Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Á þskj. 443 gerir 2. minni hl. grein fyrir afstöðu sinni. Þar sem það er örstutt ætla ég, með leyfi forseta, að lesa það upp:
    ,,Nefndin hefur haft skamman tíma til að fjalla um málið en þó reynt að afla upplýsinga bæði frá embættismönnum og öðrum viðmælendum nefndarinnar. Frv. er annar veigamesti þáttur hinnar margþættu skattránsherferðar sem vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar herðir nú á hendur borgurum þessa lands og atvinnufyrirtækjum. Hinn þátturinn er virðisaukaskatturinn. Samhliða þessu skattráni eru svo lagðir minni baggar á þjóðina hvarvetna þar sem því verður við komið. Eins og að líkum lætur hefur þessi skattastefna mjög verið í þjóðmálaumræðunni en stjórnarherrar verið rökheldir, enda tókst þeim að styrkja valdastöðu sína á Alþingi og láta því kné fylgja kviði. Kom það glöggt í ljós við afgreiðslu málsins í Nd.
    Annar minni hl. telur því ljóst að tilgangslaust sé að flytja fjölda brtt. og ber því aðeins fram tvær tillögur á sérstöku þskj.
    Á sama hátt er tilgangslaust að skila ítarlegu nál. en vitnað er til vandaðs nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. Álit minni hl. hefur komið fram í margvíslegri umfjöllun skattamála utan þings og innan síðustu vikurnar og verður nánar skýrt í umræðum.``
    Raunar hyggst ég ekki skýra það neitt nánar, ég held að það sé öllum ljóst að við erum andvígir þessum sífelldu skattahækkunum og þá ekki síst þessari sem hér er til umræðu og skal því ekki nota dýrmætan tíma heldur eingöngu vitna til fyrri orða minna og annarra hv. þm. Sjálfstfl.