Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Áður en ég mæli fyrir brtt. Kvennalistans á þskj. 425 vil ég aðeins stuttlega víkja að orðum hv. 1. þm. Vesturl. sem hér talaði áðan og er víst fjarri núna. Ýmislegt af því sem fram kom í máli hans og varðaði Kvennalistann var mjög furðulegt. Hann sagði að Kvennalistinn hefði festst í fortíðinni. Við eigum ekki mjög langa fortíð, aðeins sex ára starfsævi hingað til og að mínu mati mætti frekar kalla vinnubrögð okkar og skoðanir staðfestu en hitt. Í máli hans kom hins vegar fram mjög mikil stöðnun hugans. Hann undraðist að hér skyldu vera sagðar reynslusögur. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að inn á Alþingi komi fólk úr ýmsum hópum þjóðfélagsins með mismunandi reynslu að baki því að það er auðvitað reynslan sem er dýrmætust og nýtist okkur best í því mikilvæga starfi sem við eigum hér að vinna fyrir fólkið í landinu. Það hefur alla vega hingað til þótt sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa ákveðið hlutfall milli þingmanna utan af landsbyggðinni og þeirra sem koma frá höfuðborgarsvæðinu einmitt vegna þeirrar mismunandi reynslu sem þeir hafa af því að lifa í þessu landi okkar við mismunandi aðstæður.
    En ég vík þá að brtt. okkar á þskj. 425, sem eru frá þingflokki Kvennalistans. Ég mælti fyrir þessum brtt. við 2. umr. fjárlagafrv., en við ákváðum að kalla þær aftur til 3. umr. til að gefa fjvn., hv. þingmönnum og ráðherrum svigrúm til að íhuga þær gaumgæfilega áður en þær kæmu til afgreiðslu hér í sameinuðu þingi.
    Við 2. umr. tók ég skýrt fram í máli mínu að brtt. þessar eru að sjálfsögðu engan veginn tæmandi fyrir þær breytingar sem við vildum sjá gerðar á þessu fjárlagafrv. Þó konum hafi í aldanna rás verið treyst fyrir því vandasama hlutverki að sjá um fjárreiður heimilanna í landinu og farist það afar vel úr hendi hefur karlþjóðin enn ekki hleypt þeim að ríkiskassanum þannig að hvorki hafa konur verið í aðstöðu til að gera áætlanir fyrir okkar stóra þjóðarheimili né heldur
verður þeim kennt um umframeyðsluna vegna rangra áætlana frá upphafi við gerð sameiginlegra búreikninga okkar. Brtt. þær sem við flytjum eru því auðvitað fyrst og fremst táknrænar fyrir nýjar áherslur sem við vildum sjá í fjárlögum. Till. eru allar við 4. gr. frv. og taka til atvinnuuppbyggingar fyrir konur, aðstoðar við konur í þróunarlöndunum, fjárstuðnings til reksturs Kvennaathvarfsins í Reykjavík og samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi og loks aukið fjárframlag til ráðgjafar og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum að hverri till. fyrir sig þó ég sjái ekki ástæðu til að fjalla um þær jafnítarlega og ég gerði við 2. umr. í síðustu viku. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að minna enn og aftur á það alvarlega ástand sem nú ríkir í atvinnumálum og kemur harðast niður á konum. Um allt land, nema á höfuðborgarsvæðinu, eru konur í miklum meiri hluta atvinnulausra og eins og allir vita

er einnig mikið um dulið atvinnuleysi kvenna. Það er því ljóst að við verðum að leita nýrra leiða í atvinnumálum okkar, ekki síst úti á landsbyggðinni. Við mótun atvinnustefnu er nauðsynlegt að hafa konur með í ráðum, veita þeim hvatningu og stuðning þannig að þær geti tekið frumkvæði um atvinnusköpun. Hér á landi er greinilegt að konur í dreifbýli og kannski alls staðar í landinu bregðast við byggðaröskuninni með því að leita nýrra leiða í atvinnurekstri.
