Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Eftir ítarlega ræðu formanns fjvn. vil ég hefja mál mitt með því að taka undir upphafsorð hans um að þakka fyrir samstarf í þeirri vinnulotu sem er að baki í fjvn., þakka starfsmönnum nefndarinnar, þeim starfsmönnum ríkisins og Alþingis sem nefndin hefur haft mest samskipti við. Jafnframt vil ég taka undir orð formanns nefndarinnar um það að árna hagsýslustjóra, Indriða H. Þorlákssyni, allra heilla þegar hann hverfur nú að nýju starfi og þakka honum samskipti á liðnum árum.
    Svo sem venja er til og þegar hefur verið að vikið kom forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson, og starfsmenn hans á fund fjvn. fyrir lokaafgreiðslu fjárlagafrv. Þar kynnti forstjóri Þjóðhagsstofnunar þær breytingar sem nú er búist við að verði á ýmsum þáttum efnahagslífsins á þessu ári og spá um hið næsta frá því sem gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þessar breytingar á þjóðhagshorfum eru ekki ákaflega miklar. Þó er gert ráð fyrir að halli á viðskiptum við útlönd verði heldur minni á næsta ári en áður hafði verið reiknað með. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist meira saman á næsta ári en áður hafði verið gert ráð fyrir eða um 5,5% ofan á 8% kaupmáttarrýrnun á þessu ári. Hluti af þessari kaupmáttarskerðingu, bæði á þessu ári og hinu næsta, er auðvitað afleiðing af skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar sem í sífellu þrengir meir og meir að ráðstöfunarfé fólksins.
    Enn fremur er rétt að vekja á því athygli að í gögnum Þjóðhagsstofnunar kemur fram hversu staða undirstöðuatvinnugreina landsmanna er alvarleg. Þrátt fyrir að frystihúsin séu nú þannig rekin með jöfnuði er saltfiskverkunin talin rekin með 3% halla. Er þó reiknað með 3% verðbótum úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til fiskvinnslunnar í heild en þær greiðslur falla niður á áramótum eftir því sem best er vitað.
    Fram undan eru því erfiðari rekstrarskilyrði fyrir þessa grein atvinnulífsins en nú er ef ekki koma til ný úrræði. Á hinn bóginn er talið að botnfiskveiðar séu reknar með 4% halla að meðaltali. Er þó sá hluti togaraflotans sem selur á erlenda markaði rekinn með verulegum hagnaði en bátaflotinn og sá hluti togaranna sem aflar fyrir heimamarkað með hrikalegum halla. Það er því öðru nær en að bjart sé yfir í þessari undirstöðuatvinnugrein landsmanna sem þar ofan í kaupið stendur frammi fyrir nýjum vanda á áramótum.
    Fyrir þessa umræðu komu einnig til fjvn. starfsmenn hagdeildar fjmrn. sem gerðu grein fyrir áætluðum breytingum á tekjuhlið fjárlagafrv. Í heild þýða þessar breytingar að tekjuáætlun er hækkuð um rúmlega 1100 millj. kr. Mest er hækkun á beinum sköttum eða tæplega 1200 millj. kr. Á hinn bóginn lækka óbeinir skattar um tæplega 700 millj. kr. og eru þó bifreiðaskattar hækkaðir um 460 millj. kr. Aðrar tekjur eru hækkaðar um 700 millj. kr. Þar kemur m.a. fram að Pósti og síma er ætlað aukið hlutverk í því

að afla nýrra skatta í ríkissjóð eða samtals 500 millj. kr. Er þá stutt í að öll afnotagjöld af símtækjum renni beint í ríkissjóð.
    Þó kastar tólfunum sú jólagjöf sem ríkisstjórnin er að senda bændum á ríkisjörðum þessa dagana. Með þessari fjárlagaafgreiðslu á að tífalda eftirgjald eftir ríkisjarðir eða úr 10 millj. kr. í fjárlagafrv. í 100 millj. kr. Hæstv. ríkisstjórn kann sannarlega að senda landsetum sínum jólaglaðninginn.
