Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það væri nú betur að sumir menn læsu ekki blöðin því að svo eru þeir illa á sig komnir að ekki mega þeir sjá neitt úr ákveðnum áttum þá er eins og hlaupi hland fyrir hjartað á þeim. Þessi umræða hér á öðrum síðasta degi þings fyrir jól er langt frá því að eiga rétt á sér þótt sé tekið viðtal við sendiherra í blaði fyrir viku síðan sem fer fram af opnum huga, eins og nútímamaðurinn talar og nútímasendiherrann. Á sama tíma og íslenska þingið samþykkir að flytja viðskiptamál yfir til utanríkisþjónustunnar, þ.e. utanríkisviðskiptin, og hv. þm. sem hér hafa talað hafa samþykkt með handauppréttingu, þá á að banna öðrum sendimönnum að tala um viðskipti þjóðanna sem er alveg furðulegt. Við erum í nútímanum og fólkið vill opna umræðu en ekki einhvern rannsóknarrétt eins og var til forna hjá páfastóli. Fólkið vill að það sé skýrt frá hugmyndum og það komi fram frjálsar skoðanir en ekki lokað bókhald eins og hv. 2. þm. Austurl. óskar eftir.