Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég neyðist nú til þess að flytja hér þrjár brtt. í sambandi við fjárlög af þeirri ástæðu sem nú skal greint.
    Fyrsta brtt. er við 4. gr. um Háskólann á Akureyri, að í staðinn fyrir 63 millj. 338 þús. komi 80 millj. 338 þús. Önnur till. er við 4. gr., Leikfélag Akureyrar. Í staðinn fyrir 12 millj. 720 þús. komi 27 millj. 720 þús. Leikfélagið á Akureyri telur sig þurfa upp undir 40 millj. ef það eigi að geta haldið starfsemi sinni áfram. Það er því um að ræða að hækka þessa fjárhæð sem er hér í tillögum hv. fjvn. eða loka leikhúsinu. Og ég get ekki farið norður fyrir fjöll öðruvísi en þó að hafa gert tilraun til þess að fá leiðréttingu á þessum lið. Það er verið að tala um mikinn styrk og endurbætur á Þjóðleikhúsinu en þannig er nú litið til okkar Eyfirðinga. Ef þessi tillaga stendur eins og hún er verður að loka. Og þó að mér þyki það ekki gaman að standa hér og koma með slíkar tillögur sem þessar er enn þá verri kostur að gera það ekki.
    Í þriðja lagi er hér brtt. við 4. gr., nýr liður: Til háhitarannsókna og könnunar á uppstreymi lífræns gass í Öxarfirði, 10 millj. Það er dálítið merkileg saga í sambandi við tilraunirnar á háhitasvæðinu í Öxarfirði. Fyrir tveimur árum flutti formaður þáv. fjvn., Pálmi Jónsson, tillögu hér á þingi sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Tekinn verði upp nýr liður, 10 millj. kr., sem tengist sérgreindu verkefni við upptöku sjávar fyrir fiskeldi, þar á meðal vegna slíkra rannsókna í Öxarfirði.``
    Það kom ekki króna af þessu fjármagni til þessa verkefnis. Ef það hefði verið hér í kringum Reykjavík er ekki vafi hvert það hefði farið. Það stendur þannig á í Öxarfirði að þar á byggðin í miklum örðugleikum og tvísýnt er um nema fækki þar verulega. Í skýrslu frá Orkustofnun kemur fram það sem þeir lögðu til, að það þyrfti að bora þarna 500--1000 metra djúpa rannsóknarholu. Í dag, þegar ég fór að athuga póstinn minn, var þar bréf frá héraðsnefnd Norður-Þingeyinga undirskrifað af sýslumanni þar sem skorað er á þingmenn, fjvn. og Alþingi að verða við þessari beiðni. Og það er enn þá merkilegra að í fjárlögum þessa árs var merkt í þessar rannsóknir 1 millj. 150 þús. Því hefur ekki verið skilað og það fæst ekki.
    Þar sem er svona naumt með tíma og ég var búinn að heita að tefja hér ekki fund verð ég að láta þetta duga. En ég er með ýmis plögg hér fyrir framan mig sem sýna og sanna stöðu þessara mála og þá þróun sem hefur orðið í þessum málum. Og ég verð nú að segja það að ég er undrandi á hv. fjvn. og formanni fjvn. hvernig hann hefur staðið að þessu máli, bæði með tillöguflutningi og í umræðum hér á hv. Alþingi.