Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að ég geri það fyrst hv. þm. Halldór Blöndal kaus að halda áfram efnisumræðum um málið hér undir titlinum um þingsköp. Mér þykir afar leitt ef hv. þm. er ekki í góðu skapi hér í dag og getur ekki móttekið efnislega það sem sagt er, en ég skal reyna í örfáum orðum að endurtaka það.
    Í þeirri samþykkt sem hæstv. iðnrh. lagði fyrir ríkisstjórnina 10. febr. og ég hef upplýst að var afgreidd 14. febr. til sérstakrar ráðherranefndar sem fékk málið síðan til meðferðar og endanlegrar afgreiðslu er sérstaklega vikið að lántöku Byggðastofnunar til skipaviðgerða hér innan lands að upphæð 200 millj. kr. Samþykktin fjallar um þessa sérstöku erlendu lántöku í þágu skipaviðgerða. Hún er þess vegna í samræmi við lagagrundvöllinn í erlenda lántökugjaldinu þar sem undanþáguheimildin eða endurgreiðsluheimildin er eingöngu bundin við sérstakar aðgerðir. Endurgreiðsluheimildin hefur ávallt verið framkvæmd þannig þegar um sérstakar aðgerðir hefur verið að ræða að skatturinn hefur verið lagður á og síðan hefur verið endurgreitt. Þessi skilningur hefur síðan verið hv. þm. ljós síðan 10. maí sl. vegna þess að í umræðum við hv. þm. í efri deild kom þetta skýrt og greinilega fram hjá hv. iðnrh. eins og ég las hér áðan. Þar segir hann að hér sé um að ræða sérstakar erlendar lántökur Byggðastofnunar vegna skipaviðgerða. Þess vegna er alveg ljóst að hvort sem hv. þm. líkar það betur eða verr er það búið að vera skýrt allan tímann að lagaheimildin til endurgreiðslu var bundin við sérstakar aðgerðir. Ríkisstjórnarsamþykktin var bundin við sérstaka lántöku og yfirlýsing hæstv. iðnrh. 10. maí gerir þetta alveg skýrt. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna hv. þm. er að koma hér upp nú rétt fyrir jól og skamma mig fyrir það að þetta hafi ekki verið almenn heimild sem beitt hafi verið gagnvart öllum því að ég hélt satt að segja að hv. þm. væri búið að vera það kunnugt í rösklega hálft ár hvernig þetta mál væri vaxið. Þess vegna hefur það líka verið ljóst að þessi samþykkt yrði framkvæmd á þessu ári og það hefur verið alveg skýrt innan fjmrn. að svo yrði.
    En eins og ég sagði hér áðan hefur ekki verið gengið endanlega í það verk að senda endurgreiðsluna til Byggðastofnunar og satt að segja kannski ekki talið að það væri svo brýnt mál að Byggðastofnun fengi þessar 2,5 millj. sem þarna er um að ræða að himinn og jörð séu nánast að farast eins og skilja má af hv. þm. Halldóri Blöndal að höfuðatriðið sé að þetta hafi farið hér fyrr á þessu ári. Fjármálaleg samskipti Byggðastofnunar og ríkissjóðs eru nú með þeim hætti að það eru sem betur fer mun stærri upphæðir sem fara á milli og menn þess vegna talið að þessi smáa upphæð skipti kannski ekki sköpum, hvenær hún kæmi endanlega til Byggðastofnunar. Aðalatriðið held ég að sé hins vegar það að efnislega liggi málið ljóst fyrir og við þau fyrirheit, sem gefin voru í samþykkt

ríkisstjórnarinnar og lýst var hér á Alþingi 10. maí, verði staðið.