    Samkvæmt áætlunum hagdeildar fjmrn. er gert ráð fyrir að söluskattur af matvælum á þessu ári nemi 6200 millj. kr. og eru þá drykkjarvörur ekki taldar með. Gert er ráð fyrir því að þessi tala hækki um 1200 millj. kr. á næsta ári með upptöku virðisaukaskatts. Af þessum skattgreiðslum af matvælum er gert ráð fyrir að söluskattur af landbúnaðarvörum verði á þessu ári um 4,6 milljarðar kr. og standi nálægt því í stað með upptöku virðisaukaskatts á næsta ári.
    Ég tel rétt að vekja athygli á því hvað matvæli, þar á meðal innlend landbúnaðarframleiðsla, skila miklu til ríkissjóðs í söluskatti og samkvæmt virðisaukaskattskerfi. Þetta vill oft gleymast þegar verið er að tala um niðurgreiðslur á matvörur.
    Við 2. umr. þessa máls lýsti ég því hvernig meiri hl. fjvn. hafði leitast við að vinna að lagfæringum á fjárlagafrv. fyrir þá umræðu. Á því var sannarlega full þörf og ég gerði grein fyrir því að minni hl. nefndarinnar taldi þar í megindráttum eðlilega að verki staðið. Þetta var í samræmi við þau sjónarmið sem mér hafði virst ríkja innan fjvn. í heild, að til þess að fjárlög gætu orðið sæmilegt stjórntæki og hægt væri að veita einstökum stofnunum eðlilegt aðhald yrðu þau að vera raunhæfari en oft hefur verið, einkum nú síðustu árin. Það yrði að láta af þeim blekkingaleik sem liggur að baki verulegum hluta af þeim mörgu aukafjárveitingum sem tíðkaðar hafa verið seinustu árin og sannast hefur í fjáraukalögum sem hér voru til meðferðar í dag og hafður var í frammi við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.
    Svo virðist sem þetta verklag meiri hl. fjvn. hafi ekki verið ráðherrum að
skapi. Skýringin er vafalaust sú að þeir vilja halda feluleiknum áfram. Þeir vilja halda áfram þeim blekkingaleik að leyna raunveruleikanum fyrir Alþingi og þjóðinni og geyma verulegan hluta af raunverulegum útgjöldum ríkissjóðs uppi í skúffum fjmrh. þangað til einhvern tíma síðar á næsta ári.
    Ég skal ekkert fullyrða um það hvort einhver vopnaviðskipti hafa átt sér stað milli hv. meiri hl. nefndarinnar annars vegar og hæstv. ríkisstjórnar hins vegar eftir að brtt. við 2. umr. voru komnar fram. Leikslokin blasa hins vegar við.
    Eftir 2. umr. skipti hv. meiri hl. fjvn. skyndilega um vinnulag. Í stað þess að leiðrétta útgjaldaliði fjárlagafrv. nokkurn veginn í átt við það sem ætla má að hægt væri að standa við hófst nú stórkostlegur feluleikur, vafalaust að forskrift hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar. Þetta kemur fram með ýmsu móti í brtt. meiri hl. nefndarinnar.

    Í fyrsta lagi er það gert með því að ekki er áætlað fyrir útgjöldum sem sýnilega munu koma til greiðslu á næsta ári.
    Í öðru lagi er reynt að leyna raunverulegum útgjöldum A-hluta ríkissjóðs með því að fela þau í heimildum á 6. gr.
    Í þriðja lagi eru tillögur um niðurskurð útgjalda sem samkvæmt fyrri reynslu er ólíklegt að standist.
    Í fjórða lagi er möndlað með mál á þann hátt að tekinn er sjóður úr A-hluta, svokallaður Mannvirkjasjóður menningarbygginga, og færður yfir í B-hluta. Þennan sjóð á síðan að láta taka lán sem veitt er þaðan og yfir í A-hluta. Þetta síðasttalda atriði er með því ósmekklegasta sem ég hef séð varðandi blekkingar við afgreiðslu fjárlaga.
