Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Fjvn. Alþingis hefur nú lokið störfum fyrir 3. umr. fjárlaga. Fram koma frá nefndinni tillögur á fjórum þskj. Nefndin flytur á þessum þskj. sameiginlegar brtt. er varða 6. gr. fjárlagafrv. og eru þær brtt. á þskj. 424. Þá flytur meiri hl. nefndarinnar á sérstökum þskj. tillögur sem minni hl. stendur ekki að, en þær tillögur varða 1. gr. á þskj. 423, 5. gr. á þskj. 408, 3. gr. á þskj. 407 og 4. gr. á þskj. 423. Auk þess, frú forseti, höfum við gripið til þess ráðs að láta dreifa á borð þingmanna skýringum við allar þær brtt. sem gerðar eru og er það í fskj. sem hlýtur þó ekki þingskjalsnúmer. Er það með svipuðum hætti eins og þegar skýringar eru gerðar við afgreiðslu við 2. umr. Ef þingmenn vilja kynna sér þær brtt. sem fjvn. og meiri hl. hennar flytja nú, þá er einfaldast að gera það með því að fara yfir og lesa það fskj. sem þessum tillögum fylgir og dreift hefur verið á borð þingmanna án þess að hafa fylgiskjalsnúmer.
    Þegar vinnu fjvn. er að þessu sinni lokið vil ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna fyrir ágætt samstarf. Óvenjulega mikið vinnuálag hefur verið hjá okkur í nefndinni en nefndin hefur engu að síður leyst sín verk og lokið þeim á tilsettum tíma og hefur tekist um það ágætt samstarf í nefndinni. Ég vil einnig ítreka þakkir mínar og okkar nefndarmanna við starfsfólk nefndarinnar og þá einkum og sér í lagi ritara hennar, Sigurð Rúnar Sigurjónsson, við hagsýslustjóra Indriða H. Þorláksson og starfsfólk hans og vararíkisendurskoðanda Sigurð Þórðarson og starfsfólk Ríkisendurskoðunar. Einnig færum við kærar þakkir starfsfólki Alþingis bæði í Austurstræti 14 og hér í Alþingishúsinu. Þar sem hagsýslustjóri Indriði H. Þorláksson er nú á förum af landi brott til annarra starfa, þá vil ég einnig nota þetta tækifæri til að færa honum bestu þakkir okkar fjárveitinganefndarmanna fyrir samstarfið á liðnum árum. Við óskum Indriða og fjölskyldu hans alls hins besta og honum fylgja góðar kveðjur okkar þegar hann heldur nú til starfa á nýjum vettvangi.
    Að hefðbundnum hætti kallaði fjvn. til sín forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Þórð Friðjónsson, og starfsmenn hans og mættu þeir á næstsíðasta fund nefndarinnar. Á þeim fundi lögðu þeir Þjóðhagsstofnunarmenn m.a. fram upplýsingar um endurskoðun þjóðhagsspár. Samkvæmt þeirri endurskoðuðu spá er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á efnahagshorfum á næsta ári frá því þjóðhagsáætlun var lögð fram á Alþingi. Samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar er við fengum í hendur og dagsett er 19. des. sl. er gert ráð fyrir nokkuð meiri samdrætti í einkaneyslu á næsta ári en ráð var fyrir gert í þjóðhagsáætlun. Mun einkaneysla dragast saman á næsta ári að öllu óbreyttu um 2,5% í stað 2% eins og spáð var í þjóðhagsáætlun. Áætlað er að samneysla muni aukast um 1% en draga muni úr fjárfestingu um sömu prósentutölu. Þjóðarútgjöld eru talin lækka um 1,8% á móti 1,4% eins og spáð var. Er auðsætt af þessum spám að nú stefnum við Íslendingar inn í þriðja samdráttarárið í röð þar sem

verulega mun draga úr einkaneyslu og fjárfestingum og einnig þjóðarútgjöldum þótt samneysla aukist lítið eitt. Kemur þessi samdráttur m.a. fram í því að áfram er áætlað að vergar þjóðartekjur á næsta ári lækki um 1,4% frá árinu í ár. Er þar spáð áframhaldandi lækkun þjóðartekna en lækkun þjóðartekna á yfirstandandi ári frá árinu 1988 mun nema 4,3%.
    Nokkur batamerki eru hins vegar sjáanleg að mati Þjóðhagsstofnunar á vöruskiptum við útlönd. Þannig áætlar Þjóðhagsstofnun þann 19. des. að ekki verði um að ræða samdrátt í tekjum af útflutningi vöru og þjónustu eins og gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Hins vegar áætlar stofnunin að innflutningur á vörum og þjónustu dragist svipað saman eins og áætlað var í þjóðhagsáætluninni eða um 2%. Samkvæmt þessu eru horfur á að vöruskiptajöfnuður á næsta ári geti orðið hagstæður um allt að 7 milljarða kr. Vaxtajöfnuður við útlönd verður hins vegar óhagstæður um allt að 15 milljarða kr. þannig að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd stefnir í að vera óhagstæður um 7,9--8 milljarða kr. og er það öllu betri útkoma en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun sem lögð var fram á Alþingi í haust, en þá var talið að viðskiptajöfnuður gæti orðið óhagstæður um allt að 9,9 milljarða kr. Þessi bati í vöruviðskiptum við útlönd er vissulega jákvæður og eina umtalsverða breytingin sem verður á efnahagshorfum frá því að þjóðhagsáætlun var lögð fram á Alþingi í haust. Út af fyrir sig er ánægjulegt að sú eina breyting sem orðið hefur skuli vera jákvæð, en að öllu samanlögðu er ljóst að enn horfir til samdráttar í þjóðarbúskapnum og enn eru ekki horfur á að þjóðarskútan sé farin að rísa upp úr öldudalnum.
    Ekki gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir miklum breytingum á fyrri spám um þróun í verðlagi og gengi. Hún spáir að framfærsluvísitala muni hækka um 16,5% og er það meðalhækkun frá árinu í ár og eru það um það bil sömu horfur um breytingu á framfærsluvísitölu og Þjóðhagsstofnun spáði í þjóðhagsáætlun. Hins vegar spáir stofnunin því að byggingarvísitala geti hækkað eilítið meira en gert var ráð fyrir eða úr 16% í 17%. Allar þessar spár eru að sjálfsögðu miðaðar við að forsendur haldist óbreyttar sem að baki þessum spám búa.
    Meðalverð erlends gjaldeyris er því sem næst óbreytt í spám Þjóðhagsstofnunar og hún spáir því einnig að atvinnuleysi geti aukist nokkuð eða úr 1,7% af heildarvinnuaflinu árið 1989 í 2,5% á næsta ári. Til upplýsingar skal þess getið að hvert prósentustig í þessu sambandi merkir um 1200--1300 einstaklinga þannig að haldi fram sem horfir er ljóst að áframhaldandi samdráttur á næsta ári mun, ef ekkert er aðhafst, hafa áhrif á vinnumarkaðinn og verður það eitt af mikilsverðustu verkefnum hæstv. ríkisstjórnar að takast á við það vandamál með öllum ráðum til þess að auka atvinnu og styrkja atvinnulífið í landinu. Ríkisstjórnin hefur í þeim efnum náð verulegum árangri, enda voru horfur á því þegar ríkisstjórnin tók við völdum að hrun yrði í íslenskum

undirstöðuatvinnuvegum með fjöldaatvinnuleysi sem fylgja mundi í kjölfarið. Ríkisstjórnin tókst hins vegar á við þann vanda og henni hefur tekist að tryggja að hjól atvinnulífsins héldu áfram að snúast og af því fjöldaatvinnuleysi varð ekki sem spáð hafði verið. Hefur tekist að tryggja þokkalegan rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna og þá ekki hvað síst í fiskvinnslu, en eins og fram hefur komið hefur tekist að bæta hlut fiskvinnslunnar og bjarga þeim fjölmörgu fyrirtækjum frá gjaldþroti og hruni sem römbuðu á barmi hengiflugsins þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Hefur raunar tekist að breyta svo umhverfinu hjá þessari undirstöðuatvinnugrein að forráðamenn hennar telja nú að reksturinn eigi að geta gengið við óbreyttar aðstæður og óbreytt gengi.
    Á þessum grunni sem þarna hefur verið lagður þarf að byggja og halda þannig á málum að áframhaldandi árangur geti orðið og þá þannig að því sé ekki teflt í hættu sem þegar hefur unnist. Vinna verður að því með öllum ráðum að draga úr verðhækkunum og þörf til verðhækkana þannig að verðlag almennt í landinu hækki eins lítið og framast er unnt og helst mun minna en áætlanir og spár gera nú ráð fyrir. Þetta er hægt með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og þar ráða úrslitum að sjálfsögðu þeir kjarasamningar sem gerðir verða á árinu.
    Stjórnvöldum ber að greiða fyrir því svo sem framast er unnt að skynsamlegir kjarasamningar náist sem tryggi það að undirstöðuatvinnuvegirnir geti gengið án þess að til gengisbreytinga þurfi að koma, en með gengisbreytingu mundi verðbólguhjólið fara að snúast á ný. Þá á markmið slíkra samninga einnig að vera að varðveita atvinnuöryggi og lífskjörin en það er auðvitað augljóst að hversu heitt sem menn óska þess, þá getur þjóðin ekki samið af sér í kjarasamningum neikvæðar staðreyndir ytri aðstæðna, svo sem eins og þann áframhaldandi samdrátt í þjóðarbúskapnum sem fyrirsjáanlegur er á næsta ári.
    Ef hægt væri að semja í kjarasamningum um auknar þjóðartekjur, meira aflaverðmæti og jákvæðan viðskiptajöfnuð, þá væri gaman að lifa. Þetta er hins vegar ekki hægt. Það er hættuleg óskhyggja að ímynda sér það. Vilji menn varðveita atvinnuöryggið sem er algjört grundvallaratriði, þá verða allir aðilar að stilla kröfum sínum í hóf og gera sér ljóst að menn geta ekki samið af sér það neikvæða efnahagsumhverfi sem þjóðin býr nú við. Menn geta um það deilt og eru sífellt um það að deila hvernig eigi að skipta kökunni, en meginatriði málsins er að eitthvað verður að vera til fyrir alla og ef einhver einn hópurinn ætlar sér við þessar aðstæður stærri sneið en hann nú hefur, þá er hætta á því að ekkert verði eftir fyrir þá sem síðastir koma að því borði.
    Það er við þessar aðstæður í efnahagslífi þjóðarinnar sem fjárlagaafgreiðslan fer nú fram. Afgreiðsla fjárlaganna markast að sjálfsögðu af þessum aðstæðum. Kaupgetan hefur verið að rýrna, einkaneyslan hefur verið að dragast saman og sá samdráttur kemur einnig fram sem samdráttur í tekjum ríkisins, bæði í tekjusköttum og veltusköttum. Á hinn

