Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég sagði hér við 1. umr. að ég mundi ekki lengja störf þingsins vegna umræðu um þetta mál þó að mér fyndist það að mörgu leyti á þann veg að nauðsynlegt væri að það væri gert. Ég get nú ekki annað sagt en að ég hugsi út í það hvort ekki væri eðlilegt að gera það eftir að maður heyrir að ákveðnir menn úr stjórnarliðinu ræða við þingmenn sem ekki voru líklegir til að styðja þetta mál á þann veg að ekki muni verða staðið að öðrum málum sem fram verða lögð í þinginu ef þetta mál verði ekki stutt hér. Slík vinnubrögð eru náttúrlega á þann veg að það hvetur til þess að ekki sé staðið við þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar í sambandi við störf þingsins. Mér finnst þetta svo fráleitt og langt frá því að vera í tengslum við þá samninga sem hér hafa verið gerðir, að menn megi ekki ganga til starfa hér í þinginu nú á síðustu stundum á eðlilegan máta, án þess að hér séu einhverjar ógnanir og þvinganir um það að önnur mál, sem þessu eru algjörlega laustengd, nái ekki fram að ganga á eðlilegan hátt.
    Ég mun, þrátt fyrir það að þannig sé unnið af því liði sem er að þrýsta þessu máli hér í gegn, standa við þau loforð sem þingmenn hafa gefið um það að lengja ekki hér mjög umræður. En svona vinnubrögð eru ekki á þann veg að það sé til að hvetja til þess að menn standi við það sem þeir hafa lofað.
    Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt til þess að allir hv. deildarþingmenn geri sér vel grein fyrir því hvað þeir eru að samþykkja að ég lesi hér úr ræðustól deildarinnar skýringarnar við 1. gr. frv. Ég efast svo sem ekkert um að hv. þm. allir hafi lesið þetta og gert sér mjög vel grein fyrir því hvað þeir væru að samþykkja, lesið þetta frv. aftur og fram og til baka, sjálfsagt ekki síst þingmenn Sjálfstfl. hver og einn, en með leyfi forseta ætla ég að lesa þessar skýringar.
    ,,Samkvæmt lögum nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, ákveður fjmrh. gjöld fyrir veiðileyfi með sama hætti og önnur leyfisgjöld. Gjöld þessi renna í
ríkissjóð og námu u.þ.b. 6,3 millj. kr. á árinu 1988. Með þessari grein er lagt til að það verði sjútvrh. er ákveði þessi gjöld og að þau renni ekki ósérgreind í ríkissjóð heldur verði sérstaklega ætluð til að standa undir rekstri veiðieftirlits sjútvrn. Skal ráðherra miða ákvörðun um fjárhæð gjaldsins við að hún standi að fullu undir kostnaði við veiðieftirlitið. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að 57 millj. kr. þurfi til þessa viðfangsefnis. Samkvæmt þessu þurfa heildartekjur af veiðileyfisgjöldum rúmlega að nífaldast frá því sem var á sl. ári.``
    Hér er átt við þá upphæð sem var í frv. upphaflega, en sem hefur verið lækkuð í hv. Nd.
    Í þessu frv. er sem sagt lagt til að skattavaldið og ráðstöfunarvaldið yfir ákveðnum sköttum verði ekki í fjmrn. og ekki á Alþingi heldur í ákveðnu fagráðuneyti. Tekjurnar sem hér er lagt til að verði innheimtar eru til ákveðinna þátta ráðuneytisins sjálfs en ekki stofnana þess. Þetta er alger nýlunda í íslenskum lögum og brýtur allar hefðir. Ýmsir þættir

stjórnkerfisins eru á þann veg að stofnanir tengdar ráðuneyti starfa á svipaðan hátt og veiðieftirlitið. Þar getum við nefnt brunaeftirlit og þar getum við nefnt Fiskifélag Íslands og ýmsar aðrar stofnanir, en þær eru að vissu leyti algjörlega óháðar og eru ekki hluti af ráðuneytinu sjálfu.
    Hér er verið að búa til skattstofn sem á að auðvelda ráðuneytinu, framkvæmdarvaldinu sjálfu, að auka starfsemi sína, þvert á það sem annars staðar á sér stað og þvert á þá umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu.
    Ég vil undirstrika það að andstaða mín gegn þessu frv. byggist fyrst og fremst á þessum þáttum.