    Það er ljóst að framtíð byggðarinnar hvílir að miklu leyti á konum og er þá átt við byggðina um allt landið. Hjá konum er að hluta til ónýttur forði hugmynda, orku og tilfinninga en það er ekki síst á því síðastnefnda sem baráttan gegn byggðaröskun byggir. Stjórnvöld virðast nær uppiskroppa með úrræði í atvinnumálum landsbyggðarinnar. Hver sú stefna sem tekin hefur verið í þeim málum hefur, að því er virðist, stuðlað að enn meiri byggðaeyðingu. Konur geta og verða sjálfar að marka stefnuna í eigin atvinnumálum. Ef nauðsynlegar forsendur eru fyrir hendi: fjármagn, stuðningur og fræðsla er möguleiki á að hrinda af stokkunum einhverjum verkefnum. En nauðsynlegt er að konur standi sjálfar fyrir því, ákveði hvað gert verður, nýti eigin hugmyndir og visku og taki sjálfar áhættuna sem því fylgir. Til þess að konur geti í raun orðið frumkvöðlar er nauðsynlegt að leggja konum til nokkurn fjárhagslegan stuðning. Eins og öllum er ljóst hindrar eignaleysi kvenna þær í að taka fjárhagslega áhættu. Þess vegna leggjum við kvennalistakonur til, í samræmi við hugmynd okkar um stofnun sérstakrar kvennadeildar við Byggðastofnun, að 40 millj. kr. verði varið sérstaklega til að gera átak í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Jafnframt leggjum við til að lögð verði fram 200 millj. kr. fjárupphæð til sérstaks tímabundins átaks í atvinnuuppbyggingu fyrir konur almennt. Ekki finnst okkur til of mikils mælst í þágu atvinnulífs íslenskra kvenna að lögð verði sama upphæð í það og kostar að veita einum karlmanni starf við nýtt álver.
    Það er mikilvægt að nú þegar verði snúið af braut atvinnuleysis. Það er ekki bara spurning um framfærslu einstaklinganna, því enginn veit hvað það vonleysi og það skipbrot sem sjálfsmynd hinna atvinnulausu bíður getur haft í för með
sér fyrir okkur öll í framtíðinni. Vænti ég þess því að þingheimur sjái sér fært að samþykkja þessar till. um sérstakt átak í atvinnumálum kvenna.
    Á fjáraukalögum fyrir árið 1989, eins og þau voru upphaflega lögð fram, var gert ráð fyrir 620 þús. kr. framlagi til UNIFEM, hjálparstarfs kvenna í þróunarlöndunum. Það var heldur dapurlegt að sjá að þetta var einn af þeim liðum sem meiri hl. fjvn. virtist sjá sem vænan sparnaðarkost fyrir ríkið. Ekki síst fyrir þá sök að mér er kunnugt um að fregnir um þetta fyrirhugaða fjárframlag íslenska ríkisins höfðu borist til aðalskrifstofu UNIFEM. Það þarf ekki að tíunda nauðsyn þess að aðstoða konur í þróunarlöndunum enda er það nú stefna þeirra landa sem fremst standa

í þróunarhjálpinni að beina hjálp sinni sérstaklega til kvenna.
    Ég vil einnig geta þess hér og nú að 18. des. sl. voru stofnuð stuðningssamtök við UNIFEM hér á landi. Þann dag voru 10 ár liðin frá þeim degi er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var undirritaður sáttmáli um afnám alls misréttis gagnvart konum. Hæstv. ríkisstjórn hefur greinilega fengið örlítið samviskubit eftir að hafa fellt framlagið til UNIFEM út úr fjáraukalögum þessa árs og ákveðið að veita 1 millj. kr. til samtakanna á næsta ári. Veit ég að þær krónur koma í góðar þarfir og munu verða nýttar vel eins og vænta má af konum. Við kvennalistakonur teljum eftir sem áður enga ofrausn að systur okkar í þróunarlöndunum fengju 20% af þeirri heildarupphæð sem ætluð er til þróunaraðstoðar við Sameinuðu þjóðirnar. Vonum við því að fyrst hæstv. ríkisstjórn hefur opnað hug sinn fyrir UNIFEM og þeirra mikilvæga starfi muni þingheimur treysta sér til að samþykkja þá upphæð sem við leggjum til, 3 millj. 198 þús. kr.
