Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Þessi umræða um fjárlög er mjög svipuð og undanfarin ár. Stjórnarandstaðan sýnir engin viðbrögð nýrra leiða eða nýrra tíma. Engar tillögur koma fram frá hv. stjórnarandstæðingum til úrbóta eða til sérstaks niðurskurðar. Það er heldur engin framtíðarsýn í þeim ræðum sem við höfum heyrt hér frá hv. stjórnarandstæðingum. Það er aðeins þetta hefðbundna nöldur um að meiri peninga vanti til þessa verkefnis eða hins verkefnisins, eða ríkisstjórn og meiri hl. fjvn. hafi ekki haldið rétt á málum. En engar tillögur til úrbóta, engar. Og þar er Kvennalistinn ekki eftirbátur annarra. Það kemur ósköp lítið nýtt frá þeim í gegnum þeirra reynslusögu hér á hv. Alþingi sem er bitastætt í sambandi við einhverja framtíðarsýn um meðferð fjármála.
    Mig langar aðeins til að þakka vini mínum Pálma Jónssyni, hv. 2. þm. Norðurl. v., fyrir að minna á okkur framsóknarmenn og tillögur okkar sem liggja hér fyrir á þskj. um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu. En ég ætla aðeins að undirstrika að þessar tillögur eru að sjálfsögðu dómur á fortíðina. Þær miða að nýrri stefnu til framtíðar í þessu máli. Og þegar við tölum um fortíðina, hverjir skyldu þá hafa lengst farið með fjármál ríkisins? Auðvitað er það Sjálfstfl. Þó að Pálmi sé nú einn af þeim sem eru taldir framsóknarmenn í liði Sjálfstfl. gleymir hann gjarnan að geta þess þegar hann tekur til umræðu eitthvað slíkt um aðra. Þó ég ætli ekki að dæma neinn í fortíðinni er það alveg ljóst að forusta Sjálfstfl. hefur farið lengst af með ríkisfjármálin. Og ég man ekki til þess í gegnum tíðina að nokkrar slíkar hugmyndir hafi komið, nýjar hugmyndir um meðferð ríkisfjármála í gegnum þá forustu, því miður. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. Pálmi Jónsson og margir fleiri, og raunar alþjóð, hafa tekið eftir því að efnahagsnefnd Framsfl. hefur hér farið nýjar leiðir. Við höfum bent á margar nýjar róttækar
leiðir í sambandi við efnahagsmálin og fjármálastjórnun. Með því erum við ekkert að draga úr ábyrgð okkar flokks á því ástandi sem hefur verið í meðferð fjármála hér á landi undanfarnar áraraðir og jafnvel áratugi, síður en svo. Við erum um leið að gagnrýna okkar eigin flokk. En við erum að tala um nýjar leiðir, nýjar framtíðarleiðir til að snúa þessu dæmi við og taka upp allt önnur viðhorf, allt önnur vinnubrögð. Það er akkúrat þetta sem er aðalatriðið í þessum málum. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. Pálmi Jónsson vakti athygli hér úr ræðustól á Alþingi við umræður um fjárlög á þessu framtaki okkar fjórmenninga í efnahagsnefnd Framsfl. Ég vona að þær tillögur eigi eftir að hafa einhver áhrif um leið og ég undirstrika og fagna því samkomulagi sem náðist í fjvn. um að taka meðferð ríkisfjármála sérstaklega til umfjöllunar til að reyna að nýta þá reynslu sem hefur komið fram á undanförnum áraröðum, ekki aðeins núna á einu, tveimur síðustu árum heldur um langa hríð. Og það sýnir að hér þarf að brjóta blað og reyna að taka upp ný vinnubrögð.

Ég vonast til að allir hv. þm. taki þátt í því að móta einhverja nýja stefnu um þessar aðgerðir hvar í flokki sem þeir standa því á því er full þörf fyrir okkar efnahagskerfi.
    Ég vil byrja mál mitt með því að þakka samstarfið í fjvn. núna við 3. umr. og það samkomulag sem hefur verið í megindráttum um ýmis meiri háttar mál í fjárlögum ríkisins milli meiri hl. og minni hl. Þannig á það að sjálfsögðu að vera. Ég vil einnig taka undir þakkir til þeirra starfsmanna sem hafa unnið með fjvn. í þessum málum.