    Hugsið ykkur það að landbrn. tæki sig nú til og byggi til einhvern skatt á svipaðan máta og þennan, tæki skatt af hverjum kjötskrokki og hverjum mjólkurlítra og gjaldið færi inn í landbrn. og síðan yrði því ráðstafað þar beint af ráðherra. Þó að það ráðuneyti hafi að mörgu leyti staðið sig mikið betur en sjútvrn. held ég að ég mundi ekki treysta því ráðuneyti til slíkra hluta. ( Gripið fram í: Hvaða ráðuneyti?) Landbrn. ef það fengi að leggja á einhverja sérskatta. Og jafnvel þó að menntmrn. fengi heimild til þess að leggja á sérskatta sem rynnu beint til þess --- ég mundi ekki treysta því til þess. Til þess að stækka það miðstýringarapparat sem ráðuneytin eru og hljóta alltaf að vera.
    Þetta er grundvöllur andstöðu minnar við frv. Það stangast beint á við þá þróun sem á sér stað hér á Íslandi í löggjöf og það stangast alveg gjörsamlega á við það sem er að gerast í hinum stóra heimi. Þar er alls staðar reynt að draga úr valdi framkvæmdarvaldsins, reynt að draga úr því að framkvæmdarvaldið hafi fjármagn sem það getur ráðstafað án þess að spyrja einn eða neinn um, eða spyrja löggjafarþingið um.
    Við sáum það reyndar hér í gær að ráðherrar núv. ríkisstjórnar höfðu farið þó nokkuð mikið fram úr fjárlögum á síðasta ári og það var samþykkt í gær að gera þessar aðgerðir þeirra löglegar með því að samþykkja fjáraukalög. En það
þarf ekki fjáraukalög ef viðkomandi fagráðherrar ráðstafa þessu eða hinu fjármagninu frá skattheimtunni í þessa eða hina áttina. Aðeins þetta ákveðna þak í þessu frv. skammtar þeim skattheimtuvaldið.
    Það skal undirstrikað að í meðförum Nd. breyttist þetta frv. þó nokkuð mikið og á þann hátt að í staðinn fyrir 0,5% skattstofn var þetta lækkað niður í 0,2%. Eðli frv. breyttist ekki neitt. En látið þið ykkur detta það í hug, þó að nú á síðustu dögum þingsins hafi tekist að ýta niður þessari prósentutölu, að henni verði ekki lyft upp eftir stuttan tíma? Ekki fyrir mjög löngu síðan var lagt niður allt bifreiðagjald. Bifreiðar skyldu vera svo gott sem skattfríar í sambandi við þjónustustofnanir ríkisins. Hvað er að gerast og hvað var að gerast hér í hv. deild í dag? Var ekki verið að hækka þetta og nota þetta gjald einn ganginn enn sem beinan skattstofn fyrir ríkið? Hvað halda hv. þm. að verði í sambandi við þetta gjald, veiðileyfagjaldið? Það verður ekki 5% eftir

stuttan tíma, það verður jafnvel mikið hærri tala.
    Ég lofaði því að eyða ekki löngum tíma og ég skal stytta mál mitt.
    Virðulegur ráðuneytisstjóri úr sjútvrn. mætti á fund okkar nefndar og upplýsti okkur um einstök atriði í sambandi við þetta frv. og það sem ráðuneytið hefur umleikis í veiðieftirlitinu. Í fyrsta lagi upplýsti hann það að í staðinn fyrir að núna eru 17 veiðieftirlitsmenn við störf hygðist ráðuneytið fjölga þeim í 21. (Gripið fram í.) Um fjóra. Ja, það er svona um 25%, það er nú ekki meira en það, þannig að ég sé nú ekki þá nauð sem rekur til að nú sé endilega farið að ganga í það á síðustu dögum þingsins að búa til þennan skatt til að standa undir launum þessara fjögurra manna. Breytingin átti ekki að vera önnur. Það kom aftur á móti í ljós að það er verið að hugsa um ýmsa aðra hluti í því háa ráðuneyti. Það er verið að hugsa um að breyta eftirliti sjútvrn. í sambandi við fiskveiðar í landinu. Það er þegar búið að gefa út myndarlega reglugerð um vigtun á sjávarafla þar sem margir góðir hlutir eru í. En ráðuneytisstjórinn upplýsti það að þegar þetta kerfi, vigtunarkerfið, verður tekið í notkun, ekki reyndar á næsta ári, þá muni það kosta svona 10--15 millj. að koma því af stað. Það verður þá lítið þessi 0,2% sem við erum að tala um núna til að standa undir þessu. Og þegar þingmenn Sjálfstfl. og þingmenn Alþfl. lýsa því yfir að sjávarútvegurinn eigi sjálfur að sjá fyrir þessu eftirliti öllu saman, þá er ég ansi hræddur um að þessi prósenta eigi eftir að hækka pínulítið.
