Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mér finnst nauðsynlegt að hér verði upplýst á einhvern hátt hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda geta orðið, a.m.k. að fá skoðun hæstv. forsrh. á því hvernig honum finnst að bregðast eigi við því sem hann segir að sé að sendiherra hafi farið út fyrir mörkin, ekki síst í ljósi orða hæstv. viðskrh. nú áðan. Mér þykir nauðsynlegt að þingheimur fái að vita hvort hæstv. forsrh. deilir þeirri skoðun hæstv. viðskrh. að ekki sé ástæða til þess að hreyfa málinu frekar þar sem um persónulegt viðtal hafi verið að ræða. Við höfum þegar heyrt skoðun hæstv. fjmrh. hér og því óska ég þess að hæstv. forsrh. taki til máls nú á eftir og geri ögn betur grein fyrir afstöðu sinni í málinu, jafnvel þótt hæstv. utanrrh. sé ekki á landinu og samráð við hann ekki hægt að hafa að svo stöddu.