Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það þykir mér nú verst ef það fer eitthvað í taugarnar á hv. formanni sjútvn., vini mínum Stefáni Guðmundssyni hvað mér liggur hátt rómur og hann ímyndi sér það að sjónvarpið fari eitthvað sérstaklega að stilla sínum lömpum út frá því hvað ég hef hátt, hvað ég stilli mín raddbönd á þennan eða hinn styrkinn. Það vona ég að sé hinn mesti misskilningur, Stefán.
    En ég ætla ekkert að fara að ræða frekar um það sem ég sagði hér í upphafi ræðu minnar áðan. Það stendur óhaggað og menn taka það eins og það var þar sagt.
    Ég vil segja það við hv. 6. þm. Vesturl. að ég fann ekki í þessu frv. --- og það getur nú verið að þá hafi ég ekki lesið frv. nógu vel --- að það sé ætlast til þess að það standi undir einhverju námi í sjávarútvegsfræðum eða þess háttar. Þá eru kannski allir hlutir leystir í sambandi við Háskólann á Akureyri með því að láta bara sjútvrn. skattleggja á þann veg. ( DS: Þingmaðurinn verður að lesa ræðuna.) Ég geri það náttúrlega alltaf, les ræður hv. þm. mjög gaumgæfilega og tek eftir öllum valddreifingartillögum sem þar koma fram. Þá skil ég heldur ekki þá kenningu og það hugsa ég nú að margir geri ekki, og ég held að það sé ekki almennt útskýrt á þann veg að það sé valddreifing að auka sjálfstæði ráðuneyta. Ég held að það hafi ekki verið valddreifing þarna fyrir austan tjald í því kerfi sem þar er að brotna niður þegar innanríkisráðuneytin voru efld. Ég held að það hafi nú frekar verið á hinn veginn. Og ég held að umræðan yfirleitt, eins og ég sagði hér áðan, í þjóðfélaginu og um heim allan sé á þann veg að ráðuneytin eigi að hafa takmörkuð völd, takmörkuð völd sem séu mjög takmörkuð af löggjafarþingunum. Ég held þess vegna að þær kvennalistakonur sem alltaf standa saman í öllum málum og lýsa yfir að við kvennalistakonur gerum þetta o.s.frv., þær ættu að huga að þessari útleggingu sinni svolítið betur áður en þær greiða atkvæði.
    Ég verð víst að endurtaka þetta vegna þess að hv. 6. þm. Vesturl. er í öðrum störfum og er að vinna í málum í Nd. (Gripið fram í.) Ég ætla að upplýsa það að ég held að umræða í okkar þjóðfélagi og umræða víða um heim sé á þann veg, hv. þm., að það sé nauðsynlegt að draga úr völdum og styrkleika ráðuneyta og að þau verði í einu og öllu að fella sig undir löggjafarþingin og taka tillit til þess sem þar er samþykkt. Það sé öfughátturinn í valddreifingu að auka styrkleika ráðuneyta. Ég nefndi það sem dæmi að ég held að þeir þarna fyrir austan hafi komist að því m.a., maður nefnir náttúrlega versta ráðuneytið, að það hafi nú ekki verið til að auka valddreifingu að auka vald þeirra innanríkisráðuneyta. Í lokin vil ég segja, virðulegi 6. þm. Vesturl.: Ég ber ekki alltaf sérstaka virðingu fyrir því þegar hv. þm. Kvennalistans koma í ræðustól hvort sem það er í Sþ., hér í deild eða á fundum vítt og breitt um landið og segja: Við kvennalistakonur höfum nú þessa skoðun.

Ég man ekki eftir því þó að ég sé búinn að vera félagi í þessum vinstri sinnuðu samtökum sem heita Alþb., þar á undan Sósíalistaflokknum --- ég var nú það ungur þegar Kommúnistaflokkurinn var til að þar var ég aldrei félagi --- en ég man aldrei eftir því að ég hafi þurft að taka mér í munn að segja: Við í Sósíalistaflokknum, við í Alþb. og að ég gæti talað fyrir allan hópinn með einni skoðun. Ég held að þetta sé úrelt hugsun, löngu úrelt hugsun, sem betur fer, að ein manneskja geti staðið í ræðustól á þessum eða hinum vettvanginum og tilkynnt það að hún sé að tala í nafni heilla samtaka að öllu leyti. Vitaskuld getur viðkomandi aðili talað fyrir einhverri ákveðinni samþykkt sem þessi samtök hafa gert, en þegar það er alhæft að það sé talað í nafni þessa eða hins flokksins og flokksmannanna, það finnst mér vera langt frá því að heita það sem þessi ágæti flokkur er að tala um valddreifingu eða lýðræði, það er allt annað, það er miðstýring á hæsta stigi. Það er þetta sem við þurfum að hverfa frá, við erum að ræða almennt um það sem við viljum hverfa frá og það er þetta sem þeir eru sem betur fer að hverfa frá, hvert ríkið á fætur öðru fyrir austan tjald. Sem betur fer. Og þar er þetta að gerast með nokkuð friðsamlegum hætti nema í því andstyggilega ríki hjá Ceausescu. Og ég bið nú vegna friðarins, eins og hv. ræðumaður Stefán Guðmundsson nefndi hér áðan, við hljótum að enda þessa umræðu með miklum friði vegna þess að hverju stefnir.
    Ég legg nú til að Kvennalistinn taki sig til og taki ákvarðanir um það að hverfa frá sinni miðstýringu og sinni valdstýringu og leiti í friðarins einlægni að nýrri línu.