    Mér er reyndar sagt af mönnum sem þekkja þetta mál dálítið vel, þetta vigtarmál þeirra í ráðuneytinu, að það verði ekki 10--15 millj., heldur verði þetta 150--200 millj. uppkomið. Við erum að undirbúa núna á þessum síðustu stundum þingsins skattlagningu til að standa undir þessu kerfi. Undir þessu apparati sem af mörgum er talið algjörlega óþarft og hugmyndir þess að vissu leyti fjarstæðukenndar. --- Ég held ég þurfi nú að endurtaka þetta fyrst hæstv. fjmrh. er kominn hér inn. --- Ég var að skýra frá því, hæstv. fjmrh., að það var upplýst á fundi í sjútvn. að í viðbót við það að sjútvrn. hyggst fjölga aðeins um fjóra menn í veiðieftirliti hjá sér og ég hafði þau orð að það mundi ekki verða erfitt að sjá fyrir aurum til að standa undir launum þeirra og þyrfti nú varla nýja lagasmíð til þess, en það gæti verið að það héngi fleira á spottanum. Ráðuneytisstjóri sjútvrn. upplýsti m.a. í sambandi við nýútgefna reglugerð um vigtun sjávarafla að ekki á næsta ári heldur því þarnæsta mundi þurfa að ráðstafa 10--15 millj. til að undirbúa það mál. Ég var að segja hv. þm. að þessi 0,2% sem hér er fjallað um væru sjálfsagt fyrsta skrefið í skattlagningu til að standa undir þeim 10--15 millj. sem ráðuneytið upplýsti að til þyrfti. Og þá verði kannski þessi prósenta orðin dálítið hærri en hér er verið að fjalla um. Svipað, hæstv. ráðherra, eins og var um bifreiðagjaldið. Okkur var sagt það hér fyrir tveimur árum að bifreiðagjaldið væri skattstofn sem væri fallinn út, við þyrftum ekki að óttast hann lengur. Ég var ásamt öðrum þingmönnum og stuðningsmönnum

ríkisstjórnarinnar að samþykkja núna hækkun á bifreiðaskatti. Skyldi ekki væntanleg ríkisstjórn og væntanlegir þingmenn, kannski sumir af þeim sem hér sitja, standa frammi fyrir því að hækka þennan skatt sem nú er lagt til að samþykktur verði hér?
    En ég er ekki kominn að lokaorðunum í sambandi við væntanlegan kostnað sjútvrn. í þessu miðstýringarapparati sínu. Mér er sagt af kunnugum mönnum að þessi vigtunaruppbygging ráðuneytisins muni ekki kosta 10--15 millj., hæstv. ráðherra, heldur muni þetta kosta 150--200 millj. Það gæti nú farið svo --- það er það langur tími þar til þetta kerfi á að koma upp --- að núv. ráðherrar verði kannski ekki lengur í ríkisstjórn, en það er eins og fleira sem er ýtt fram yfir næstu kosningar. En hér er verið að stíga fyrsta skrefið til þess að búa til sjálfstætt skattkerfi, sjálfstæða innheimtustofnun til að velta utan á sig í hið óendanlega.
    Einnig upplýsti ráðuneytisstjóri í sambandi við þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. --- það var breytt stöðu smábáta --- að væntanlegir leyfishafar miðað við það sem er í umræðu --- nú vil ég undirstrika að er í umræðu, er ekki einu sinni í frumvarpsformi heldur er í umræðu í samráðsnefndinni um fiskveiðistjórn næstu ára --- að öll veiðiskip hafi
veiðileyfi, þá fjölgi þessum bátum, sem eru með bein veiðileyfi og þurfa þar af leiðandi að borga veiðileyfisgjald, úr 600 og upp í 1500.
    Ég óska nú sérstaklega fulltrúa valddreifingarinnar hér á hv. Alþingi, Kvennalistanum, til hamingju með það að standa að því að undirbúa sérstaka skattlagningu á þennan hóp manna í landinu.