bóginn eru margir af útgjaldaliðum hins opinbera þannig vaxnir að þeir dragast ekki saman þótt samdráttur verði í tekjunum. Launaútgjöldin verða ekki lækkuð þótt tekjurnar lækki. Útgjöld vegna heilsugæslunnar verða það ekki heldur og enn síður útgjöld vegna skóla og menntunar. Þó reynt sé að standa á bremsunum lækka ekki útgjöldin til þessara viðfangsefna, enda verður slíkt ekki gert nema með erfiðum og sársaukafullum aðgerðum er draga úr þjónustu. Samdráttarskeiðið veldur því samdrætti í tekjum ríkissjóðs án þess að sambærilegur samdráttur komi fram útgjaldamegin. Á slíkum tímum er miklu erfiðara en ella og raunar nær ógerningur að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs. Eins og fjárlagafrv. ber með sér hefur það ekki heldur tekist þó svo reynt hafi verið eftir fremsta megni að halda aftur af útgjöldum ríkisins. Er einnig vafasamt að rétt sé að beita of harkalegum samdráttaraðgerðum í útgjöldum ríkissjóðs á tímum slíks samdráttar í þjóðarbúskapnum yfirleitt því þótt slíkar harkalegar aðgerðir til samdráttar útgjaldamegin hjá ríkissjóði virkuðu vel á afkomu ríkissjóðs sjálfs er ekki þar með sagt að þær mundu virka jafn vel á afkomu fólksins í landinu og atvinnuöryggi þess. Þannig verður ríkisstjórnin sjálfsagt gagnrýnd af stjórnarandstöðunni fyrir að afgreiða ekki fjárlög hallalaus, en meiri gagnrýni mundi hún sæta ef hún gerði þær ráðstafanir, annaðhvort til tekjuöflunar eða til niðurskurðar á útgjöldum og þjónustu, sem gera yrði við þessar aðstæður til að ná slíkum jöfnuði í rekstri ríkissjóðs.
    Er nú rétt að víkja að þeim tillögum sem fluttar eru við 3. umr. fjárlaga og kem ég þá fyrst að þeim tillögum sem meiri hl. fjvn. flytur á þskj. 423 og varða 4. gr. Ég ítreka að það er einfaldast að fylgjast með þessum brtt. með því að styðjast við það skjal sem dreift hefur verið sem fylgiskjali á borð þm. þar sem tillögurnar eru skýrðar í réttri röð þannig að menn þurfi ekki að vera að blaða á milli tillagnanna á fjórum ólíkum þingskjölum.
    Fyrsta brtt. sem meiri hl. flytur varðar æðstu stjórn ríkisins, forsetasetrið á Bessastöðum. Samkvæmt lögum sem sett voru í fyrra á Alþingi er nú unnið að miklum endurbótum við Bessastaðastofu og forsetasetrið en það gamla og virðulega hús, Bessastaðastofa, er orðið mjög mikið skemmt vegna skorts á viðhaldi um mjög langan tíma. Viðgerðir hófust á sl. sumri en þegar viðgerðir voru hafnar kom í ljós að um miklu meiri skemmdir var að ræða á þessu fornfræga húsi en menn höfðu haldið. Viðgerðin verður því mjög kostnaðarsöm en um leið óhjákvæmileg því þegar að var gáð var ástand hússins orðið slíkt að það var nánast að hruni komið og raunar orðið hættulegt til íbúðar og íveru. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að Mannvirkjasjóður menningarstofnana, sem stofnaður er með lögum, taki að sér viðgerðir á Bessastöðum. Af lántöku sjóðsins fari 150 millj. kr. til viðgerðar á Bessastaðastofu og komi sú fjárhæð til viðbótar við þá fjárhæð sem í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að yrði til viðgerðarinnar. Verður þannig unnið á næsta ári fyrir

alls 202 millj. kr. við viðgerðirnar á Bessastöðum.
    Önnur og þriðja brtt. þarfnast ekki sérstakra skýringa umfram það sem segir í sérstöku fylgiskjali sem dreift hefur verið á borð þingmanna. Fjórða tillagan varðar Háskóla Íslands og er í ýmsum liðum. Er hér um að ræða framsetningu á samkomulagi sem gert var milli háskólayfirvalda annars vegar og menntmrn. og fjmrn. hins vegar en með því samkomulagi var leyst deila sem uppi var um ráðstöfun happdrættisfjár. Kjarni þess samkomulags er að Háskóli Íslands fær full yfirráð yfir tekjum af happdrættisfé að öðru leyti en því sem rennur til rannsóknastofnana byggingarsjóða atvinnuveganna venju samkvæmt og tekur Háskólinn að sér á móti nokkur ný verkefni sem hann mun kosta, svo sem kaup á tölvubúnaði til Þjóðarbókhlöðu. Einnig er gert ráð fyrir því að stofnanir í tengslum við Háskóla Íslands fái aðild að Rannsóknarsjóði. Allir liðirnir í þessari tillögu eru breytingar sem gerðar eru til að framkvæma samkomulag það sem Háskólinn gerði við hæstv. menntmrh. varðandi happdrættisféð og eru þær nánar skýrðar í fylgiskjali. Næstu tillögur á eftir varða síðan Tilraunastöð Háskólans á Keldum og Raunvísindastofnun Háskólans og er þar einnig um að ræða framkvæmd á samkomulagi menntmrh. við háskólayfirvöld og vísa ég í fylgiskjalið með tillögunum til frekari skýringa.
    Er þá komið að tillögu sem gerð er um Háskólann á Akureyri. Eins og kunnugt er var ákveðið í fjárlögum yfirstandandi árs að heimila frá og með miðju ári 1989 ráðningu á námsbrautastjóra til að undirbúa kennslu í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Hugmyndin var sú að námsbrautastjóri ynni að tillögugerð um slíka námsbraut, bæði hvað varðar námsefni, rekstrarkostnað og stofnbúnað og síðan yrðu þær tillögur lagðar fyrir Alþingi er tæki síðan ákvörðun um hvort og hvenær nám þetta hæfist. Ríkisstjórnin tók hins vegar ákvörðun um það síðar að heimila ráðningu þriggja kennara við sjávarútvegsbrautina og að stefnt skyldi að því að nám við hana gæti hafist við Háskólann á Akureyri um nk. áramót. Voru þessi útgjöld greidd með aukafjárveitingum þannig að þegar fjvn. kom að málinu á ný var raunar búið að taka ákvörðun um það af hæstv. ríkisstjórn að nám þetta skyldi hafið.
    Í erindum forráðamanna Háskólans fyrir fjvn. kom fram að til þess að þetta gæti gengið eftir þyrfti að leggja í mjög verulegan kostnað þegar í upphafi næsta árs vegna byggingar á nýju húsi yfir verklega og vísindalega kennslu við sjávarútvegsbrautina. Var þá miðað við að bóklegt nám hæfist á vormissiri 1990 og verklegt nám með tækjabúnaði í nýju húsi haustið 1990. Kostnaður við þá húsbyggingu og tækjakaup hefði numið um eða yfir 100 millj. kr. Fjvn. treysti sér ekki til þess að gera tillögu að svo stöddu og óskaði eftir því að ríkisstjórnin ræddi málið nánar.
    Tillaga sú sem hér er lýst er niðurstaða af þeim umræðum en hún er að laun verði hækkuð um 10 millj. kr. við Háskólann á Akureyri og er þar um að ræða hækkun launa vegna kennslukostnaðar með tilliti

til sjávarútvegsdeildarnnar. Viðfangsefnið Tæki og búnaður hækki hins vegar um 15 millj. kr. frá frv. og verði 20 millj. kr. Fyrir þá fjárveitingu er ætlast til að keypt verði nauðsynlegustu tæki og þeim komið fyrir í ódýru leiguhúsnæði sem Háskólanum hefur verið boðið. Jafnframt er fyrirhugað að flytja útibú Hafrannsóknastofnunar frá Húsavík til Akureyrar til að styrkja stöðu og starfsemi Háskólans á Akureyri. Þá er einnig í ráði að huga að möguleikum þess að nemendur á sjávarútvegsbraut við Háskólann á Akureyri geti lokið námi sínu að einhverjum hluta við erlenda háskóla. Það er sú leið sem m.a. var farin árum saman hvað varðar nám við verkfræðideild Háskóla Íslands.
    Sú afgreiðsla sem hér er lögð til mun tryggja að nám við sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri geti hafist um næstkomandi áramót eins og ráð var fyrir
gert og að framhald geti orðið á því námi á næsta hausti eins og nauðsynlegt er þó ekki hafi verið valin sú leið til þess sem forráðamenn Háskólans á Akureyri hefðu allra helst óskað eftir.
    Þá er komið að tillögum um jöfnun á námskostnaði. Þar er lagt til að sá liður hækki um 15 millj. kr. og er það í hátt við áætlaðar verðlagsbreytingar.
    Þá er komið að tillögu er varðar Náttúruverndarráð og er þar lagt til að framlög til ráðsins lækki um 1300 þús. kr. Er það vegna þess að veitt var til sérstaks viðfangsefnis á vegum Náttúruverndarráðs jafnhárri upphæð á árinu 1989 en ráðið sinnti ekki þeirri afgreiðslu heldur tók þetta fé til eigin rekstrar. Er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð endurgreiði nú þetta fé af fjárveitingu sinni fyrir árið 1990.
    Þá er komið að Þjóðleikhúsinu og tillögum þeim er fjvn. gerir um málefni hússins. Áður en kom til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 hafði fjvn. að ósk þjóðleikhússtjóra kynnt sér sérstaklega ástand hússins. Var þá svo komið að ýmsar opinberar stofnanir er annast eftirlit og öryggisgæslu töldu óhjákvæmilegt að loka húsinu vegna hættu sem m.a. stafaði af því að allt lagnakerfi í húsinu, þar á meðal allt raflagnakerfi, var ónýtt. Miklar skemmdir höfðu auk þess orðið á húsinu vegna skorts á nauðsynlegu viðhaldi. Eftir að hafa kynnt sér þessi mál rækilega af eigin raun ræddi fjvn. við sérstaka nefnd sem skipuð hafði verið af menntmrh. til að skoða málefni hússins bæði er varðar rekstur stofnunarinnar og húsnæðismál hennar. Auk þeirra vandkvæða sem ég áður hef lýst og varða húsið sjálft, þ.e. þjóðleikhúsbygginguna, hafa verið miklir erfiðleikar í rekstri stofnunarinnar og hafði hún farið langt umfram fjárlagaheimildir sínar og voru rekstraráætlanir Þjóðleikhússins víðs fjarri þeim niðurstöðum sem urðu. Var því auðsætt að nauðsynlegt væri að takast á við hvort tveggja, viðgerðir á húsinu og rekstur stofnunarinnar.
    Niðurstaða fjvn. varð sú að hún lagði fyrir Alþingi tilteknar tillögur. Tillögurnar mótuðust af því að í fyrsta lagi yrði undirbúin viðgerð á húsinu, þ.e. endurnýjun lagnakerfis hússins, viðgerð á skemmdum, lagfæringar á öryggisatriðum og vinna ýmissa

