Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Þetta eru dálítið sérkennilegar umræður. Í fyrsta lagi hlýtur öllum að vera það ljóst er þeir skoða þetta að það er verið með íhlutun í okkar eigin mál sem þetta viðtal ber með sér. Hvaða skoðanir sem menn svo hafa á þeim málum sem þarna er um að ræða, þá er það, ég vil segja hastarlegt, að þessi umræða falli í þennan farveg, að við skulum ekki einu sinni geta verið sammála um það að gera athugasemdir við, þegar t.d. sendiherrar, auðvitað er hann þarna sendiherra og það er viðtal við manninn af því hann er sendiherra, þá er ekki hægt að taka það sem persónulegt viðtal. Mér þykir það mjög mikið miður að hæstv. starfandi utanrrh. skuli ekki hafa ótilkvaddur mótmælt þessari íhlutun. Og ég vil beina orðum mínum til hæstv. forsrh. hvort ekki sé ástæða til að mótmæla þessu opinberlega þannig að það séu ekki fleiri sendimenn annarra ríkja sem fara að ganga þessa slóð. Ég verð að lýsa undrun minni á þessum viðbrögðum, hvernig sem menn hugsa að öðru leyti.