Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Það var nú hjá mér eins og jafnvel 1. þm. Suðurl., ég hafði ekki lesið Moggann, gerði það í gær og ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt að viðtalið er um margt mjög gott, mjög margt athyglisvert í þessu viðtali og langstærstur hluti af því er þannig að það er ekki hægt að gera neina athugasemd við það. Það er fróðlegt. En það er hárrétt sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði hér áðan. Sendiherranum verða á mistök. Því verður alls ekki neitað. Og því verður ekki neitað að þetta gengur gegn ákvæði Vínarsáttmálans þar sem segir: ,,Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.``
    Því verður alls ekki neitað að hér eru miklar deilur um byggingu varaflugvallar sem sendiherrann leggur afar mikla áherslu á að beri að gera af ýmsum ástæðum sem er ekki tími til að rekja hér, menn vonandi lesa þetta viðtal. Mér heyrist að skoðanir manna skiptist hér dálítið eftir því hvort þeir eru með varaflugvelli eða á móti. Það er bara allt annað mál, kemur ekkert þessu við. Og ég verð að lýsa andstöðu við það sem hér hefur komið fram að sendiherrann og persónan sem við er talað verði aðskilin. Það er útilokað að aðskilja t.d. Þorstein Pálsson frá formanni Sjálfstfl. eða treystir einhver sér til þess? Það held ég ekki. Vitanlega er hér um eina og sömu persónuna að ræða og verðum við að skoða það í því ljósi.
    Hér var spurt um það nánar hver viðbrögð yrðu. Ég hélt ég hefði nú verið búinn að svara því. Ég mun ræða þetta við utanrrh. strax og hann kemur heim og ég tel sjálfsagt að kalla á sendiherrann og benda honum á að þarna hafi hann gengið of langt. Vitanlega er sendiherranum sjálfsagt --- og ekkert nema eðlilegt, sjálfsagt --- að ræða við ráðherra og hvern sem hann vill um þau ýmsu mál sem varða samskipti hans þjóðar og þessa ríkis. Það er honum sjálfsagt að gera. En opinberlega að leitast við að hafa áhrif í umdeildum málum, um það held ég að verði því miður ekki sagt annað en að þar urðu honum á mistök.