viðhaldsverkefna sem vanrækt höfðu verið. Nefndin taldi óhjákvæmilegt að meðan á þessari vinnu stæði yrði Þjóðleikhúsinu lokað og starfsemi þess legðist niður á meðan. Gerði fjvn. því ráð fyrir að starfsfólki hússins yrði sagt upp þannig að samningar væru lausir þegar viðgerðin hæfist og húsinu yrði lokað svo að kostur gæfist á að endurskipuleggja reksturinn jafnframt því sem endurbætur yrðu unnar á húsinu.
    Þegar fjvn. kom að málinu að nýju á sl. hausti kom hins vegar tvennt í ljós. Hvað rekstraráformin varðaði höfðu vissulega verið gerðar lofsverðar breytingar svo sem ráðning nýs fjármálastjóra sem tekið hafði á ýmsum vandamálum í rekstri Þjóðleikhússins. Endurskipulagning á rekstri hússins að öðru leyti hafði hins vegar ekki átt sér stað og kom fram í erindum þjóðleikhússtjóra til nefndarinnar að stefnt væri að mjög kostnaðarsömum verkefnum og stórfelldum útgjöldum umfram það sem ráð var fyrir gert í fjárlagafrv. og umfram það sem fjvn. hafði lýst þegar hún lagði tillögur sínar fyrir Alþingi í desember sl. Hvað viðgerðirnar á húsinu varðaði kom í ljós að uppi voru áform um miklu víðtækari endurbætur en fjvn. höfðu verið kynntar á sínum tíma. Í stað þess sem þá var talað um, endurnýjun á öryggisbúnaði, lagnakerfi og viðgerðir ásamt bættu aðgengi fatlaðra, varð ekki betur séð en nú væri stefnt að því að byggja í rauninni nýtt leikhús að því einu undanteknu að útveggir Þjóðleikhússins sem nú eru fengju að standa. Áætla má að slíkar framkvæmdir myndu kosta 1,5--2 milljarða kr. þegar upp yrði staðið.
    Ég held að óhætt sé að fullyrða að fjárveitinganefndarmönnum var nokkuð brugðið er þetta hvort tveggja var kynnt fyrir þeim, þ.e. annars vegar rekstraráætlanirnar og hins vegar endurbyggingaráætlanirnar. Fjvn. kannaði málið frekar og átti auk þess ágætan fund með menntmrh. þar sem kom fram vilji beggja aðila til þess að takast á við þessi vandamál með nokkuð öðrum hætti en þeim sem kynntur hafði verið fjvn. í upphafi af forráðamönnum stofnunarinnar og af þeim hugmyndum sem nefndin hafði fengið um umfang endurbyggingar og endurbóta. Kom fram hjá hæstv. menntmrh. að vilji hans stæði til þess hvað endurbæturnar varðaði að fylgt væri upphaflegri stefnu um nauðsynlegar viðgerðir, lagfæringar og viðhald án þess að áformað væri það risavaxna verkefni að umbylta öllu Þjóðleikhúsinu og byggja í rauninni nýtt. Einnig kom fram hjá ráðherranum að hann hefði fullan hug á því að endurskipuleggja rekstur Þjóðleikhússins og draga úr kostnaði. Lýsti ráðherra þeim vilja sínum að reynt yrði að vinna við endurbætur hússins á árinu 1990 og að húsinu yrði lokað því sem næst í marsmánuði og viðgerðir á húsinu hæfust þá strax og þeim gæti orðið lokið þannig að sýningar gætu hafist að nýju í Þjóðleikhúsinu í desembermánuði á því ári.
    Fjvn. óskaði eftir áætlunum um þær viðgerðir sem fyrirhugaðar væru. Nefndin fékk slíkar áætlanir dagsettar 18. des. sl. Vörðuðu þær viðgerð Þjóðleikhússins og er þar um að ræða kostnaðaráætlun við endurbætur á húsinu frá sviðsbrún leiksviðs að

anddyri og frá grunni og upp í þak og að auki vegna
tækjaklefa neðan jarðar austan við húsið og aðrar endurbætur. Samanlagður kostnaður við þessar viðgerðir er áætlaðar 540 millj. kr. Í áætluninni er þá talað um 1. áfanga endurbóta á Þjóðleikhúsinu og má af þeim orðum ætla að aðrar áfangar fylgi á eftir án þess að ljóst sé hvað þar eigi að gera né heldur hvað vinna eigi þar fyrir mikið fé. Fjvn. vill í því sambandi taka fram að hún fellst ekki á að hér sé hafinn 1. áfangi í áfangaskiptu verki sem enginn veit hvert er og hvað muni kosta. Nefndin er ekki reiðubúin að leggja fyrir Alþingi að það taki slíka ákvörðun enda hefur nefndin ekki hugmynd um hvaða frekari áfanga menn eru þar að ræða um né hvað þeir muni kosta. Ég legg því áherslu á að sú tillaga sem fjvn. mun gera í þessu efni er aðeins um að tekist verði á við það viðfangsefni sem nefndin hefur fengið áætlun um og ekkert annað. Verði um frekari verk að ræða í viðgerðum Þjóðleikhússins þá er þar um að ræða algerlega sjálfstæða ákvörðun sem yrði tekin eða ekki tekin án nokkurra tengsla við þá tillögu sem hér er gerð.
    Er þá rétt að víkja að tillögum fjvn. er varða Þjóðleikhúsið. Komum við þá fyrst að þeim tillögum er varða viðgerð hússins. Í þeirri kostnaðaráætlun sem nefndinni hefur borist er gert ráð fyrir því að viðfangsefni það sem ráðist verði í kosti alls 540 millj. kr. Áætlað er að þær framkvæmdir verði unnar á tveimur árum, árinu 1990 og árinu 1991. Verk það sem vinna á á árinu 1990 er nefnt fyrsta lota í áætluninni um viðgerð Þjóðleikhússins og er það þá fyrsta lota af tveimur. Þar er áætlað að vinna fyrir alls 310 millj. kr. og eru þá eftir verk sem vinna á á árinu 1991 og áætlað er að kosti um 230 millj. kr. Þau verk sem bíða ársins 1991 eru þannig um það bil helmingur af öllum múrbrotsverkefnum og steypuframkvæmdum í húsinu, um 2 / 3 hlutar af endurbótum á gestasvæði og lyftu, svo til öll gerð tækjaklefa, stærsti hlutinn af endurnýjun raflagna, loftræstikerfis, vatnslagna og hitalagna auk sviðslýsingar, hljóð- og öryggiskerfis, frágangur á útihurðum og gluggum, og 2 / 3 af verkum vegna sérstakra brunatæknilegra aðgerða og öll verk í kjallara. Nokkrar fjárhæðir vegna hönnunar og umsjónar eru þá ógreiddar. Miðað við þessa verklýsingu og lotuskipti telur fjvn. einsýnt að ekki sé rétt að gera ráð fyrir því að rekstur Þjóðleikhússins geti hafist að nýju á haustinu 1990, enda er nefndin þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að hefja starfrækslu í húsinu fyrr en því verki sé að mestu lokið er varðar múrbrot, endurnýjun lagna, frágang áhorfendasalar og brunatæknilegar aðgerðir. Nefndin telur því mjög óvarlegt að gera ráð fyrir því að rekstur hefjist á ný í Þjóðleikhúsinu fyrr en eftir verklok eða á haustmissiri árið 1991. Nefndinni er það hins vegar ljóst að hæstv. menntmrh. er ekki sömu skoðunar og hann telur að slíkt sé unnt.
    Tillögur nefndarinnar eru svo þær, og er þar stuðst við niðurstöður ríkisstjórnarinnar og menntmrh., að Mannvirkjasjóður menningarstofnana taki að sér að

fjármagna endurbætur Þjóðleikhússins og þær viðgerðir séu framkvæmdar eins og áætlun sú gerir ráð fyrir sem nefndin fékk í hendur. Hvað reksturinn varðar gerir nefndin tillögu um að framlag til Þjóðleikhússins frá frv. lækki um 60 millj. kr. Er þar gert ráð fyrir því að leikstarfsemi í húsinu hætti í febrúar eða mars á næsta ári, húsinu verði þá lokað og endurbyggingarvinna hefjist. Nefndin er þeirrar skoðunar og miðar tillögur sínar út frá því að ekki sé svo rétt að áætla að neinn frekari rekstur á vegum Þjóðleikhússins eigi sér stað á árinu 1990, hvorki í húsinu sjálfu né annars staðar og verði þá tækifærið notað til þeirrar endurskipulagningar á rekstri sem nefndin tók afstöðu til fyrir ári síðan. Komi hins vegar í ljós að viðgerðunum miði betur fram en nefndin telur óhætt að áætla, án þess þó að ráðstafað verði meira fé til þeirra en hér er gerð tillaga um, þá geta menn endurskoðað þessi mál enda hafi þá sú endurskipulagning á rekstri verið framkvæmd sem nefndin leggur áherslu á. Þá er einnig gert ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar að af framlagi til rekstrar Þjóðleikhússins verði sérmerkt 21 millj. kr. til nýs viðfangsefnis, þ.e. til Íslenska dansflokksins og Listdansskólans sem ekki hafa áður verið sérmerkt sem viðfangsefni á vegum Þjóðleikhússins.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið nokkuð mörgum orðum um málefni Þjóðleikhússins en það er vegna þess að fjvn. fól mér að gera mjög skilmerkilega grein fyrir því hvað í tillögum nefndarinnar felst og hefur það verið gert. Næsta tillaga varðar síðan Þjóðarbókhlöðuna en með Mannvirkjasjóði menningarstofnana sem mun taka að sér verkin við Þjóðarbókhlöðuna fellur fjárlagaliðurinn niður og framlag til byggingarinnar er fært í B-hluta. Í næstu tillögu er síðan nánari grein gerð fyrir Mannvirkjasjóði menningarstofnana en hann er stofnaður samkvæmt lögum nr. 83/1989. Þar koma einnig til fjórir liðir, í fyrsta lagi til Mannvirkjasjóðsins 267 millj. kr., Bessastaða 202 millj. kr., Þjóðskjalasafns 10 millj. kr. og ráðstafað til Þjóðminjasafns 13 millj. kr.
    Þá er komið að tillögum er varða uppgjör við sveitarfélög. Er þar um að ræða framlög vegna uppgjörs við sveitarfélögin vegna byggingar grunnskóla og dagvistarheimila, svo og vegna uppgjörs er varðar Félagsheimilasjóð og íþróttamannvirki. Hér er lagt til að 300 millj. kr. verði settar í þetta
uppgjör fyrir árið 1990, en það er fyrsta árið af fjórum þar sem gera á upp vangreidd framlög ríkissjóðs vegna framkvæmda á vegum sveitarfélaga við dagvistunarstofnanir, grunnskólamannvirki, íþróttamannvirki og vegna óuppgerðs hluta ríkissjóðs vegna Félagsheimilasjóðs í samræmi við lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Er gert ráð fyrir því að fjvn. skipti þessu fé í samráði við menntmrn. og fer sú skipting fram eftir áramótin.
    Næsta tillaga varðar Skriðuklaustur. Vegna aldarafmælis Gunnars Gunnarssonar skálds var á árinu sem er að líða unnið að miklum endurbótum á húsi skáldsins að Skriðuklaustri. Þær endurbætur fóru langt fram úr kostnaðaráætlun og eru nú komnir inn