    Allt blasir þetta við okkur sem störfum í fjvn. En e.t.v. er þetta ekki jafnaugljóst hjá ýmsum öðrum hv. alþm. sem ekki eru þessum málum eins kunnugir, hvað þá fyrir almenning í landinu. Það er hins vegar ljóst að þau sjónarmið sem ráðið hafa ferðinni hjá meiri hl. fjvn. við afgreiðslu mála fyrir 3. umr. og birtast í brtt. meiri hl. á þskj. 423 og fleiri þingskjölum eru í engu samræmi við þá stefnu sem hv. formaður nefndarinnar hefur oft lýst að þurfi að hafa að leiðarljósi við afgreiðslu fjárlaga. Þetta veldur auðvitað því að afgreiðsla fjárlaga nú mun í ýmsum greinum reynast haldlaus eins og hún var fyrir ári síðan.
    Við 2. umr. fjárlaga lýsti ég því að óleystur vandi í fjárlagadæminu væri mikill. Ég lýsti þeirri skoðun minni að líklega yrði halli á fjárlagadæminu í heild um 7--8 milljarðar kr. Á hinn bóginn mætti búast við því að hluti af þessum vanda yrði ekki látinn sjást í afgreiðslu fjárlaga heldur geymdur í hirslum fjmrn. þangað til kæmi fram á næsta ár. Þá mundi hann brjótast fram í útgjöldum hjá ríkissjóði.
    Ég reiknaði með að halli við fjárlagaafgreiðslu yrði allt að 6 milljarðar kr. Frá þessum tölum mundi að sjálfsögðu dragast sú fjárhæð sem fram kæmi ef teygt yrði úr tekjuáætlun fjárlagafrv. Nú hefur þetta verið gert og bætt inn í tekjuhliðina rúmlega 1100 millj. kr. sem að sjálfsögðu dragast frá þeim tölum sem ég hef hér nefnt um líklegan halla. Ef reiknað er með að þessar breytingar á tekjuhliðinni séu raunhæfar er ég enn sömu skoðunar, að raunverulegur halli á fjárlagadæminu sé, eins og ég lýsti við 2. umr., um 6--7 milljarðar kr. og hefur að sjálfsögðu lækkað um 1100 millj. miðað við breytingar á tekjuhlið.
    Nú virðast fjárlögin verða afgreidd með halla sem nemur nálega 3,7 milljörðum kr. Af vandanum eru því geymdir um 3 milljarðar sem er um 1 milljarði meira en ég átti von á við 2. umr. fjárlaga. Það stafar vitaskuld af þeim breytingum á vinnulagi meiri hl. nefndarinnar sem ég hef gert að umtalsefni hér að framan.
    Áætlanir af þessu tagi geta að sjálfsögðu aldrei orðið nákvæmar og geta sveiflast um nokkur hundruð millj. kr. við tiltölulega litlar breytingar í hagkerfinu, t.d. ef breytingar verða á veltu. Hér er að sjálfsögðu heldur ekki gert ráð fyrir áhrifum sem kunna að verða

af nýjum kjarasamningum. Það er þó tiltölulega auðvelt að tína fram allmarga liði í fjárlagadæminu þar sem mál eru enn óleyst eða málum er komið fyrir með óeðlilegum hætti, til að mynda falin á 6. gr. Sums staðar kann þó að vera hægt að ná fram sparnaði og þá jafnvel með því að rjúfa þau fyrirheit sem gefin hafa verið af hálfu stjórnvalda. En vandinn hverfur ekki við það. Hann hverfur ekki nema hafist sé handa um aðgerðir til að koma í veg fyrir það að peningar verði greiddir út.
    Við síðustu yfirferð var gert ráð fyrir að í Lánasjóð ísl. námsmanna vantaði 600 millj. kr. til samræmis við útreikninga stjórnar sjóðsins. Til viðbótar mundi yfirboð hæstv. menntmrh. kosta 200 millj. kr. Í tillögum meiri hl. fjvn. er þetta leyst á þann hátt að það á að taka lán til sjóðsins að fjárhæð 400 millj. kr. Á þennan lið vantar 400 millj. kr. til þess að standa við fyrirheit menntmrh. Verði lánahlutfallið skert í samræmi við þessa niðurstöðu þýðir það raunlækkun lána um 10%.