    Ég ætla, herra forseti, ekki að eyða löngum tíma hér, enda ekki ástæða til þess þar sem formaður fjvn. flutti hér ítarlega ræðu um þær tillögur og þau viðhorf sem eru í sambandi við lokaafgreiðslu fjárlaga og hér hafa verið rakin rækilega. En mig langar til að vekja athygli á einum þætti sem er e.t.v. ekki fyrirferðarmikill en hann er þó mikilvægur í sambandi við fjárlög ríkisins. Það er sá sparnaður eða sá samdráttur sem hafinn var á þessu ári undir forustu fjmrh., þ.e. að reyna að draga saman útgjöld ríkisins, ekki síst í sambandi við launakostnað og það sem því tilheyrir.
    Eins og kom fram var reiknað með að þessi samdráttur yrði um 4--4,5%. Það hefði verið kraftaverk ef það hefði náðst, en samt sem áður er árangurinn jákvæður, sem lýsir sér í því að samkvæmt yfirliti Ríkisendurskoðunar hefur þessi árangur skilað 2,5% í þessari viðleitni. Hvert prósent gerir 300 millj., þannig að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Ég held að miðað við þær aðgerðir sem verið er að taka upp í sambandi við ný vinnubrögð í ríkisfjármálum verði þetta fyrirferðarmikill þáttur sem muni skila sér í ríkiskerfinu á betri veg.
    Mig langar aðeins til að nefna hér nokkur atriði, sem ég tel mikilvæg í sambandi við þessa umræðu, sem á að ráðstafa í fjárlagagerðinni. Þá vil ég alveg sérstaklega undirstrika í sambandi við landbúnaðinn, sem mér finnst vera fagnaðarefni, að loksins hefur náðst niðurstaða í meðferð þeirra mála, þ.e. uppgjör vegna jarðræktar- og búfjárræktarlaga og stefna í sambandi við meðferð nýrra jarðræktar- og búfjárræktarlaga á síðasta vori. Tekist hefur samkomulag
milli allra aðila um að upphæðirnar sem um er að ræða þar eru formlega viðurkenndar. Í gegnum fjáraukalög hefur náðst algjörlega hreint borð í sambandi við uppgjör 1987 og eldra. Við þessa fjárlagagerð og í lánsfjárlögum fyrir bæði yfirstandandi ár og næsta ár kemur fram hvernig verður farið með uppgjör á árunum 1988 og 1989. Hér er, eins og kom fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar, algjörlega brotið blað og nú þurfa menn ekki lengur að velkjast í vafa um það hvað er hvað. Þarna verður gengið þannig frá málum að viðkomandi aðilar sem eiga rétt á þessum bótum samkvæmt fyrrverandi og núgildandi lögum fá sitt uppgjör á borðið. Það verður endanlega gert upp á fjögurra ára tímabili. Þetta vil ég sérstaklega undirstrika og fagna hér því þetta hefur verið mikið til umræðu á undanförnum árum og í

raun og veru aldrei fengist hreint borð við meðferð þessara mála fyrr en nú. Þessu ber að fagna og þeirri samstöðu sem um þetta hefur tekist.
    Ég get ekki komist hjá því að nefna aðeins hér vegamálin. Þau hafa verið sá þáttur á undanförnum árum sem hefur mestu skipt fyrir byggðastefnu hér á landi, fyrir landsbyggðina og raunar þjóðina í heild. Sú stefna sem tekin var upp í sambandi við langtímagerð í vegagerð hefur skilað miklu meiri árangri en bjartsýnustu menn þorðu að vona þegar hún var tekin upp.