reikningar vegna þess viðfangsefnis fyrir um eða yfir 13 millj. kr. en á fjárlögum yfirstandandi árs og í fjárlagafrv. næsta árs er alls ætlað til verksins 8,5 millj. Er hér lagt til að hækka þetta viðfangsefni um 4,8 millj. til greiðslu skulda sem falla munu á ríkissjóð.
    Þá er tekið inn nýtt viðfangsefni, Skóli Ísaks Jónssonar, 10 millj. kr. Hér er um að ræða einkaskóla en ríkið og Reykjavíkurborg höfðu gert samning um greiðslu á byggingarstyrk við skólann og er þetta mál sem er óskylt verkaskiptamálunum. Fjvn. leggur til að staðið verði við þetta samkomulag af hálfu ríkisins og er hér um að ræða lokaframlag ríkissjóðs til þessa verkefnis en því lýkur á árinu 1990. Fjvn. tekur sérstaklega fram að hér er ekki gefið neitt fordæmi um að ríkissjóður fallist á að taka að sér greiðslu stofnkostnaðar vegna skóla í eigu einstaklinga.
    Næsta tillaga varðar utanrrn. Er þar lagt til að viðskiptaskrifstofa hækki um 12,5 millj. vegna átaks í markaðsmálum í Þýskalandi og er hér um að ræða erindi frá ríkisstjórninni. Þá er tekið inn nýtt viðfangsefni, Hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndum, UNIFEM, 1 millj. kr.
    Næsta tillaga varðar landbrn., Skógrækt ríkisins. Er þar lagt til að veita sérstakt fé, 6 millj. kr., vegna flutnings aðalstöðva Skógræktar ríkisins frá Reykjavík til Austurlands. Þá er í næstu tillögu gert ráð fyrir framlagi samkvæmt landgræðslu- og landverndaráætlun þeirri sem Alþingi hefur samþykkt og er sú tillaga í fyllsta samræmi við þá samþykkt.
    Þá er komið að framlögum ríkissjóðs vegna jarðræktar- og búfjárræktarlaga. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar leggur fjvn. til, eða öllu heldur meiri hl. nefndarinnar, að framlög úr ríkissjóði til jarðræktar og búfjárræktar í samræmi við nýsamþykkt lög hækki um 80 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarfélagi Íslands sem staðfestar eru af fjmrn. og landbrn. eru ógreidd framlög samkvæmt eldri lögum sem hér segir: Frá árinu 1987 eru ógreidd jarðræktarframlög að fjárhæð 8 millj. kr. og ógreidd búfjárræktarframlög að fjárhæð 37 millj. kr. eða samtals ógreitt frá árinu 1987 45 millj. kr. Frá 1988 eru ógreidd jarðræktarframlög 112 millj., ógreidd búfjárræktarframlög 60 millj. kr. eða samtals 222 millj. kr. Frá 1989, og er þar stuðst við áætlaðar tölur, verða ógreidd jarðræktarframlög 125 millj. kr., ógreidd búfjárræktarframlög 60 millj. kr. eða samtals 185 millj. kr. en tekið skal fram að sú fjárhæð er ekki enn gjaldfallin. Samtals eru því frá þessum þremur árum ógreidd jarðræktarframlög 295 millj. kr., ógreidd búfjárræktarframlög 157 millj. kr. eða samtals 452 millj. kr. Í lánsfjárlögum fyrir árið 1990 er heimild til handa fjmrh. að semja um uppgjör skulda vegna jarðræktar- og búfjárræktarlaga fyrir árin 1988 og 1989. Þá er í fjáraukalögum fyrir árin 1989 fjárveiting til að gera upp skuldir vegna ársins 1987.
    Hér er gerð tillaga um að uppgjör fari fram á fjórum árum, þó þannig að skuldin vegna 1987 verði að fullu greidd á árinu 1989 eins og fjáraukalögin, eða öllu heldur fjáraukalagafrv., gera ráð fyrir. Skuldir

vegna 1988 verði svo greiddar á árunum 1990 og 1991 og skuldir vegna ársins 1989 verði gerðar upp á árunum 1992 og 1993. Framkvæmd málsins verður með þeim hætti að fjmrn. gerir á grundvelli heimildar í lánsfjárlögum samkomulag við Búnaðarfélag Íslands um greiðslur til þess í samræmi við framangreinda skilmála og fjárveitingar í fjárlögum hvers árs verði við það miðaðar. Að fengnum slíkum samningi gefur Búnaðarfélagið kröfuhöfum skuldaviðurkenningu þar sem greiðslutilhögun sé lýst. Samkvæmt stöðu fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir að framlag til jarðræktar og búfjárræktar árið 1990 verði 190 millj. kr. Áætlað er að til búfjárræktar þurfi 27 millj. til lögbundinna félagslegra framlaga. Til annarra verkefna í tengslum við búfjárrækt verður að gera ráð fyrir allt að 13 millj. kr. Til jarðræktar eru því alls til ráðstöfunar 150 millj. kr. Gert er ráð fyrir að 90 millj. kr. verði veitt til skuldauppgjörs ársins 1988 og 60 millj. kr. verði greiddar út á framkvæmdir 1990. Þetta eru þær forsendur sem búa á bak við þá tillögugerð sem ég hef hér lýst.
    Þá er komið að tillögum sem varða dóms- og kirkjumrn. Fyrri tillagan þarfnast ekki skýringa, enda um leiðréttingar að ræða. Síðari tillagan varðar biskup Íslands og er fjárhæðin 1 millj. kr. Er þar um að ræða framlag til þýðingar á Biblíunni úr hebresku vegna 1000 ára afmælis kristnitöku í landinu.
    Þá er komið að tillögum er varða félmrn. Fyrsta tillagan varðar Brunamálastofnun ríkisins en með nýjum lögum um þá stofnun er gert ráð fyrir að innheimtar séu hennar vegna sértekjur. Þegar frv. var lagt fram var gert
ráð fyrir því að af sértekjum stofnunarinnar, þ.e. iðgjöldum tryggingataka, færu 28 millj. í ríkissjóð. Fjvn. gerir hér þá tillögu til breytingar að 20 millj. verði færðar til stofnunarinnar og tekið verði inn nýtt viðfangsefni af þeim sökum, 1.02 Sérstök verkefni, og skal fram tekið að þessu fjármagni á að verja í samráði við félmrn. til brunavarna á grundvelli skýrslu og tillagna nefndar frá 7. nóv. sl. sem skipuð var til að gera úttekt á stöðu brunamála og leggja fram tillögur til úrbóta.
    Næsta tillaga varðar liðinn Vinnumál. Félagsmálaskóli alþýðu var áður undir þeim lið sem er safnliður en nú er hann gerður að sérstöku viðfangsefni, sbr. tillöguna þar á eftir. Er liðurinn 1.90 Ýmislegt lækkaður af þeim sökum um 12 millj. 445 þús. kr. og hafa þá viðfangsefni sem eftir eru á þeim lið tekið verðuppfærslu. Á móti komi síðan nýr liður, Félagsmálaskóli alþýðu, þar sem undir viðfangsefni 1.10 komi 11,5 millj. kr. framlag til Félagsmálaskóla alþýðu. Undir viðfangsefni 1.20 komi framlag til Menningar- og fræðslusambands alþýðu að fjárhæð 4 millj. 218 þús. kr. Til liðar 1.30 komi framlag til Norræna verkalýðsskólans í Genf að fjárhæð 131 þús. kr. og viðfangsefni 1.40 Námskeið fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum fái 1 millj. 596 þús. kr.
    Þá er komið að tillögum er varða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Er þar fyrst lagt til að viðfangsefnið 1.01 hækki um 6 millj. 748 þús. kr. og er það