    Til rekstrar ríkisspítala miðað við óbreyttan rekstur vantar um 160 millj. kr. Ef ætti að standa við þá niðurstöðu þýddi það samdrátt í rekstri spítalanna um nálægt 3%. Spyrja má hvort líklegt sé að sú verði raunin og það
kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að hann óttast að hér sé of varlega farið í tillögum nefndarinnar til að mæta þeirri þörf sem við er að fást. Og það var raunar svo um fleiri liði að það kom fram viðurkenning í máli hv. formanns nefndarinnar þar sem hann taldi að fremur mætti ásaka nefndina fyrir það að hafa lagt fram of lágar tillögur heldur en hið gagnstæða. Þetta var vitaskuld rétt, enda sér hv. formaður nefndarinnar vandann með sama hætti og hann blasir við mér.
    Í tillögum meiri hl. fjvn. er lagt til að hækka niðurgreiðslur um 200 millj. kr. Ef hins vegar á að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um niðurgreiðsluhlutfallið á árinu 1990 og samkomulag ríkisstjórnarinnar og Stéttarsambands bænda um lækkun birgða um 600 tonn á árinu vantar að talið er um 600 millj. kr. og er mismunurinn því 400 millj. kr.
    Til Atvinnuleysistryggingasjóðs vantar 450 millj. kr. Meiri hl. fjvn. segir að það eigi að ná þessu með því að selja skuldabréf í eigu sjóðsins. Nú eru þessi skuldabréf með mjög lágum vöxtum og ýmis þeirra án verðtryggingar og mundu því ekki seljast á frjálsum markaði nema með miklum afföllum. Enginn mundi fást til að kaupa þessi bréf á nafnverði nema ríkissjóður. Ef sala skuldabréfanna á því að verða raunhæf er líklegt að ríkissjóður verði samt sem áður að borga. Þarna vantar því um 450 millj. kr.
    Til ríkisábyrgða á launum er talið að vanti um 100 millj. kr. Í áætlunum fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að takast megi að spara 500 millj. kr. á sjúkratryggingum. Gott væri ef þetta tækist. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til þess að mögulegt sé að ná þessu fram. Ef það er ekki gert renna þessir peningar sjálfkrafa úr ríkissjóði. Ég tel

óhætt að áætla að þó nokkur sparnaður geti náðst en þó sé líklegt að þarna vanti eigi minna en 200 millj. kr. E.t.v. ætlar hæstv. ríkisstjórn að ná þessum sparnaði með nýjum sjúklingaskatti og þá má um leið geta þess, eins og fram kom í máli hv. formanns nefndarinnar, að fyrir utan þessar fjárhæðir hefur hæstv. ríkisstjórn þegar ákveðið að leggja á nýjan sjúklingaskatt sem nemur 50 millj. kr. Er það gert með hækkun á gjaldi sjúklinga fyrir viðtöl við lækna.
    Til Jarðasjóðs og Jarðeigna ríkissjóðs er ljóst að vantar um 50 millj. kr. Sú fjárhæð gæti raunar orðið drjúgum hærri því búast má við að ýmsir leiguliðar á ríkisjörðum kjósi að bregða búi þegar þeir fá jólakveðju ríkisstjórnarinnar um tíföldun á eftirgjaldinu.
    Ef tekið er mið af rekstrarútkomu þessa árs eins og hún virðist nú horfa við má reikna með að í rekstrarútgjöld ríkissjóðs vanti um 300 millj. kr. Þetta er ekki há fjárhæð miðað við það sem raunar kom fram í ræðu hv. formanns fjvn. við 2. umr. þótt hann viki ekki sérstaklega að þessu efni í ræðu sinni hér áðan. Nokkrir veigamiklir útgjaldaliðir, sem ættu heima í 4. gr. frv. og ættu að koma beint til útgjalda á A-hluta ríkissjóðs, eru færðir undir heimildir 6. gr. til þess að leyna því í útkomunni hvað þar er á ferðinni. Sá stærsti þeirra er uppgjör á vanskilum Skipaútgerðar ríkisins sem ætla má að verði eigi minna en um 400 millj. kr.
