Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir nál. um frv. til laga um veiðieftirlitsgjald, komið til okkar frá Nd. Það má segja að hið sama á við um þetta mál eins og það sem við vorum að afgreiða hér rétt áðan um almannatryggingar, að nefndin hafði mjög skamman tíma til þess að ræða málið. Ég get hins vegar tekið undir það og mér er bæði ljúft og skylt að staðfesta það sem fram kom í máli hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttur hér áðan þar sem hún gat um samstarf í nefndum þingsins. Ég get staðfest að það hefur verið gott og þar ætla ég ekki að undanskilja stjórnarandstöðuna sem ég hef átt hið besta samstarf við í afgreiðslu mála hér. En það er alltaf vandamál þegar mál koma hér seint fram og við erum í hálfgerðu tímahraki. En ég veit nú betur, ég veit að þingmenn gera sér far um að kynna sér þessi mál, ekki bara í þingnefndinni heldur veit ég að menn hafa fylgst með umræðum um þessi mál og það er nauðsynlegt að það komi hér fram svo að menn álíti ekki að hér sé ekkert lesið. Menn fylgjast auðvitað með umræðum hér í þinginu og kynna sér gögn eins og þau koma hverju sinni frá þeirri deild sem fyrri er til að afgreiða þessi mál og ég veit að það á einnig við um þetta mál.
    Nefndin kallaði á sinn fund Árna Kolbeinsson til þess að svara fyrirspurnum
nefndarmanna og ég held að orðið hafi verið við öllum óskum manna um það efni. En í nál. segir:
    ,,Nefndin hefur rætt frv. Leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru í meðförum neðri deildar.``
    Undir það rita Stefán Guðmundsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Jóhann Einvarðsson og Guðmundur H. Garðarsson.