uppreikningur á framlagi til Jöfnunarsjóðs vegna hækkunar á tekjum ríkissjóðs á beinum og óbeinum sköttum sem vikið verður að hér á eftir. Hefur ríkissjóðsframlagið í Jöfnunarsjóð þannig að fullu verið uppreiknað skv. lögum og án skerðingar eins og gert er ráð fyrir. Þá er einnig lagt til að tekinn verði nýr liður undir Jöfnunarsjóð, viðfangsefnið 1.02 Sérstakt framlag, 40 millj. kr. Er þar um að ræða framlag vegna uppgjörs sérstakra verkefna á árinu 1989 samkvæmt ákvörðun félmrn.og fjmrn. Þá er að lokum undir liðnum Félagsmál, ýmis starfsemi tekinn inn nýr liður, 1.45 Krýsuvíkursamtökin, 4 millj. kr. og er þar um að ræða styrk vegna dvalarkostnaðar vistmanna. Eins og síðar verður lýst leggur fjvn. eða meiri hl. hennar til að inn á heimildargrein komi ákvæði er heimili ríkisstjórninni að festa kaup á húsnæði vegna meðferðarheimilis fyrir unga ávana- og fíkniefnaneytendur að fengnu samþykki fjvn. þar um og í frv. er gert ráð fyrir rekstrarkostnaði vegna slíks heimilis. Sú tillaga sem hér er gerð er hins vegar eins og áður segir um að sérstakur styrkur verði veittur Krýsuvíkursamtökunum.
    Þá er komið að viðfangsefnum er varða heilbr.- og trmrn. Er þar fyrst lagt til að gerð verði tiltekin leiðrétting á launagjöldum vegna vanáætlunar. Þá er komið að tillögum er varða Tryggingastofnun ríkisins, lífeyris- og sjúkratryggingar. Um lífeyristryggingarnar er það að segja að fjvn. hefur fengið frá Tryggingastofnun ríkisins nýja spá um útgjöld lífeyristrygginga. Sú nýja spá þýðir að hækka verður áætluð útgjöld lífeyristrygginganna um 175 millj. kr. og er tillaga um það flutt hér. Þá var boðað í fjárlagafrv. að áformað væri að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 200 millj. kr. með því m.a. að huga að því að tekjutengja útgjöld lífeyristrygginga. Engar slíkar breytingar eru áformaðar og er ekki gert ráð fyrir öðru skv. brtt. fjvn. en að lífeyristryggingunum sé áætlað allt það fé sem spá Tryggingastofnunar ríkisins þar um gerir ráð fyrir. Þarf því að hækka framlög til lífeyristrygginganna samtals um 275 millj. kr. og er sú tillaga flutt hér. Þá er gerð tillaga er varðar sjúkratryggingar, um að sjúkratryggingar lækki um 297 millj. kr. Ástæða lækkunar er sú að í fyrsta lagi er um að ræða leiðréttingu á áætlun fjárlaga að fyrirlagi Tryggingastofnunar ríkisins. Í öðru lagi er um að ræða tilfærslu sjúkradeildar SÁÁ á föst fjárlög og lækkar það útgjöld trygginga um 190 millj. kr. Í þriðja lagi er um að ræða hækkun á hlutdeild sjúklinga í sjúkrakostnaði um 50 millj. kr. og í fjórða lagi er um að ræða hækkun sjúkratrygginga vegna tannlæknakostnaðar vegna 16. gr. laga nr. 87/1989 um 118 millj. kr.
    Um þrjú síðustu efnisatriðin er það að segja að gert hefur verið verulegt átak í því að koma rekstri sjúkrastofnunar SÁÁ á réttan kjöl og koma böndum yfir þá erfiðleika sem voru á rekstrinum. Hefur það tekist. Með tilfærslu sjúkrastofnunar SÁÁ á föst fjárlög hefur verið tryggt að fullkomið kostnaðareftirlit sé haft með starfseminni og að ríkisvaldið sem greiðir

reikninginn fái allar áætlunargerðir og geti haft þau afskipti af rekstri stofnunarinnar sem nauðsyn krefur. Um hækkun á hlutdeild sjúklinga í sjúkrakostnaði er það að segja að eins og nú standa sakir greiða þeir sem vitja heimilislækna eða heilsugæslustöðva um 190 kr. fyrir hverja vitjun en sjúkratryggingar greiða 285 kr. Gert er ráð fyrir því að hækka vitjunargjald sjúklinga úr 190 kr. í 300 kr. og það gjald hækki til samræmis við verðlagshækkanir. Lækkar þetta útgjöld sjúkratrygginganna um 50 millj. kr. Þá er loks gert ráð fyrir því að sveitarfélögin taki að sér að greiða 1 / 3 hluta tannlæknakostnaðar á móti sjúkratryggingum en áður greiddu sveitarfélögin helming þess kostnaðar á móti sjúkratryggingunum.
    Næsta tillaga varðar Eftirlaunasjóð aldraðra. Er þar um að ræða 11 millj. kr. hækkun vegna stjfrv. til laga um framlengingu á lögum um eftirlaun til alraðra. Þá er komið að viðhaldi sjúkrahúsa. Þar er um lækkunartillögu að ræða
að fjárhæð 3,5 millj. og er það vegna tilfærslu SÁÁ á föst fjárlög. Næsta tillaga varðar Framkvæmdasjóð aldraðra. Er þar lögð til 40 millj. kr. hækkun og er sú hækkun ætluð til þess að leysa sérstakar þarfir og sérstök verkefni að fyrirlagi hæstv. ráðherra. Næsta tillaga varðar SÁÁ þar sem tekin er inn ný stofnun vegna tilfærslu SÁÁ á föst fjárlög. Nettóútgjaldaaukning sem af því hlýst nemur 7 millj. 701 þús. kr. Næsta tillaga varðar heilsugæslustöðvar og fellur þar viðfangsefnið tannlæknakostnaður niður þar sem sveitarfélög munu taka þátt í þeim kostnaði að hluta til eins og áður segir. Næsta tillaga þar á eftir skýrir sig sjálf og tengist tilfærslu SÁÁ á föst fjárlög og tillagan þar á eftir varðar einnig sama viðfangsefnið en þar fellur niður framlag vegna tilfærslu SÁÁ á föst fjárlög. Hins vegar er gerð tillaga um að viðfangsefnið 6.40 Samhjálp hvítasunnumanna hækki um 1 millj. kr. Þá er gerð tillaga er varðar bindindisstarfsemi og er þar lagt til að tekinn verði inn nýr liður, AA-samtökin, og þeim verði veittar 2 millj. kr. vegna flutnings samtakanna í nýtt húsnæði. Þau hafa verið í húsnæði sem Alþingi hefur haft til umráða en hefur nú verið gert að víkja úr því húsnæði og er þessi tillaga um stuðning við AA-samtökin til að koma sér fyrir í nýjum húsakynnum en ekki um það að ræða að verið sé að taka upp fasta fjárveitingu til samtakanna.
    Næsta tillaga varðar fjmrn. Er þar gert ráð fyrir lækkun um 300 millj. kr. á viðfangsefni 1.01 Rekstur, launa- og verðlagsmál og er þar um að ræða átak til lækkunar útgjalda hjá A-hluta ríkissjóðs á árinu 1990 vegna launakostnaðar o.fl. samkvæmt 6. greinar heimild sem tillaga er gerð um hér síðar. Í þessu sambandi ber að geta þess að á síðasta ári tókst að draga úr launakostnaði hjá ríkinu og stofnunum þess með aðhaldi vegna yfirvinnu og fleira sem nam 2,5% af heildarlaunaútgjöldum. Að þessu sinni er að því stefnt að ná með aðhaldsaðgerðum er varða yfirvinnu svo og öðrum aðgerðum til lækkunar á útgjöldum og með því að draga úr nýráðningum og endurráðningum umfram það sem frv. gerir ráð fyrir. Er sú fjárhæð

sem stefnt er að til lækkunar með þessum aðgerðum aðeins um það bil 1% af heildarlaunaútgjöldum ríkisins og stofnana þess.
    Næsta tillaga varðar samgrn., Vegagerð ríkisins, viðhald vega og fleira. Það er gert ráð fyrir að viðhald vega hækki um 230 millj. kr., nýframkvæmdir hækki um 104 millj. kr. og fjallvegir um 6 millj. kr. Hér er um að ræða hækkun á mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins sem áætlað er fyrir á tekjuhliðinni og kem ég að því síðar hvaða forsendur liggja þar til grundvallar. Hér er aðeins um að ræða tillögu um ráðstöfun á því fé sem kemur til viðbótar í Vegasjóð með þeirri afgreiðslu og er sú till. alfarið byggð á útreikningi Vegagerðar ríkisins þar um. Næsta tillaga varðar Flugmálastjórn og er um að ræða leiðréttingu á framlögum vegna launa. Næsta tillaga varðar nýtt viðfangsefni, 1.23 Sjálfvirkt tilkynningakerfi fyrir fiskiskip, og er það framhald af viðfangsefni sem unnið hefur verið að tilhlutan Alþingis um ára skeið. Það verkefni er komið af tilraunastigi og á framkvæmdastig og er gert ráð fyrir því með þessari tillögu að fyrsta sporið verði stigið í þá átt að auka öryggi sæfarenda með sjálfvirku tilkynningakerfi. Þá er síðasta tillagan er varðar samgrn. vegna Ferðamálaráðs og er þar lagt til að framlag til ráðsins hækki um 10 millj. kr.
    Þá er komið að viðfangsefnum er varða iðnrn. Fyrsta tillagan er um hækkun á framlagi til Orkusjóðs vegna styrkingar dreifikerfis í sveitum og að þær framkvæmdir hækki um 6 millj. kr. Þá er komið að tillögu er varðar liðinn Ýmis orkumál. Er þar lagt til að niðurgreiðsla á rafhitun hækki um 20 millj. kr.
    Og þá er loks komið að viðskrn. Er þar lagt til að niðurgreiðslur á vöruverði hækki um 200 millj. kr. Í þeirri afgreiðslu er ekki gert ráð fyrir að niðurgreiðslustig haldist óbreytt allt árið 1990 en auk þess er fyrirhugað að breyta nokkuð á því ári vægi niðurgreiðslna milli hinna ýmsu niðurgreiddu vörutegunda.
    Þá er komið að brtt. þeim sem fjvn. flytur öll og varða 6. gr. frv. Þær brtt. eru fluttar á þskj. 424 og er ástæðulaust annað en fara fljótt yfir sögu yfir þær till. því að þær skýra sig sjálfar. Fyrstu tvær till. varða aðeins samræmingu stofngjalda og afnotagjalda síma hjá fötluðum og blindum mönnum þannig að sömu reglur gildi um báða þessa hópa fatlaðra. Stafliður c varðar kaup Flugleiða á Boeing-þotum og er sambærileg afgreiðsla og áður hefur verið gerð og sambærileg afgreiðsla og gerð er í fjárlögum yfirstandandi árs. Tillaga 3.5 er að áliti nefndarinnar eðlileg afgreiðsla í sambandi við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja með aðild Hlutafjársjóðs. Í staflið e er gert ráð fyrir því að niður falli heimildargrein um að afhenda landshafnirnar á Rifi og í Þorlákshöfn, Keflavík og Njarðvík hlutaðeigandi sveitarfélögum, enda á sú heimild ekki að þurfa að standa með hliðsjón af þeirri heimild sem veitt er í tillögum fjvn. um afgreiðslu fjáraukalaga yfirstandandi árs og með hliðsjón af þeim skýringum sem þar eru gefnar. Næsta till. felur í sér þá breytingu