    Aðrir liðir verða ekki tilgreindir í þessari upptalningu þótt ljóst sé að þar verði um verulegar fjárhæðir að tefla. Þó er þar gert ráð fyrir sparnaði upp á 300 millj. kr. sem á að ná með því að loka stofnunum og með fleiri aðgerðum. Miðað við fyrri reynslu eru ekki miklar líkur til að árangur verði að verulegu leyti um þetta efni.
    Þá eru ótaldar þær óhönduglegu aðgerðir að færa svokallaðan Mannvirkjasjóð menningarbygginga úr A-hluta yfir í B-hluta og láta hann þar taka lán að fjárhæð 300 millj. kr. sem síðar á að verða til þess að fé er veitt frá B-hluta yfir til A-hluta. Þarna tel ég ranglega að verki staðið og réttara að telja þetta með útgjöldum A-hlutans en til þess vantar 300 millj. kr.
    Sé þetta talið saman er hér um að ræða 3,3 milljarða kr. sem eru óleystur vandi í þessu dæmi þótt ekkert verði fullyrt um það að allt þetta fé verði greitt á næsta ári því að með tilteknum aðgerðum kann að vera mögulegt að draga úr þessari þörf í einhverjum atriðum. En til þess að það sé hægt þarf að grípa til aðgerða sem ekkert hefur bólað á hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Þrátt fyrir þetta eru ýmis dæmi ótalin. Til dæmis vantar í frv. eins og það liggur fyrir inn á launalið Flugmálastjórnar nákvæmlega sundurgreint 67 millj. kr. Þetta ætlar hv. meiri hl. fjvn. að leysa með því að veita til þessa viðfangsefnis 20 millj. kr. Er þá óleystur vandi upp á 47 millj. kr. sem á að ná annað tveggja með því að fækka fólki hjá Flugmálastjórn, lækka launin ellegar að fá hluta af starfsfólkinu, t.d. flugumferðarstjórana, til þess að vinna í sjálfboðavinnu. Ég spyr nú hvort líklegt sé að sú verði

raunin. Ég skal ekki fjalla um fleiri slíka liði, en þessir liðir sanna að hv. meiri hl. fjvn. hefur í ýmsum tilvikum kosið að loka augunum til þess að leyna þeim vanda sem við er að fást í sjálfri útkomunni. Þannig hefur hann auðvitað tekið við fyrirmælum um þessi efni frá hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn.
    Hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hugðust ná niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs með því að seilast í vasa sveitarfélaganna í landinu. Þetta átti að gera með því að brjóta upp það samkomulag sem náðst hafði eftir margra ára
starf með lögum um nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem sett voru á síðasta Alþingi. Ætlun hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar var að brjóta þessi lög á fyrsta ári og koma þannig í bakið á sveitarfélögunum. Eftir harðvítuga andstöðu Sjálfstfl. hér á Alþingi hefur þó hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn látið undan síga í þessari aðför. En það vantaði ekki að hugurinn stóð í þessa átt.
    Flestar þeirra brtt. sem meiri hl. fjvn. flytur við þessa umræðu eru því marki brenndar að minni hl. nefndarinnar getur enga aðild að þeim átt. Þetta á að sjálfsögðu við um tekjuhlið frv. en einnig um þær brtt. sem við þessa umræðu eru fluttar við 4. gr. Fjvn. hefur oft getað staðið saman um brtt. við þá grein frv. Á sama hátt treystir minni hl. nefndarinnar sér ekki til að eiga aðild að þeim tillögum sem fluttar eru við 5. gr. um B-hluta stofnanir. Ýmsar þær brtt. sem fluttar eru við 6. gr. eru þess eðlis að minni hl. kýs að eiga þar enga aðild að. Þessar tillögur allar eru því fluttar af meiri hl. nefndarinnar. Á hinn bóginn flytur nefndin sameiginlega ýmsar brtt. sem ekki er ágreiningur um við 6. gr. frv., þ.e. heimildargrein fjárlaga.