    Ég er rétt að ljúka máli mínu. Þó vil ég kannski aðeins ítreka að mér finnst að þeir ágætu flokkar hér á Alþingi, Alþb., Alþfl., Framsfl., Borgfl. vera að snúa svolítið upp á stefnu sína með því að styðja þetta frv., aukið miðstýringarvald, aukið vald framkvæmdarvaldsins. Ég hélt að við í Alþb. hefðum nú algjörlega slitið og skorið á þennan örmjóa streng sem enn þá tengdist austur í miðstýringuna þegar við sögðum skilið við Husak 1968 og vildum frekar styðja Dubcek. En svo virðist sem við ætlum að reyna að hanga í stuðningi við Husak þótt búið sé að ýta honum út úr kerfinu þarna austur frá og flokkur okkar virðist hafa litla samúð með þeim sem eru að brjótast til nýrra stjórnarhátta þar austur frá. Alveg það sama er með vini mína í Alþfl. Ég veit ekki betur en sá mikli stjórnmálaleiðtogi Mitterrand gangi nú mjög duglega fram í því að breyta ýmsum þáttum í lögum í Frakklandi einmitt sem eru á þennan hátt að ýmsir aðilar hafa ákveðið skattvald til þess að standa undir hinum og þessum þáttum á svipaðan máta og hér er lagt til, burt séð frá þörf hins almenna þegns í þjóðfélaginu. ( SalÞ: Er ekki komið eitthvað sem kallast markaðssósíalismi?) Það er ýmislegt að ske skemmtilegt í Frakklandi en ég er ansi hræddur um að alþýðuflokksmennirnir mínir fylgist ekki með því sem er að gerast þar, þeir séu bara lokaðir inni í þessari ríkisstjórn, sem þeir eru hér í með Borgfl., Framsfl. og Alþb. Þeir fylgist bara ekki með því hvað er að

gerast. Alveg er eins með samvinnuhreyfingarmennina, að þeir telji nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið fái þetta aukna vald sem hér er verið að leggja til. Ég held að það sé bara ný pólitík. Það getur vel verið að það stafi af hinum miklu vinsældum sjútvrh. að mönnum þyki alveg nauðsynlegt að ganga frá þessu og gefa þjóðinni þessa jólagjöf núna og nýársgjöf til að staðfesta hinar miklu vinsældir ráðherrans. ( Gripið fram í: Má ég biðja ræðumanninn að endurtaka það sem hann sagði um þrýstinginn?) Um? ( Gripið fram í: Þennan þrýsting sem beitt hefur verið í þessu máli.) Já, ég þarf nú ekki, góður þingmaður, að endurtaka það. Þetta kemur allt í þingtíðindum og ég veit að ráðherra les ræður mínar alveg spjaldanna á milli um leið og þær birtast. ( Gripið fram í: Og sósíalismann.) Hæstv. ráðherra var viðstaddur þegar ég var að tala um þá félaga Dubcek og Husak og ég veit það að hæstv. ráðherra hefur aldrei viljað styðja að einu eða neinu sem þeir þarna austur frá hafa verið að gera né það miðstýringarvald sem þeir hafa sagst þurfa á að halda til þess að geta stjórnað sínum ríkjum. Og ég veit að hæstv. ráðherra er manna kátastur yfir þeirri þróun sem þar er að eiga sér stað. En ég hélt að hann mundi ekki verða stuðningsmaður að anga sem tengist þessari stjórnarstefnu og þessum vinnubrögðum sem þar áttu sér stað.
    Nú er ég að ljúka máli mínu, en rétt í lokin. Komið hefur fram frv. til laga, 249. mál, flutt af þingmönnum allra flokka í fjvn. nema Alþb. Þar segir í 1. gr.:
    ,,Greiðslu úr ríkissjóði má ekki inna af hendi nema heimildar til hennar sé aflað fyrir fram í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir hvert reikningsár, sbr. þó 8. gr. [þ.e. til ákveðinna þátta].
    Á sama hátt eru hvers konar samningar, sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, stofnanir ríkisins og fyrirtæki, umfram heimildir fjárlaga fyrir hvert reikningsár, óheimilir nema að fenginni heimild í fjáraukalögum, enda sé ekki á annan veg mælt fyrir í lögum þessum eða öðrum lögum.``
    Þetta frv. er tilkomið af þeirri umræðu sem er í þjóðfélaginu og er hér á hv. Alþingi um það að framkvæmdarvaldið sé að taka sér síaukið fjárveitingavald í hendur. Ég vænti þess að þó að fulltrúi Alþb. í fjvn. sé ekki flm. þessa frv. þá muni þetta mál fá eðlilega og góða (Gripið fram í.) --- fyrirgefðu, góði þingmaður. Ég áttaði mig nú ekki á því að hún er sjálfsagt stuðningsmaður þess alveg eins og Egill Jónsson, hv. þm. Sjálfstfl., er væntanlega stuðningsmaður þess líka, en getur ekki verið á frv. vegna þess að það er flutt í Nd. Ég biðst afsökunar á þessu að ég var að lýsa yfir skoðunum hv. þm. án þess að það væru raunverulega rök fyrir.
    Þetta frv. hér stangast gjörsamlega á við það sem verið er að leggja til í frv. um veiðieftirlitsgjald og svo er um alla umræðu í þjóðfélaginu, jafnt valddreifingarumræðu sem aðra. Þetta frv. stangast á við eðlilega stjórnmálalega og fjárhagslega þróun í þjóðfélaginu og næstum því um víða veröld, reyndar

þó ekki á vissum svæðum þar sem miðstýringarvaldið ræður enn þá.