    Hins vegar hlýt ég að lýsa vissum vonbrigðum í sambandi við framhald þessarar vegáætlunar varðandi næsta ár. Í meðferð vegáætlunar sem afgreidd var sl. vor voru gefin ákveðin fyrirheit í sambandi við nýja stefnu sem var tekin upp, þ.e. að taka upp hin svokölluðu stórverk í vegagerð og flokka þau í vegáætlun. Þar er mörkuð stefna til framtíðar í stærri verkum, bæði að því er varðar jarðgöng og stórbrýr o.s.frv. Voru gefnar yfirlýsingar um að það væri liðin tíð að skera niður tekjustofna Vegagerðar ríkisins. Auðvitað fögnuðu allir þessu máli og vegáætlun fyrir árin 1990--1992 var afgreidd samhljóða hér á hv. Alþingi. Hins vegar hefur komið í ljós að ágreiningur er milli samgrh. og ríkisstjórnar í sambandi við útreikninga eða uppsetningu á þessum málum sem hefur valdið misskilningi. Niðurstaðan er samt sú að í staðinn fyrir að hafa þessa tekjustofna óskerta eru þeir skertir, að vísu á annan hátt en áður þar sem nú er aðeins miðað við verðlagsforsendur næsta árs. En það þýðir í raun, miðað við þær tölur sem vegáætlunin segir til um, eins og kom fram hér hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., að þar er niðurskurður um 650 millj. eða svipað og er á þessu ári. Þetta hlýtur að koma niður á mikilvægum þáttum vegagerðar og þýðir að það verður að taka vegáætlun 1990 til uppskurðar nú fljótlega eftir áramótin. Það getur haft miklar afleiðingar hvernig sú endurskoðun verður gerð því mikið af þessum verkum er fyrir fram ákveðið og búið að gera um þau verkáætlun hjá Vegagerð ríkisins. Þess vegna verður þetta mjög erfiður málaflokkur á næsta ári og veldur vissulega, eins og ég sagði áðan, miklum vonbrigðum að ekki tókst betur til en þetta. Efnahagsástandið grípur að sjálfsögðu hér inn í en ég vænti þess að það liggi alveg ljóst fyrir öllum ráðamönnum að allar þær tekjur sem vegáætlunin gerir ráð fyrir renna í vegasjóð. Það sem er umfram það sem sú verðlagsáætlun gerir ráð fyrir, þ.e. ef hún raskar til hækkunar, þá hækka að sjálfsögðu tekjur vegasjóðs. Enn fremur að það sem kann að koma til hækkunar á þessu ári rennur óskipt í vegasjóð einnig. Ég vil taka þetta skýrt fram.
    Þriðja atriðið sem ég vil sérstaklega nefna hér er verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Það er náttúrlega ljóst að mesta þörfin í því máli er að skapa traustan samstarfsgrundvöll milli sveitarfélaga og ríkisins.
    Ég vil í þessu sambandi minna á að 1985 var gerður sérstakur samstarfssáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga hér á landi. Þessi sáttmáli var sniðinn eftir finnskum lögum. Í Finnlandi voru sett lög vegna

þess að mjög mikið ósamkomulag hafði verið milli finnsku sveitarfélaganna og ríkisins um langan tíma. Niðurstaðan var sú að þeir gerðu með sér sáttmála sem hefur gjörbreytt aðstöðu í Finnlandi að því er varðar sveitarstjórnarmál og byggðamál almennt og orðið að miklu gagni. Ég tel að frá því að þessi samningur var gerður milli ríkis og sveitarfélaga hér hafi hann áorkað miklum framförum. Mál hafa verið rædd á þessum vettvangi í botn og ágreiningur verið jafnaður í flestum tilfellum á skynsamlegan máta.
    Þess vegna kom það mér nokkuð á óvart nú á nýliðnu hausti þegar fjárlög voru komin í lokaumræðu að ekki skyldi takast á þessum vettvangi að leysa málin í sambandi við verkaskiptinguna á skýrari hátt en fram hefur komið. Ég verð að segja það alveg eins og er að þetta olli mér miklum vonbrigðum. Hins vegar verð ég um leið að fagna því að gætnir menn í forustuliði sveitarfélaga og ríkisins hafa nú náð sáttum eins og hér hefur komið fram og ég tel ákaflega mikilvægt í þessu máli. Það er alveg óþarfi fyrir hv. 2. þm. Norðurl. v. að vera að eigna Sjálfstfl. þá lausn sem hér hefur orðið. Svo er alls ekki heldur hafa gætnir og skynsamir menn í forustu sveitarfélaga ásamt með ráðherrum í ríkisstjórn áttað sig á því að hér þarf að ríkja friður, hér þarf að ríkja samstarf til að vel leysist úr málum. Ég treysti því að áframhald þessara mála, þessara mikilvægu samskipta ríkis og sveitarfélaga verði með þeim hætti að menn fari ekki að ýtast á á opinberum vettvangi heldur leysi málin á þeim
vettvangi sem er til, samkvæmt samstarfsreglum sem ríki og sveitarfélög hafa skrifað undir allt frá árinu 1985.
    Í sambandi við uppgjörsþáttinn þarf ég í sjálfu sér ekki að endurtaka það sem ég sagði hér við 2. umr. fjárlaga. Þessi fjárhæð er nú ákveðin 300 millj. fyrir árið 1990 og heildarupphæðin sem þessir verkþættir þýða fyrir sveitarfélögin er áætluð 1350--1400 millj. kr. sem verður gert upp á fjórum árum eins og lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga gera ráð fyrir. Hins vegar er ekki hægt að skilja við málið án þess að lýsa því yfir að það var mjög slæmt að ekki skyldi hafa verið gengið frá þeim reglugerðum eða þeim uppgjörsaðferðum sem setning laganna gerði ráð fyrir á sl. vori. Það er mál sem verður að leysa snarlega á næstu dögum.