    Nokkrar af þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur eru sérkennilegar. Svo er t.d. varðandi tillögu um að hækka framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 40 millj. kr. sem á að ganga til sérstaks verkefnis, þ.e. til bygginga fyrir aldraða á Suðurnesjum. Nú eru til lög um þennan sjóð og í þeim lögum segir að stjórnarnefnd sjóðsins ásamt fulltrúa fjvn. Alþingis skuli gera tillögur um úthlutun á fé sjóðsins sem heilbrrh. tekur síðan ákvörðun um. Með þessari tillögu er verið að veita 40 millj. til þessa sjóðs sem á að fara fram hjá úthlutun sjóðsins sem gerist samkvæmt lögum. Það er því tvennt þarna á ferðinni: Í fyrsta lagi eru lög um Framkvæmdasjóð aldraðra sniðgengin og í öðru lagi lyktar þetta mál af pólitískum hrossakaupum.
    Í brtt. við 6. gr., sem meiri hl. nefndarinnar flytur, er lagt til að veitt verði heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa aðstöðu fyrir nýja stofnun, nýtt meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur. Á sama tíma hafa félagasamtök verið að vinna að því af eigin rammleik að koma á fót slíkri stofnun. Þessi samtök sem kölluð eru Krýsuvíkursamtökin eru vel á veg komin með að endurbyggja Krýsuvíkurskólann og koma þar upp slíkri aðstöðu. Rekstur er þegar hafinn og þangað eru komnir sex vistmenn. Þessi samtök fóru fram á það við fjvn. að fá styrk til þess að mæta

kostnaði við vistun þeirra sem á meðferð þyrftu að halda. Og þessi vistgjöld áttu að vera sem næst helmingi lægri en sambærileg vistgjöld á ýmsum stofnunum ríkisins. Ekki var farið fram á eina einustu krónu til fjárfestingar. Þrátt fyrir það virðist svo sem hæstv. ríkisstjórn vilji ekkert af starfsemi þessara frjálsu félagasamtaka vita, en vilji á hinn bóginn leggja í gífurlegan kostnað, eigi minna en marga tugi millj. kr. í fjárfestingu, auk rekstrarkostnaðar, til þess að koma upp nýrri stofnun á vegum ríkisins fyrir þessa starfsemi sem vissulega er án efa bæði þörf og nauðsynleg.
    Ég tel að sjálfboðastarf félagasamtaka í málum eins og þessum geti verið afar þýðingarmikið og það er víst að ef sæmilega tekst til eða vel er það miklu ódýrara fyrir ríkissjóð en ef ríkissjóður tekur þessi mál upp á eigin arma, bæði í fjárfestingu og rekstri. Ég tel þess vegna að það þurfi að athuga mjög vel hvernig Krýsuvíkursamtökin fara af stað með sinn rekstur áður en komi til greina að ríkissjóður fari að setja á fót slíka stofnun á eigin vegum og ráðast í stórkostlega fjárfestingu til að gera það mögulegt.
    Rétt er að geta þess að í brtt. meiri hl. nefndarinnar er lagt til að Krýsuvíkursamtökin fái styrk til starfsemi sinnar sem nemur 4 millj. kr. á næsta ári.
    Í tillögum meiri hl. nefndarinnar er gert ráð fyrir að hækkun verði á fé til vegamála um 340 millj. kr. á næsta ári. Þetta er gert með hækkun bensíngjaldsins sem síðan á að fylgja verðlagsþróun á næsta ári. Þessi fjárhæð hefur ekki áhrif á rekstraryfirlit fjárlagadæmisins því hún kemur bæði fram tekna- og gjaldamegin. Með þessum hætti er þó gert ráð fyrir að skerða fé Vegagerðar ríkisins til vegaframkvæmda um 675 millj. kr. frá því sem vegáætlun kveður á um sem samþykkt var á Alþingi þann 20. maí sl. Þá stóð ekki á heitstrengingum hæstv. samgrh. og hv. stjórnarliða um að sú vegáætlun yrði látin standa og enginn niðurskurður kæmi þar til greina. En það er eins og annað í meðferð þessara mála að þótt gefin séu fyrirheit og hátíðlegar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar stendur þar naumast steinn yfir steini.
