Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Forseta þykir rétt að benda á það að hann hefur gefið bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra tækifæri hér til þess að spyrja og svara, einnig gefið þeim tækifæri til að gera stuttar athugasemdir og meira getur forseti í raun og veru ekki gert. Ef hæstv. ráðherra gefur ekki fullnægjandi svar, þá hlýtur það að liggja í því að svarið sé ekki fyrir hendi og varla getur þá forseti knúið fram eitthvað annað en það sem hæstv. ráðherra telur sig geta svarað. --- Nú biður hæstv. fjmrh. um orðið aftur um þingsköp og vill forseti beina því til hans að hann haldi sig við þingsköp.