær hæstv. fjmrh. fyrirskipaði að þessir fjármunir yrðu endurgreiddir, því að ef í ljós kemur að þessi fyrirmæli hafi verið gefin í febrúarmánuði, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, þá hefur röð af embættismönnum farið með ósannindi við alþingismann, þá hefur forstjóri Byggðastofnunar farið með ósannindi á nefndarfundi í fjh.- og viðskn. Ég hygg á hinn bóginn, hæstv. forseti, að það sé nú sem oftar áður að embættismennirnir segi satt, allir hinir segi satt. Og ég hygg að það sé svo nú eins og endranær þegar við eigum orðastað við einstaka ráðherra að þá erum við ósjálfrátt vissir um að það er ráðherrann sem ekki fer með rétt mál. Það er á hinn bóginn ljóst af þeim undanbrögðum sem hæstv. ráðherra hefur sýnt að fsp. hefur orðið til þess að þetta sérstaka lántökugjald verður endurgreitt af 200 millj. kr. sem Byggðastofnun tók. Það er jafnljóst og ég stend hérna að fyrir því er engin lagaheimild, engin heiðarleg lagatúlkun, miðað við þá framkvæmd sem hefur verið í sambandi við þessa fjármuni, þessa lánsfyrirgreiðslu, á umliðnum árum, að þessi sérstaka
200 millj. kr. fyrirgreiðsla sé upp fundin af þessari ríkisstjórn og sé í einhverju sérstöku atvinnuskyni af hennar völdum. Hér er um almenna fyrirgreiðslu að ræða sem skipasmíðaiðnaðurinn hefur notið undanfarin ár og af þeim sökum er það eðlilegt að allir þeir sem hafa tekið erlend lán til viðgerða í íslenskum skipasmíðastöðvum á umliðnum árum fái þau endurgreidd.
    Ég ítreka svo að lokum að það er auðvitað óþolandi ef hæstv. ráðherrar geta ekki svarað eins og menn þegar maður kemur hingað með þinglegar fyrirspurnir. Og það er óhjákvæmilegt að þessi fjmrh. hæstv. svari þessu skýrt og skorinort: Hvenær gaf hann fyrirmælin og hvernig voru fyrirmælin, nákvæmlega?