    Það er á hinn bóginn ekki sparað að leggja skatta á bifreiðaeigendur því svokallað bifreiðagjald sem nýlega hefur verið fundið upp og rennur beint í ríkissjóð er nú orðið hærra en allur þungaskatturinn eða 1200 millj. kr.
    Í tillögum meiri hl. nefndarinnar við 6. gr. er gert ráð fyrir að selja húseignir tveggja tilraunastöðva landbúnaðarins. Ég verð að segja það að fullkomin ástæða getur verið til að endurskoða rekstur tilraunastöðva landbúnaðarins og breytingar geta þar komið til greina sem gerðar yrðu að athuguðu máli. Það er hins vegar afar einkennilega að verki staðið að fella
niður rekstur slíkra stofnana í fjárlögum án þess að um það hafi verið rætt á Alþingi að breyta þeim lögum sem um þetta gilda. Í lögum nr. 64 frá 21. maí 1965 segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Rannsóknastofnun landbúnaðarins skal fá umráð

yfir þeim tilraunastöðvum á sviði landbúnaðar, sem ríkið á. Þar skulu framkvæmdar tilraunir í jarðrækt, búfjárrækt, heyverkun og öðru, sem stjórn stofnunarinnar ákveður.``
    Í þessum lögum kemur það skýrt fram að það er beinlínis skylda samkvæmt lögum að tilraunir skuli fara fram á þeim tveimur stöðvum sem með fjárlögum er ætlast til að felli niður starfsemi sína, en það er á Reykhólum og Skriðuklaustri. Ég tel þess vegna að hér sé í hæsta máta farið aftan að siðum og rétt vinnulag í efnum eins og þessum sé vitaskuld að leggja til breytingar á lögum um Rannsóknastofnun landbúnaðarins hér á Alþingi áður en komi til mála að breyta þessu með fjárlögum. Hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa hirt um að gæta að því hvað lög segja um þessa starfsemi áður en breytingar eru ákveðnar og er það í samræmi við ýmsar aðrar aðgerðir þessarar hæstv. ríkisstjórnar þar sem ekki er hirt um að fylgja lögum.
    Einstakar brtt. meiri hl. fjvn. verða hér ekki gerðar frekar að umtalsefni. Þær eru vitaskuld af ýmsum toga. Margar þeirra eru því marki brenndar að þær fela í sér vanáætlun eða feluleik með það sem ætla má að verði raunveruleg útgjöld ríkissjóðs á næsta ári. Aðrar fela í sér leiðréttingar. Í þriðja lagi eru nokkrar sem boða óþörf og stóraukin útgjöld ríkissjóðs á næsta ári. Í heild er þessi afgreiðsla engu betri en afgreiðsla fjárlaga fyrir þetta ár sem nú er senn liðið og hlotið hefur dóm reynslunnar í því fjáraukalagafrv. sem væntanlega verður afgreitt hér frá Alþingi í dag eða á morgun.
    Verði tillögur meiri hl. fjvn. samþykktar verða megineinkenni fjárlaga fyrir árið 1990 þessi:
    1. Fjárlögin verða með alvarlegum halla eða um 3,7 milljarða kr. Ætla má að falinn halli til viðbótar sé allt að 3 milljarðar kr.
    2. Útþensla ríkiskerfisins heldur áfram eða eigi minni en um 2% að raungildi. Ætlað er fyrir útgjöldum sem fela í sér brot á lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands um ráðningu pólitískra aðstoðarmanna ráðherra.
    3. Eftir Íslandsmet í skattaálögum á þjóðina á þessu ári á enn að þyngja skattbyrðina, einkum með tekjusköttum og eignarsköttum, bifreiðasköttum og launasköttum. Opinberum stofnunum er gert að innheimta skatta til ríkisins í stórauknum mæli.
