Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. gera óþarflega mikið veður út af þessu viðtali við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Ég sé ekki að það komi fram í þessu viðtali að sendiherrann hafi beinlínis verið að blanda sér í íslensk innanríkismál. Við það að lesa þetta viðtal finnst mér hins vegar koma í ljós einlægur vilji sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi til að eiga við okkur góð samskipti. Hann er áhugasamur um það að geta látið gott af sér leiða og komið til okkar ýmsum hugmyndum sem hann er að fara fram á að við ræðum með honum.
    Ég hef haft þau afskipti af einni slíkri hugmynd að ræða um hugsanlegt samstarf milli Bandaríkjanna og fleiri þjóða við norðanvert Atlantshaf um umhverfisrannsóknir. Í því tilliti hef ég fagnað þessu framtaki sendiherrans að vekja athygli á slíkri hugmynd og mundi telja það miður ef litið er á slíkar hugmyndir sem lýst er í þessu viðtali sem einhverja íhlutun um íslensk innanríkismál.
    Varðandi ummæli hans um alþjóðlegan varaflugvöll á Íslandi þá get ég heils hugar tekið undir a.m.k. þann hluta viðtalsins þar sem sendiherrann bendir á að slíkur alþjóðlegur varaflugvöllur gæti orðið geysilega mikilvæg vöruflutningamiðstöð fyrir Ísland. Hann bendir réttilega á að í framtíðinni megi búast við því að vöruflutningar með flugvélum fari ört vaxandi og þannig gæti slíkur flugvöllur orðið mjög mikilvæg dreifingarmiðstöð fyrir bæði útflutningsvöru frá Íslandi, svo og aðrar vörur sem ættu leið hér um land, t.d. frá fjarlægari heimshlutum.
    Ég vil því hvetja þingmenn til þess að taka ekki þetta viðtal of hátíðlega og reyna heldur að lesa úr því þann jákvæða hug sem þar kemur fram.