að ekki sé skuldbundið að verja söluverði íbúðarhúss í eigu einangrunarstöðvarinnar í Hrísey til að byggja húsnæði fyrir gæludýr. Næstu till. allar um nýja liði eru settar inn í samráði við
viðkomandi ráðuneyti og fjmrn. og varða sölu á húseignum í eigu ríkisins.
    Af þeim öðrum till. sem á þessu þingskjali eru er ástæða til að staldra við aðeins örfáar. Er þar í fyrsta lagi till. er varðar nýja liði og kem ég þar fyrst að till. þar sem heimilað er að taka lán vegna kaupa Landhelgisgæslunnar á leitarratsjá í TF-Syn. Er sú tillaga gerð í samræmi við afgreiðslu sem fjvn. hefur þegar lagt fyrir Alþingi við 2. umr. og var þar staðfest. Nýr liður 6.17 er óbreytt heimildargrein fjárlaga á yfirstandandi ári. Liður er verði 6.19 er einnig nýr en þar er heimilað að draga úr starfsemi ríkisstofnana og ráðuneyta, m.a. með því að draga úr yfirvinnu og takmarka nýráðningar og endurráðningar enn frekar en fjárlög gera ráð fyrir. Er gert ráð fyrir því að með slíkum aðhaldsaðgerðum megi ná fram lækkun útgjalda um allt að 300 millj. kr. sem er rúmlega 1% af heildarlaunaútgjöldum ríkisins eins og áður sagði. Þá er nýr liður er verði 6.21 þar sem fjmrh. er heimilt að endursemja um söluverð og skilmála vegna eftirstöðva af söluverði fasteignarinnar Síðumúla 34 í Reykjavík. Þá er loks lagt til að heimila ráðherra að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af aðföngum vegna byggingar nýrrar vatnsveitu hjá Vatnsveitu Suðurnesja, en þarna er um að ræða, eins og kunnugt er, framkvæmdir sem ráðast varð í vegna mikils mengunarslyss. Greidd var ákveðin upphæð sem tjónabætur fyrir það slys og nægja þær tjónabætur fyrir hluta framkvæmdarkostnaðar. Ekki er talið eðlilegt að sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfi að taka á sig greiðslur aðflutningsgjalda vegna innkaupa sem krafa er gerð um vegna mengunarslyssins sem þarna varð og er því lagt til að þessi endurgreiðsla verði heimiluð.
    Þá eru einnig nokkrar viðbótartillögur er varða 6. gr. sem meiri hl. fjvn. flytur einn og eru þær á þskj. 423. Fyrsta tillagan þar varðar fasteignina Fannborg 6 í Kópavogi en í frv. var inni heimild til að selja þá fasteign. Nú stendur hins vegar til að taka þessa fasteign til afnota fyrir embætti bæjarfógeta og leggur meiri hl. fjvn. til að heimildin til sölu verði felld niður.
    Þá gerir meiri hl. fjvn. einnig þá tillögu að felld verði niður heimild í 6. gr. frv. til að kaupa svonefnt Hekluhús á Akureyri, enda hafa kaupin þegar farið fram og menn hafa samþykkt útgjöldin vegna kaupanna í fjáraukalögum sem meiri hl. fjvn. leggur til að fallist verði á og þar með hefur Alþingi samþykkt þessi kaup. Þess í stað leggur fjvn. til að í 6. gr. verði þá sett heimild til þess að selja þessa fasteign, en augljóst virðist að þetta hús verður ekki, a.m.k. að svo stöddu, tekið til nota fyrir sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri eins og fyrirhugað mun hafa verið að gera.
    Þá leggur meiri hl. fjvn. einnig til að heimilað

verði að selja fasteignir tilraunastöðva Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem ónauðsynlegar verða vegna breytinga á starfsemi stofnunarinnar eða sökum fyrirhugaðra breytinga á skipulagi tilraunastarfseminnar og verja andvirði þeirra til uppbyggingar á starfseminni annars staðar, en eins og kunnugt er hafa tvær tilraunastöðvar verið lagðar niður, stöðin á Reykhólum og stöðin á Skriðuklaustri.
    Þá leggur meiri hl. fjvn. einnig til að heimilað verði að kaupa húsnæði að fengnu samþykki fjvn. fyrir héraðsdómstóla sem stofnaðir voru með lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Einnig leggur meiri hl. til að heimilað verði að kaupa húsnæði fyrir meðferðarheimili ungra fíkniefnaneytenda og taka til þess nauðsynleg lán að fengnu samþykki fjvn. Þá leggur meiri hl. til að heimilt verði að kaupa húsnæði fyrir heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnun ríkisins og að heimilað verði að kaupa húsnæði fyrir starfsemi Námsgagnastofnunar.
    Næstu tvær tillögur þarfnast engra sérstakra skýringa en þriðja tillagan, 6.15, lýtur að því að nú verði gengið frá uppgjöri vanskila Skipaútgerðar ríkisins við ríkissjóð og Ríkisábyrgðasjóð, m.a. með niðurfellingu vaxta og dráttarvaxta. Hér er um að ræða vanskil sem hlaðið hafa á sig vöxtum og dráttarvöxtum í mörg ár og augljóst er að Skipaútgerð ríkisins mun aldrei geta greitt. Nauðsynlegt er að á þessu máli verði tekið fyrr en síðar og hefði raunar átt að vera búið að því fyrr. Hér er gerð tillaga um að heimilað verði að vanskil þessi verði afskrifuð og er það sjálfsögð leiðrétting að áliti meiri hl. nefndarinnar.
    Þá er einnig lagt til í næstu tillögu á eftir að heimilað verði að kanna og leita samninga um kaup á nýju tæki til segulómunar fyrir ríkisspítala í samráði við fjvn. en athygli er vakin á að ekki er í þessari heimild veitt leyfi til fjárhagslegra skuldbindinga að svo stöddu af þessum sökum.
    Þá er loks lagt til að heimilað verði að fella niður eða fresta greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1990, m.a. með því að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana að fengnu samþykki ríkisstjórnar og fjvn. og er ráð fyrir því gert að slíkar aðgerðir geti skilað eigi lægri fjárhæðum til lækkunar á útgjöldum en 100--150 millj. kr. Er þá lokið umfjöllun um þær brtt. sem meiri hl. nefndarinnar og nefndin öll gerir við 6. gr.
    Við færum okkur þá einni grein ofar í frv. eða að 5. gr. en sú grein varðar svokallaðar B-hluta stofnanir, þ.e. ríkisstofnanir með sjálfstæðan fjárhag.
Venja er að við afgreiðslu fjárlagafrv. við 3. umr. sé gerð grein fyrir þeim gjaldskrárbreytingum sem fyrirhugaðar eru varðandi þessar stofnanir og verður það gert hér á eftir.
    Eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar hefur tekist þrátt fyrir mjög erfiðar ytri kringumstæður í efnahagslífi þjóðarinnar og mikið samdráttarskeið að tryggja það að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Í raun hefur náðst meiri árangur en það því fiskvinnslan sem er undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga riðaði til falls þegar núv. ríkisstjórn tók við

og hrun greinarinnar, gjaldþrot fjölmargra fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi blasti við. Með aðgerðum sem ríkisstjórnin greip til tókst að forða slíku og er nú svo komið að fiskvinnslan er talin hafa viðunandi rekstrargrundvöll og hefur ekki, eins og sakir standa, þörf fyrir breytingar á gengi íslensku krónunnar eins og svo oft áður. Er nú mikilvægast af öllu að tryggja þessa niðurstöðu og styrkja hana og þar með atvinnulífið í landinu svo að unnt sé að fara að byggja upp á ný. Í því sambandi leggur ríkisstjórnin áherslu á að sporna gegn öllum verðhækkunum eins og framast má verða. Það er forsenda þess að skynsamlegir kjarasamningar geti náðst og að þeir kjarasamningar standist þannig að tryggt sé að niðurstöður þeirra verði varðveittar. Stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar eru sannfærðir um að fullur skilningur og ríkari skilningur en oftast áður er nú hjá aðilum vinnumarkaðarins á nauðsyn þess að marka slíka stefnu og vill ríkisstjórnin, og stuðningsflokkar hennar, fyrir sitt leyti leggja sig fram um að greiða fyrir því og eiga hlut að því að skynsamlega stefnu sé hægt að marka og vill ríkisstjórnin veita sinn atbeina til þess eftir því sem á hennar færi er. Í trausti þess að slíkt samkomulag takist á milli aðila vinnumarkaðarins vill ríkisstjórnin þannig beita sér fyrir því að verðhækkanir á opinberri þjónustu verði í algjöru lágmarki og alls ekki umfram verðlagsþróun þannig að það takist að draga úr verðbólgu á næsta ári eins og unnt er að gera ef skynsamlegir samningar takast og þá munu verðhækkanir á opinberri þjónustu verða enn minni en annars.
    Í anda þessarar stefnu ríkisstjórnarinnar hafa verið teknar ákvarðanir um þær gjaldskrárbreytingar sem nú verður lýst.
    Vík ég þá fyrst að Ríkisútvarpinu. Í forsendum fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að afnotagjöld og auglýsingataxtar þyrftu að hækka um 8% í ársbyrjun 1990 til þess að ná endum saman. Í niðurstöðu nefndar sem fjallaði um málefni Ríkisútvarpsins og skilaði áliti á sl. ári var m.a. gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu yrði bætt það tekjutap sem af því hlýst að Tryggingastofnun ríkisins hefur getað ávísað á niðurfellingu afnotagjalda hjá þeim aðilum sem njóta fullrar tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Er hér um verulegar fjárhæðir að ræða sem tekjur Ríkisútvarpsins hafa lækkað um af þessum sökum og hefur stofnunin orðið að bera þá lækkun sjálf í stað þess, eins og eðlilegt hefði mátt teljast, að sá sami aðili og tekur ákvörðun um að veita niðurfellinguna beri kostnaðinn af henni.
    Til þess að draga úr hækkunarþörf Ríkisútvarpsins og bæta fjárhag stofnunarinnar er ráðgert að leysa mál þetta þannig að afskrifaður verði hluti af þeirri skuld sem Ríkisútvarpið hefur stofnað til við ríkissjóð og í forsendum fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að stofnunin þyrfti að greiða ríkissjóði. Með þessu móti hefur verið fyrir því séð að engin hækkun mun verða á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins í ársbyrjun 1990 eins og í frv. var gert ráð fyrir og engin hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins er ráðgerð fyrstu sex