    4. Sú stefna sem í þessu felst miðar öll að því að þrengja að almenningi í landinu og atvinnuvegum landsmanna. Með þessu er verið að herða að því samdráttarskeiði sem gengur yfir efnahagskerfi þjóðarinnar um þessar mundir og gera það torveldara að snúa við frá samdrætti til sóknar og framfara.
    Þessi stefna er í grundvallaratriðum röng. Okkur er nú allra nauðsynlegast að halda á málum með þeim hætti að atvinnuvegirnir verði reknir með hagnaði og nái að blómgast þannig að hagvöxtur geti tekið við af samdrætti og öryggisleysi. Samtímis verður að stöðva útþenslu ríkiskerfisins. Einungis á þann hátt verður snúið við frá minnkandi kaupmætti almennings og sívaxandi atvinnuleysi. Einungis á þann hátt er

mögulegt að rétta við það efnahagskerfi sem hefur verið að molna niður í höndum núv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Einungis á þennan hátt er mögulegt að snúa við frá sívaxandi skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis og greiðslubyrði af erlendum lánum sem enn mun þyngjast á næsta ári.
    Svo virðist sem eitthvað sé að rofa til hjá einstökum þingmönnum stjórnarliðsins. Fjórir hv. þm. Framsfl. birtu snemma á þessu þingi tillögur í efnahags- og atvinnumálum sem í sumum tilvikum voru sem sniðnar eftir stefnu Sjálfstfl. Nú hafa sömu hv. þm. flutt till. til þál. hér á Alþingi um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu, með öðrum orðum um viðnám gegn vexti og útþenslu ríkisbáknsins þar sem rækilega er tekið undir gagnrýni og sjónarmið okkar sjálfstæðismanna.
    Segja má að bragð sé að þegar barnið finnur. Það vekur þó athygli að tveir þessara hv. þm. eru fulltrúar Framsfl. í fjvn. Þeir segja að ríkisstjórnin sé ekki sjálfri sér samkvæm. Þeir segja að stórfelldur halli á fjárlögum verði ekki brúaður með skattheimtu. Þeir segja að fjmrh. starfi sem rukkari og sjái ekki önnur ráð en að hækka skatta og herða innheimtu. Þetta gangi ekki lengur.
    Hæstv. ríkisstjórn fer einmitt þannig að. Hæstv. ríkisstjórn herðir tökin. Hún finnur nýjar og nýjar leiðir til skattheimtu. Hún herðir innheimtuna. Hún eykur eyðsluna. Hún þenur út ríkisbáknið.
    Hæstv. forsrh., formaður Framsfl., gerir að sjálfsögðu ekkert með þessar tillögur. Hann leiðir hæstv. ríkisstjórn og segir að allt sé í góðu lagi, rétt eins og hæstv. fjmrh. Hinir óbreyttu þingmenn fá engu áorkað, jafnvel ekki þeir sem eru í hv. fjvn. Tillögur þessara þingmanna verða því sjálfsagt að engu hafðar hjá þeim sem völdin hafa meðan þessi hæstv. ríkisstjórn situr. Þó vil ég taka fram að það er virðingarvert af þingmönnum stjórnarliðsins að flytja slíkar tillögur sem sannar að meira að segja í liði hæstv. ríkisstjórnar eru þó menn sem sjá það að svo má ekki lengur ganga með þessa
stefnu, sjá það að það verður að breyta um stefnu til þess að hægt sé að rétta við þetta þjóðfélag úr þeirri kreppu sem það er að síga lengra og lengra í. Það verður að breyta um stefnu til þess að hægt sé að fara á ný upp úr öldudalnum, á ný að sækja fram til aukinnar hagsældar, aukinnar velferðar.
    Ég tel virðingarvert að þetta skuli hafa verið gert hér af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins. En það rofar ekkert til í hugum þeirra sem með völdin fara, hæstv. ráðherrum í núv. hæstv. ríkisstjórn. Þeir sjá ekki það sem allir aðrir sjá að til þess að mögulegt sé að ryðja braut nýrri stefnu, stefnu hagvaxtar, batnandi lífskjara, atvinnuöryggis og framfara verður þessi hæstv. ríkisstjórn að fara frá.