    Þá vil ég aðeins nefna Flugmálastjórn af því að hv. 2. þm. Norðurl. v. nefndi það mál. Hann veit eins vel og við í meiri hl. að hér er um mikið og stórt vandamál að ræða. Flugmálastjórn hefur verið rekin með miklum myndarskap á undanförnum árum. Flugmálakerfið, ef það má orða það svo, hefur yfir miklum tekjum að ráða í sambandi við erlend samskipti sem er einn mikilvægasti þátturinn í íslenskum flugmálum. Það er ákaflega slæmt nú í lok ársins 1989 þegar í ljós kemur að rekstrarvandi Flugmálastjórnar er margir tugir milljóna, eða réttara sagt tæpar 70 millj. kr. Þetta bitnar að sjálfsögðu á þeim framkvæmdum í flugmálum sem í gangi eru. Þennan greiðsluvanda verður að leysa. Hins vegar

kom fram í umfjöllun nefndarinnar, með þeim embættismönnum sem um þetta fjalla, að eðlilegt væri að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar og leysa það til bráðabirgða með 20 millj. kr. framlagi í gegnum fjárlögin nú. Jafnframt á að taka strax til við að gegnumlýsa þetta mál og reyna að finna flöt á því hvað hægt sé að gera til að koma rekstri Flugmálastjórnar í eðlilegt horf, sem er mjög þýðingarmikið í sambandi við flugmál og samgöngumál okkar hér á landi. Það má ekki kasta til þess höndum, það verður að finna úrræði hvað þetta varðar. Ég vildi aðeins undirstrika þetta vegna ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. því ég veit að honum er kunnugt um gang þessa máls.
    Ég hefði getað talað langt mál hér um Þjóðleikhúsið. Ég er einn af þeim sem telja að Þjóðleikhúsið megi ekki hverfa úr okkar menningarmynd. Það á skilið að fá þá endurbyggingu eða það mikla viðhald sem þar þarf að fara fram og búið er að draga í áratugi. Ef við rekjum fjárlög ríkisins í sambandi við Þjóðleikhúsið aftur á bak hefur næstum því á hverju einasta ári verið veitt sérstakt fjármagn til viðhalds hússins. En því miður hefur stjórn Þjóðleikhússins á undanförnum árum verið með þeim hætti að þetta viðhaldsfé og endurbótafé hefur allt saman horfið í reksturinn og húsið sjálft og allt sem því fylgir hefur drabbast niður öllum til vanvirðu. Þessu þarf að breyta og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. formanni fjvn. að þarna verður að breyta um stíl. Það verður að nota tækifærið, gefa sér eðlilegan tíma í þessar endurbætur sem yrðu þá nákvæmlega útfærðar í þeim tillögum og áætlunum sem lagðar yrðu fram, gegnumlýsa þær og ná þeim áfanga sem þarna þarf að gera í sambandi við öryggisþætti, númer eitt, tvö og þrjú, og eðlilega vinnuaðstöðu í þessu musteri þjóðarinnar eins og það hefur oft verið nefnt. Hvernig sem við veltum þessu máli fyrir okkur er augljóst að þessar viðgerðir, endurbygging á þessum þáttum tekur ekki minna en eitt og hálft ár í það minnsta. Þess vegna er eðlilegt, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um að þarna sé þörf á vissri endurskipulagningu á rekstri og starfstilhögun, að nota nú tækifærið og segja öllu starfsfólki Þjóðleikhússins upp og gera ráð fyrir því að hefja störf að nýju síðari hluta árs 1991 í endurbættu Þjóðleikhúsi sem felst fyrst og fremst í nauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun á öllu lagnakerfi hússins, hverju nafni sem nefnist, eins og fram hefur komið. Og ég vil aðeins segja það hér um leið að fjvn. fór sl. vetur inn í Þjóðleikhúsið, eyddi þar parti úr degi og okkur voru sýnd, neðst sem efst, þau vandamál sem þar blasa hvarvetna við í húsi sem var byggt 1930 eða upp úr því. Þess vegna er þetta mál sem þarf að átta sig á að engin bráðabirgðatök mega vera á, það verður að taka þetta alvarlega eins og það liggur fyrir.
