Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 22. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Á fund nefndarinnar komu Ari Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandinu, Snorri Olsen, Maríanna Jónasdóttir og Bolli Þór Bollason frá fjmrn. Einnig þeir Ævar Ísberg og Steinþór Haraldsson frá ríkisskattstjóra, Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Björn Ólafsson og Hilmar Thorarensen frá Sigtúnshópnum.
    Í nefndinni spunnust nokkrar umræður um það hvort vaxtabótakerfi eða núverandi vaxtaafsláttarkerfi kæmi betur út fyrir tekjulægri hópana í þjóðfélaginu. Hagdeild fjmrn. lagði fram útreikninga um þetta efni og eru þeir útreikningar lagðir fram sem fskj. með þessu nál.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru á því í Nd.