    Það er áreiðanlega óalgengt að jafn vel sé á málum haldið og hjá Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Á fjárhagsáætlun þeirra fyrir árið 1990 er aðeins gert ráð fyrir 2% hækkun rekstrargjalda milli ára, þ.e. frá árinu 1989 til 1990. Held ég að þar hljóti að vera um einsdæmi að ræða. Skilningur hæstv. ríkisstjórnar á dugnaði þeirra kvenna sem þarna starfa birtist okkur í fjáraukalögum þessa árs með því móti að framlag til Kvennaathvarfsins var lækkað um 1 millj. kr. Þær sækja um 70% rekstrarkostnaðar til ríkisins, afganginn fá þær frá sveitarfélögum eða með frjálsum framlögum ýmissa einstaklinga og samtaka sem styðja Kvennaathvarfið. Konurnar í Kvennaathvarfinu hafa sýnt að þær gera áætlanir sem standast og því teljum við rétt og skylt að ríkisstjórnin veiti þeim þá fjármuni sem þær gera áætlun um að viðbættri þeirri milljón sem hvarf af fjáraukalögunum. Þess vegna hefur upphæðin á þskj. 425 verið hækkuð upp í 11 millj. 864 þús. kr.
    Því miður hefur komið í ljós að tilvera Kvennaathvarfsins er nauðsynleg. Ég las upp nokkrar tölur hér um daginn þegar ég flutti þessar brtt. fyrst og þó hér séu fáir hv. þingmenn og ráðherrar viðstaddir þá held ég að ekki sé vanþörf á að lesa þær aftur.
    Það sem af er þessu ári hafa 156 konur leitað til Kvennaathvarfsins með börn sín, jafnmargar og þangað leituðu allt árið í fyrra. 30% kvennanna komu frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Það er ljóst að ofbeldi fer vaxandi og það er einn svartasti bletturinn á þjóðfélagi okkar. Á síðasta ári hringdu 200 manns til Kvennaathvarfsins til að biðja um upplýsingar og aðstoð. Fólk spyr um sifjaspell, kvennaráðgjöf og allt mögulegt. Flestir hringja bara til að fá ráð og huggun. Nú í ár hafa 794 hringt í þessi svokölluðu stuðningssímtöl á móti þeim 200 sem nutu símaþjónustunnar í fyrra. Þetta segir sína sögu um ástandið í þjóðfélaginu og viðhorfið gagnvart konum og börnum. Við vitum að á erfiðum tímum í

efnahags- og atvinnulífi eins og nú ríkja má því miður búast við því að ofbeldi færist enn í vöxt.
    Fram hefur komið í samtölum við starfskonur í Kvennaathvarfinu að þær telja brýna nauðsyn bera til að auka aðstoð við barnahópana í athvarfinu svo og forvarnarstarfið. Samtök kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi standa fyrir og skipuleggja fræðslu, upplýsingar og ráðgjöf varðandi kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum. Þær hafa hug á að opna ráðgjafarmiðstöð til að auka nauðsynlega þjónustu sína. Þess vegna er till. okkar frá 2. umr. óbreytt, hún er jafnnauðsynleg nú og þá og leggjum við til að til starfsemi samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi verði lagðar fram 11 millj. kr.
    Síðasta till. sem við flytjum á þskj. 425 tengist þáltill. Kvennalistans sem samþykkt var í lok síðasta kjörtímabils en í henni er sérstök áhersla lögð á fræðslu fólks á aldrinum 15--19 ára um kynlíf og barneignir. Till. tengist reyndar líka lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Við höfum á ári hverju lagt til að sú upphæð sem til þessa starfs er ætluð verði hækkuð vegna mikillar og brýnnar þarfar fyrir hana.
    Ég vil aðeins vekja athygli á því að félagsráðgjafar og sálfræðingar sem ræða við börn og unglinga um þessi mál hafa furðað sig á því hversu vanþekking þeirra er í raun og veru mikil. Það væri örugglega hægt að draga úr útbreiðslu kynsjúkdóma af ýmsu tagi og eyðni auk þess sem vænta má að minna yrði um ótímabærar þunganir og svo mætti fækka fóstureyðingum ef stjórnvöld sæju skynsemina í því að efla þessa fræðslu.
    Ég vil að lokum aðeins benda á að þær till. sem við flytjum kosta ríkissjóð samtals 272 millj. 137 þús. kr. Þær till. sem hafa verið fluttar hér á milli umræðna frá 1. umr. fjárlaga þar til nú eru upp á tæpa 2 milljarða. Öll vitum við hvernig fór með áætlanir þessa árs, bilið varð 8,8 milljarðar. Af þessum tölum má sjá að aðeins er hér um dropa í hafið að ræða. Vona ég að þingheimur beri gæfu til þess að samþykkja þessar till. sem allar varða málefni kvenna og eru mjög nauðsynlegar. Ég hef lokið máli mínu.