mánuði ársins 1990. Miðað við verðlagsforsendur frv. má gera ráð fyrir því að þann 1. júlí nk. þyrftu afnotagjöldin að hækka um 2--3% og aftur um svipaða fjárhæð síðar. Í þeirri von að með sameinuðu átaki aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins takist að ná enn meiri árangri til lækkunar á verðlagsþróun á næsta ári en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, en það er vel hægt ef skynsamlega er að verkum staðið, er ekki gert ráð fyrir að ákvörðun sé tekin nú um þessar hækkanir heldur að málin verði skoðuð aftur um mitt næsta ár þegar fyrir liggur hver verðlagsþróunin hefur orðið á því ári og hverjar horfur eru um framhaldið.
    Í forsendum frv. er varðar Áburðarverksmiðju ríkisins var miðað við 50 þús. tonna framleiðslu og sölu á árinu 1990 og áburðarverð 22.400 kr. fyrir hvert tonn. Slíkt verð jafngildir um 17% hækkun frá meðalsöluverði 1989. Í forsendum frv. var gert ráð fyrir 105 millj. kr. fjárfestingu, sem er óhjákvæmileg, og að öll sú fjárfesting yrði greidd úr rekstri. Eðlilegt er hins vegar að útgjöld vegna slíkrar fjárfestingar dreifist á fleiri ár en eitt og hefur því verið lagt til og fyrir því séð í lánsfjárlögum að Áburðarverksmiðjan taki 50 millj. kr. lán um Endurlán ríkissjóðs til að fjármagna tæpan helming fjárfestingarinnar. Samkvæmt þessu lækkar hækkunarþörf Áburðarverksmiðjunnar mjög verulega. Verður endanleg ákvörðun tekin í marsmánði um þá hækkun á áburðarverði sem verða þarf og eru allar horfur á því að sú hækkun þurfi ekki að verða meiri en nemur verðlagsþróun. Ræðst það svo auðvitað af verðlagsþróuninni og þar á meðal niðurstöðum samninga hver sú hækkunarþörf er.
    Þá er næst komið að Póst- og símamálastofnun. Í forsendum fjárlagafrv. var
gert ráð fyrir að til þess að ná þeim árangri sem þar var áætlað, þ.e. fjárfestingu að upphæð 800 millj. kr. og 350 millj. kr. skilum við ríkissjóð á árinu 1990, þyrftu tekjur stofnunarinnar að vera 9,5% hærri á næsta ári en áætlað er að þær verði í ár. Þetta samsvarar því að þurft hefði að hækka gjaldskrá stofnunarinnar um allt að 11% í ársbyrjun 1990. Póstur og sími hefur nú endurskoðað áætlun sína og kemur þar í ljós að afkoma stofnunarinnar er mun betri en gert var ráð fyrir og hækkunarþörfin að öllu óbreyttu minni en ella hefði verið. Í fjárlagaafgreiðslunni nú er áætlað að stofnunin skili 500 millj. kr. í ríkissjóð og að fjárfesting hennar geti orðið um 930 millj. kr. en það er nokkuð meiri fjárfesting en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir en nokkuð minni fjárfesting en stofnunin sjálf hafði ráð fyrir gert. Miðað við þessar forsendur og nokkuð lægri skil stofnunarinnar í ríkissjóð en áformað var um tíma er ekki ráð fyrir því gert að gjaldskrár Pósts og síma þurfi neitt að hækka í ársbyrjun og hækkunarþörf verði ekki fyrr en 1. febrúar og þá um 2%. Frekari hækkanir þarf Póst- og símamálastofnunin ekki á gjaldskrám sínum fyrr en um mitt árið, í maí/júní, og verða hækkanir þá ekki meiri en verðlagsþróun gefur tilefni til.
    Hvað Skipaútgerð ríkisins varðar hefur komið fram að fyrirhugaðar eru viðræður milli skipafélaganna um

samvinnu á sviði strandflutninga. Ef halda ætti rekstri Skipaútgerðarinnar í jafnvægi miðað við óbreytta starfsemi og 178 millj. kr. framlag úr ríkissjóði þyrfti farmskrá að hækka um 12%. Ekki er gert ráð fyrir svo miklum hækkunum hjá Skipaútgerð ríkisins á komandi ári og er við það miðað að hækkun farmskrár þann 1. febr. nk. verði um lægri prósentutölu en verðlagsforsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir eða ekki yfir 10%.
    Sementsverksmiðja ríkisins hefur sótt um 9,5% hækkun á gjaldskrá til Verðlagsráðs frá áramótum. Ljóst er að sú beiðni er miðuð við þær verðlagsforsendur sem í frv. eru. Slíkar hækkanir verða ekki heimilaðar nú um áramótin en ákvörðun tekin fyrir 1. febr. nk. og sú ákvörðun verður í samræmi við þær horfur sem þá verða í verðlagsmálum í landinu. Ekki er þó gert ráð fyrir að gjaldskrá Sementsverksmiðju ríkisins hækki umfram áætlaða verðlagsþróun.
    Að lokum eru svo Rafmagnsveitur ríkisins. Forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir 335 millj. kr. fjárfestingu á næsta ári hjá Rafmagnsveitunum með fé úr eigin rekstri. Rafmagnsveitur ríkisins hafa lagt fram sínar eigin áætlanir fyrir næsta ár og gera þær ráð fyrir nokkurri hækkun á gjaldskrá. Hvað fjárfestingu varðar eru áætlanir Rafmagnsveitnanna hins vegar um svipaða fjárhæð og áætlanirnar í fjárlagafrv. þannig að hvorki þar né í rekstrarumsvifum ber neitt á milli sem umtalsvert er. Hækkunarbeiðni Rafmagnsveitnanna skýrist hins vegar af því að þær vilja styrkja greiðslufjárstöðu sína eins og eðlilegt má telja. Þar sem ekki er hins vegar um að ræða neinn teljandi ágreining, hvorki um rekstrarumfang né fjárfestingar milli áforma fjárlagafrv. og áætlana RARIK verður ekki séð að rekstur eða fjárfestingar Rafmagnsveitnanna á næsta ári skapi þörf á hækkunum á töxtum RARIK á árinu 1990 nema til komi hækkanir á töxtum Landsvirkjunar. Niðurstaðan í gjaldskrármálum Rafmagnsveitna ríkisins er því sú að ekki er gert ráð fyrir hækkunum á töxtum Rafmagnsveitna ríkisins á næsta ári nema þeim hækkunum sem óhjákvæmilegar eru í tengslum við taxtahækkanir frá Landsvirkjun ef og þegar þær verða ákveðnar.
    Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að á árinu sem er að líða gerði ríkissjóður mjög verulegt átak til þess að bæta stöðu Rafmagnsveitna ríkisins með því að yfirtaka skuldir af fyrirtækinu og standa þar með við loforð sem fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. iðnrh. höfðu gefið fyrirtækinu á sínum tíma en aldrei hafði verið staðið við.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim beiðnum sem komið hafa frá hinum ýmsu opinberu fyrirtækjum um hækkun á gjaldskrá og einnig hvaða afgreiðslu þær hafa hlotið í meðferð hæstv. ríkisstjórnar og fjvn. og ríkisstjórnarmeirihlutans. Af þessu má ljóst verða að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar hafa sett sér það afdráttarlausa markmið að halda verðhækkunum á gjaldskrám mjög í skefjum og halda þannig á málum að engar

umtalsverðar hækkanir verði á þessum gjaldskrám fyrri hluta ársins 1990 og jafnframt sett sér það markmið að hækkanir á gjaldskrám þessara fyrirtækja verði ekki umfram verðlgsþróun eins og hún kann að verða á seinni hluta ársins. Með þessu móti vill hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar stuðla að því að skynsamlegir samningar um niðurfærslu verðlags geti tekist á árinu 1990 og er þetta að sjálfsögðu hluti af slíkri stefnumótun sem hér hefur verið lýst.
    Vík ég þá að lokum að tillögum fjvn. um breytingu á tekjuhlið frv. Þær tillögur eru byggðar á upplýsingum sem nefndin fékk frá hagdeild fjmrn. í gær og eru áætlanir hagdeildarinnar annars vegar byggðar á spám í samræmi við niðurstöður af skattheimtu yfirstandandi árs og hins vegar á þeim breytingum sem verið er að gera í þinginu. Í tillögum meiri hl. er síðan gert ráð fyrir að tekjur af tekjusköttum hækki um 985 millj. kr. frá áætlun frv. Sú hækkun
skýrist annars vegar af hækkun tekjuskatts einstaklinga í tengslum við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og tilfærslum um hækkun tekjuskatts gegn lækkun virðisaukaskatts og enn fremur er skýringin að hluta til tekjuskattur á orkufyrirtæki sem ríkisstjórnin hefur boðað en hann á samtals að gefa 250 millj. kr. í viðbótartekjur í ríkissjóð. Samtals munu beinir skattar þannig hækka um 1 milljarð 180 millj. kr.
    Þá er komið að gjöldum af innflutningi. Gert er ráð fyrir að gjöld af innflutningi hækki um 652 millj. kr. Er þar annars vegar um að ræða hækkun sem áformuð er af bensíngjaldi og í öðru lagi vegna breyttra og hækkaðra gengisforsendna miðað við frv. Um bensíngjald sem er hluti af tekjum Vegasjóðs er eftirfarandi að segja: Gert er ráð fyrir að bensíngjald og þungaskattur hækki sem hér segir: Þann 1. apríl nk. hækki bensíngjald um 5% og þann 1. ágúst nk. um 6%. Þessar hækkanir á bensíngjaldi munu skila samtals 3 milljörðum 290 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir að bensínsala verði á næsta ári 1 millj. lítrum meiri en áætlað er að hún hafi orðið á þessu ári og 2 millj. lítrum meiri en áætlað var að hún yrði í forsendum frv. Aukning bensínsölu um 1 millj. lítra eykur tekjur Vegasjóðs um 20 millj. kr. þannig að þessi 2 millj. lítra aukning á bensínsölu umfram forsendur frv. eykur tekjur Vegasjóðs um 40 millj. til viðbótar.
    Rétt er að geta þess hér að heimildir til hækkunar bensíngjalds hafa ekki verið notaðar að fullu. Væru þær notaðar að fullu væri hægt að hækka bensíngjaldið nú um 8,6% umfram það sem gert er ráð fyrir. Hugmyndir um bensíngjaldshækkunina ganga hins vegar út frá því að þessi heimild til viðbótarhækkunar verði ekki notuð og að hækkun á bensíngjaldi á árinu 1990 verði því ekki umfram verðlagsþróun.
    Um þungaskattinn er það að segja að núverandi þungaskattur var ákveðinn fyrir réttu ári síðan og hefur þungaskattur ekki verið hækkaður til samræmis við hækkun bensíngjalds á árinu. Hefði það verið gert væri þungaskattur nú 16,1% hærri en hann er. Ekki er

