Virðisaukaskattur
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Eins og ræða hv. 3. þm. Vesturl. bar með sér er virðisaukaskatturinn mjög illa undirbúinn. Það er verið að breyta frv. fram á síðustu stundu og ekki nóg með það heldur var því líka breytt í frv. til lánsfjárlaga. Jafnvel í því frv. var sett inn ein setning þar sem segir ,,þrátt fyrir lög um virðisaukaskatt`` og síðan er sagt að ekki sé búið að gera það enn upp við sig hvort það verði veittur greiðslufrestur í tolli. Þó svo það hafi mjög mikil verðlagsáhrif fyrst í stað og óheppileg áhrif alla vega séð þá hefur hæstv. ráðherra ekki enn gert það upp við sig hvernig hann hagar sér í því máli. En þetta er eins og annað: Þetta er illa undirbúið, þinginu til vansæmdar.
    Ég tók eftir því í sjónvarpi að það var haft eftir hæstv. forsrh. að umræður hér í Alþingi hefðu verið til vansæmdar. Það sem er þinginu mest til vansæmdar er stjórn hæstv. forsrh. á ríkisstjórninni og framganga einstakra ráðherra hér í þingsölum. Illa undirbúin mál sem koma á síðustu stundu og ef spurt er út í það hvernig framkvæmdin eigi að vera þá segja ráðherrar hvorki eitt né annað. Og það litla sem þeir segja er vafasamt að standist, þannig að það er ekki fallegt upplit á þessu, herra forseti.