Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og ég gat um hér í ræðu minni í morgun, þá tel ég þetta mjög óeðlilegt mál svo að ekki sé nú sterkara til orða tekið. Það segir hér í upphafi 1. mgr.: Sjútvrn. skal með reglugerð ákveða sérstakt gjald, veiðieftirlitsgjald, og síðan segir að þetta gjald eigi að renna til reksturs eftirlitsins að hálfu og síðan er í 2. gr. talað um að gjaldið megi þó ekki vera hærra en 0,2% af áætluðu verðmæti afla sem viðkomandi veiðileyfi heimilar veiðar á. Það getur orðið drjúg upphæð og ef helmingurinn á svo líka að koma úr ríkissjóði. En þetta er nú ekki mergurinn málsins.
    Mergurinn málsins er sá að hérna er verið að fara algjörlega óeðlilega leið til skattlagningar, að eitt fagráðuneyti geti skattlagt þann atvinnuveg, sem ráðuneytið á auðvitað að starfa fyrir, algjörlega óháð vilja Alþingis og eigi sjálft að nota þessa peninga til að standa undir sínum rekstri. Hvaða ráðuneyti annað hefur slíkar heimildir? Þetta brýtur algjörlega í bága við stjórnskipun landsins. Þetta er mjög alvarlegt mál sem við erum að fjalla um hér. Ekki skatturinn. Við fáum alltaf einn og tvo á dag. Við erum alveg orðin þaulvön því að taka á móti nýjum sköttum. Þetta er brot á eðlilegri stjórnskipun að fela þetta einu ráðuneyti, kannski því valdamesta sem þegar er komið með ákveðið dómsvald fyrir í lögum, sem er mikil spurning hvort er ekki í bága við sjálfa stjórnarskrána.
    En það sem ég vildi segja er það að það er að sjálfsögðu Landhelgisgæslan sem á að annast eftirlit eins og hún hefur gert frá upphafi --- Guðmundur H. Garðarsson, getur þú talað svolítið lægra? ( GHG: Ég er bara að tala mig til.) Það er að sjálfsögðu Landhelgisgæslan sem á að annast eftirlit með því að ekki séu brotin lög innan landhelginnar og hún á að gera það jafnt í landi sem á skipunum. Það hefur hún gert frá upphafi. Landhelgisgæslan naut virðingar þjóðarinnar og hún gerir það nefnilega enn. En á einum stað nýtur hún engrar
virðingar og það er á Alþingi. Það er hneyksli hvernig ég og aðrir höfum vanrækt það að standa að fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar og ræða hennar málefni í okkar hóp. Við eigum að taka okkur tíma til þess og gera það eftir áramótin að ræða þetta mál og málefni Landhelgisgæslunnar og eftirlitsmálin almennt, og styrkja Landhelgisgæsluna sem sjálfstæða stofnun, þá einu réttu lögreglu í þessum málum.
    Sjútvrn. og sjútvrh. geta aldrei orðið lögregla í þessum málefnum. Þá værum við að sigla inn í lögregluríki. Þá ætti hvert ráðuneyti fyrir sig að hafa dómsvald eins og verið er að fela sjútvrn. æ ofan í æ og nú tekur steininn úr þegar það á að fá skattlagningarvald til að kosta sína eigin lögreglu. Það gengur ekki upp í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Og ég skora nú á forustumenn ríkisstjórnarflokkana, verst að hæstv. forsrh. er hér ekki, að draga þetta mál til baka. Um framgang þessa máls var aldrei samið. Það er verið að reyna að koma því í gegn núna án samkomulags. Það er brot á samkomulagi sem gert var að reyna að knýja

þetta mál fram. Þetta er alvarlegt mál og ég held að það væri mjög hollt fyrir alla að þetta mál yrði dregið til baka. Og ég skora nú á formann sjútvn. að reyna að beita sér fyrir því. Við getum tekið stuttan frest á meðan. En verði knúin fram atkvæðagreiðsla þá greiði ég að sjálfsögðu atkvæði gegn þessu með þeim aðvörunarorðum sem ég hef látið fylgja. Og ég vona að það geri fleiri, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta er mjög hættulegt fordæmi sem aldrei á að lögfesta.