gert ráð fyrir að sú hækkun gangi fram heldur aðeins að ein hækkun verði á þungaskatti og þá á miðju næsta ári og nemi sú hækkun 5%. Samtals munu þessar hækkanir á bensíngjaldi og þungaskatti auka tekjur Vegasjóðs um 340 millj. kr. og er ráð fyrir því gert bæði tekna og gjalda megin í frv.
    Þá er rétt að geta þess að eins og virðisaukaskattinum hefur verið breytt frá upphaflegum áformum ríkisstjórnarinnar þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 26% niður í 24,5% þýðir það tekjutap frá upphaflegum áætlunum frv. um 1900 millj. kr. og lækka því tekjurnar af virðisaukaskatti sem því nemur nú við afgreiðslu málsins.
    Hagnaður vegna ÁTVR er áætlaður óbreyttur frá frv. Skattar af launagreiðslum hækka um 100 millj. og bifreiðaskattar hækka um 460 millj. Er þar um að ræða 110 millj. vegna þungaskattsins sem ég nefndi áðan og 350 millj. vegna hækkunar á bifreiðagjöldum í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar þar um. Samtals lækka því óbeinir skattar um 698 millj. þegar tillit hefur verið tekið til hækkana og lækkana en aðrar tekjur ríkissjóðs hækka um 711 millj. frá frv. Skýrist hækkun annarra tekna fyrst og fremst af eftirfarandi: Reiknað er með hækkun tekna vegna afgjalda ríkisjarða um 90 millj. Reiknað er með hækkun tekna vegna starfsemi Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli um 80 millj. og var það sett inn í tekjuspá og tekjutillögur meiri hl. fjvn. í gær eftir að fundum lauk eftir ábendingum frá fjmrn. Reiknað er með hækkun tekna vegna skila Pósts og síma um 150 millj. kr. Reiknað er með hækkun tekna vegna skila á arði af sameignum ríkisins um 350 millj. kr. en þar er t.d. að nefna fyrirtæki eins og Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og Landsvirkjun ásamt fleiri fyrirtækjum sem ríkið á í sameign með öðrum. Þá er reiknað með að hluti af hagnaði Seðlabanka Íslands hækki um 50 millj. og síðan að ýmsar tekjur hækki um 40 millj.
    Verði þessar tillögur samþykktar eins og þær eru fram lagðar af hálfu fjvn. og meiri hl. fjvn. verða niðurstöðurnar sem hér segir:
    Hækkun vegna 2. umr. hefur þannig orðið upp á 1 milljarð 182 millj. 262 þús. kr. Hækkun vegna 3. umr. hefur þá numið 794 millj. 984 þús. kr. Hækkanir samtals frá fjárlagafrv. eru þannig upp á 1 milljarð 977 millj. 246 þús. kr. og er það hækkun á gjöldum um 2,1%. Breytingar á tekjum hafa orðið sem hér segir: Beinir skattar hafa hækkað um 1 milljarð 180 millj. kr. Óbeinir skattar hafa lækkað um 698 millj. kr. Aðrar tekjur hafa hækkað um 711 millj. kr. Breytingar á tekjum til hækkunar hafa þannig orðið 1 milljarður 193 millj. kr. Gjöld hækka því umfram tekjur um 784 millj. 246 þús. kr. Halli samkvæmt frv. var 2 milljarðar 854 millj. 727 þús. kr. en verður nú, verði allar brtt. meiri hl. fjvn. samþykktar, 3 milljarðar 638 millj. 973 þús. kr.
    Þær breytingar verða á lánahreyfingum að lánveitingar til B-hluta hækka um 840 millj., innlend útgáfa verðbréfa um 625 millj. og erlend lántaka um 1 milljarð, eða lántökur samtals um 2 milljarða 465

millj. kr. Af innlendum lánum, 1 milljarði 465 millj., er endurlánað til B-hluta 840 millj. kr. Greiðsluafkoma verður síðan nánast óbreytt frá því sem frv. gerði ráð fyrir.
    Virðulegi forseti. Fjvn. hefur reynt í störfum sínum að samræma þau sjónarmið sem sumum kunna að virðast ósættanleg, þ.e. að taka annars vegar tillit til raunverulegra útgjaldaþarfa og óhjákvæmilegra rekstrar- og launaútgjalda eins og þau koma fram og birtast í ríkisreikningi, ríkisbókhaldi og fjáraukalögum. Nefndin gerði allverulegar leiðréttingar á fjárlagafrv. við 2. umr. af þessum sökum. Jafnhliða hefur nefndin reynt að sporna við öðrum hækkunum og hefur nefndin því hafnað fjölmörgum beiðnum sem nefndarmenn hefðu þó gjarnan viljað samþykkja og ljá máls á. Ég óttast satt að segja að nefndin hafi frekar farið of varfærnislega í leiðréttingar sínar en hitt og má í því sambandi nefna að hætta er á því að þær leiðréttingar, sem nefndin þó gerði á launaútgjöldum stofnana, svo sem sjúkrahúsa, og sumir hv. þm. virtust sjá ofsjónum yfir við 2. umr. hér í hv. Alþingi, reynist ekki vera nægilegar og verð ég að segja að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því, bæði hjá ríkisspítölum og öðrum stofnunum. Er full ástæða til að taka málefni ríkisspítalanna til sérstakrar skoðunar eftir áramótin því ég óttast að þær leiðréttingar sem nefndin reyndi þó að gera á rekstrarútgjöldum ríkisspítalanna frá frumvarpstillögunum við 2. umr. séu e.t.v. ekki nægjanlegar. Þeir sem þar þekkja til geta e.t.v. notað þá þekkingu sína til viðmiðunar um sumar aðrar áætlanir og leiðréttingar sem fjvn. hefur reynt að gera og væri það án efa lærdómsríkt fyrir marga að fara jafnmikð ofan í saumana á launaútgjaldaþörfum og rekstrarútgjaldaþörfum ríkisstofnana og fjvn. hefur reynt að gera.
    Þá hafa nefndinni einnig borist ýmis erindi um fjárframlög til þarfra og góðra málefna sem nefndarmenn hefðu gjarnan viljað veita atbeina sinn við en ýmist hafa komið of seint fram óskir um, þ.e. eftir að nefndin var búin að ákveða að ekki yrði tekið við fleiri erindum, eða einfaldlega reynst, að áliti nefndarinnar, of kostnaðarsamar til að hægt væri að taka tillit til þeirra og verður auðvitað alltaf svo að fjölmörg góð og þörf mál sem rík ástæða er til að sinna verða út undan við afgreiðslu fjárlaga og á það ekkert fremur við nú en alltaf áður. Menn verða hins vegar að gera sér fulla grein fyrir að sé fleiri erindum sinnt en þegar hefur verið lagt til að afgreidd yrðu eru menn með því að ráðstafa fé sem ekki er til. Þá eru menn með því að leggja til að ríkissjóður taki dýr lán annaðhvort erlendis eða innan lands til að sinna viðbótarverkefnum og slík afgreiðsla til viðbótar við þann halla sem orðinn er á ríkissjóði er ekki líkleg til að stuðla að því að dregið verði úr verðbólgu eða eflt jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
    Meðal þeirra verkefna sem nú verða að bíða en eru þörf og góð erindi út af fyrir sig eru t.d. atvinnumál kvenna á landsbyggðinni, skógræktarátak í Fljótsdal, átak í skipasmíði, framlag til tækniframfara í sjávarútvegi, fiskveiðum og fiskvinnslu og fjölmargt

annað. Sum af þessum þörfu og góðu málefnum komu ekki fram fyrr en mjög seint og voru því of seint fram komin og varð að vísa þeim frá. Öllum þessum erindum og mörgum fleirum er það sameiginlegt að allt eru þetta jákvæð mál en til þess að geta sinnt þeim verða menn þá að hafa hafnað öðrum sem ekki var gert. Í afgreiðslu fjárlaga, eins og í öllum öðrum verkum sem við vinnum, er tiltekinn tími til athugana, tiltekinn tími til umþóttana og tiltekinn tími til ákvarðana. Og tími ákvarðana var einfaldlega kominn áður en sum þessi þörfu og góðu erindi voru upp borin og verður ekki við því gert. Sú afgreiðsla þýðir þó ekki að þar með sé þessum viðfangsefnum alfarið vísað á bug því dagur kemur eftir þennan dag og fjölmargar afgreiðslur á Alþingi er eftir að gera, þar á meðal fjárlagaafgreiðslur sem ekki er svigrúm til að gera í dag. Þá eru einnig vissulega ýmis mál sem hefðu þurft betri skoðun hjá fjvn. en tími vannst til. Þar má nefna málefni fangahúss í Reykjavík. Komið hefur fram í blöðum við hvers konar vandkvæði þar er að etja og hefur hæstv. dómsmrh. lýst áhuga sínum á að skoða með hvaða hætti væri hægt að taka þar á málum til lausnar. Erindi frá hæstv. ráðherra barst fjvn., en nokkuð seint þannig að nefndin hafði ekki tíma til þess að skoða það erindi vel. Nefndin mun hins vegar að sjálfsögðu, þó að hún geri ekki tillögu um lausn málsins að þessu sinni, vera fús til að skoða málið með dómsmrh. áfram á næsta ári.
    Ég vil nú í lokin aðeins víkja að einu máli en það varðar það að staðið hafa yfir miklar endurbætur á húsi Rannsóknastofnana sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 í Reykjavík. Þar eru til húsa Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og aðalskrifstofa sjútvrn. Á árinu 1990 er áætlað að halda áfram framkvæmdum við húsið og verja til þess 29 millj. 550 þús. kr. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir greiðist af leigutekjum og framlagi frá Byggingarsjóði rannsókna í þágu atvinnuveganna. Er gengið út frá því í afgreiðslu fjvn. að sjóðurinn greiði 20 millj. kr. vegna þessara framkvæmda eða ríflega tvöfalt hærri fjárhæð en nemur framlagi af leigutekjum. Verður ekki séð að sú starfsregla sem sjóðurinn hefur nýlega tekið upp, að krefjast fjármögnunar að hálfu á móti framlagi sjóðsins, eigi við í þessu tilviki, enda hafa Rannsóknastofnanir sjávarútvegsins notið lítilla framlaga úr sjóðnum á undanförnum árum.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum fjvn. og meiri hl. fjvn. við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1990. Ég legg til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fjvn. og meiri hl. nefndarinnar leggja til.