Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Eftir að ég hef skoðað umrætt viðtal við ameríska sendiherrann hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að þar hafi sendiherrann farið út fyrir þau mörk sem hefð setur erlendum sendimönnum í ríkjum og sömuleiðis út fyrir það sem Vínarsáttmálinn, 41. gr., segir en þar er skýrt tekið fram að erlendir sendimenn skuli forðast að hafa á nokkurn máta afskipti af innanríkismálum. Og vitanlega er það sérstaklega viðkvæmt þegar um er að ræða málefni sem um eru deilur svo að mér þykir leitt að þurfa að staðfesta það að þarna sýnist mér að sendiherrann hafi því miður farið út fyrir þau mörk.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu og ætla ekki að tala efnislega um það sem þarna er um að ræða en jafnframt er um það spurt hvort ríkisstjórnin hafi tekið afstöðu til þessa máls. Það hefur hún ekki gert. M.a. er nú utanrrh. erlendis, eins og hv. fyrirspyrjandi veit, en ég mun ræða málið við hann strax eftir hans heimkomu.