    Ég vil svo aðeins segja í sambandi við tekjuáætlun frv. að auðvitað hefur maður vissar áhyggjur af því hvort tekjuáætlun þessa frv. standist. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef frá fyrstu tíð haft

vissar efasemdir í sambandi við þá miklu kerfisbreytingu sem nú er ákveðið að taki gildi um næstu áramót, virðisaukaskattinn. Ég hafði ýmsar efasemdir um þessa skattbreytingu þegar hún var hér til umræðu og taldi að miklu meiri upplýsingar þyrftu að koma fram. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að það væri útilokað að setja hér á virðisaukaskatt öðruvísi en í tveimur þrepum. Það væri enginn núllskattur til, það væri lágt þrep fyrir matvæli og aðra þjónustu sem ætti ekki að skattleggja á háu stigi og síðan væri eitt almennt þrep sem væri þar fyrir utan, en undanþága væri engin. Þannig er mitt viðhorf og þannig hef ég skilið niðurstöður af þeim kollsteypum sem hafa orðið í sambandi við þessa kerfisbreytingu á Norðurlöndunum, flestum ef ekki öllum. Þeir hafa farið allir yfir í fyrstu lotu en rétt sig svo aftur af og fundið skynsamlegar leiðir sem eru einmitt í átt við þetta sem ég er að tala um hér.
    Einnig vil ég minnast hér á einn þátt í þessari tekjuáætlun sem mér fannst furðulegur í sjálfu sér, þ.e. afgjöld ríkisjarða. Þessi liður hækkar úr 10 millj. í núgildandi fjárlögum í 100 millj. í fjárlagafrv. Þær upplýsingar sem ég hef fengið í sambandi við þennan lið eru að þetta eru alls ekki einvörðungu afgjöld af ríkisjörðum, þetta eru afgjöld af öðrum eignum ríkisins. Ég tel að í nánari útfærslu þurfi að skoða þetta þannig að fyrir liggi fljótlega hvernig þessi tekjuliður í fjárlögum er í raun og veru. Það er ekkert gaman, t.d. í sambandi við túlkun hv. sjálfstæðismanna hér að þeir segja að þetta sé jólagjöf til bænda sem sé tíföld miðað við það sem er í gildandi fjárlögum.
    Ég held að þarna þurfi að láta fara fram uppstillingu á þessum tekjustofni og átta sig á því í hverju hann liggur og hvernig hann greinist, a.m.k. svona í aðalatriðum.
    Ágæti forseti. Ég skal ekki eyða lengri tíma í þessa ræðu mína enda er það ástæðulaust. Ég hef sjálfur komið nálægt öllum þessum þáttum og ber að sjálfsögðu ábyrgð á því eins og aðrir. Ég vil líta fram á veg eins og við efnahagsnefndarmenn Framsfl. höfum sett okkur. Við viljum ekki vera fastir í fortíðinni eins og því miður sumir vilja, eins og t.d. okkar ágæti Kvennalisti sem var ný hreyfing og margir bundu miklar vonir við, en þær hafa festst í kerfinu blessaðar. Við viljum ekki vera svoleiðis. Þó við séum einn af elstu flokkunum viljum við horfa til framtíðar og vera ekkert að afsaka fortíðina, hún er farin. Menn eiga að læra af henni og taka upp ný vinnubrögð, það er framtíðin. Að reyna eftir megni, miðað við þá möguleika og skynsemi sem menn telja sig hafa, að stefna fram eftir nýjum leiðum.
    Þegar maður les þessa sígildu efnahagsspá frá Þjóðhagsstofnun okkar hér á landi rifjast það upp að hún er búin að vera í sama horfinu í áratugi eða eins lengi og stofnunin hefur verið til. Þeir segja núna í dag: Jú, það er bjart yfir efnahagsmálum í heiminum. Þetta er að sjálfsögðu gleðiboðskapur og auðvitað tengjumst við þessum ágæta heimi sem er í kringum okkur og erum á fullri ferð að tengjast viðskiptum og

öðrum samningum við þennan heim í kringum okkur. Það er sagt að við séum á botninum, það er slæmt ástand í efnahagsmálum o.s.frv. Þess vegna held ég að ástæða sé til að enda orð mín með því að ég tel að við Íslendingar verðum að þjappa okkur saman um aðgerðir sem verða til þess að hjálpa okkur til að ná því markmiði að við getum búið við svipað öryggi, svipað lífsöryggi og flestar Evrópuþjóðir. Sjálfsagt væri hægt að segja bara í einni setningu: Niður með vexti og niður með verðbólgu --- og þá mun verða bjart fram undan. Þess vegna held ég að ástæða sé til, núna á þessum tímamótum þegar við erum að ræða um fjárlög ríkisins, að athuga a.m.k. hvort ekki væri flötur á því að allir ráðandi menn sem vilja hugsa til framtíðar taki höndum saman um að ná því markmiði að við Íslendingar getum búið við svipað öryggi og nágrannaþjóðirnar sem nú er bjart yfir.