Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu, en ég get ekki látið hjá líða að koma hér í ræðustólinn og lýsa --- ja, ég vil segja ánægju minni með málflutning hv. 4. þm. Vesturl., sem hann hefur hér haldið uppi í sambandi við þetta mál. Það hefur verið mjög athyglisvert og fróðlegt að heyra hans málflutning og ég verð að segja að það er gleðiefni að hann skuli vera að hverfa frá stefnu Alþb. og koma yfir á réttari og betri brautir.
    En eins og hér hefur komið fram þá er að líða að lokum þessa fundar. Mér skilst að neðri deild sé nú þegar búin að ljúka sínum störfum og menn séu þar búnir að kveðjast og gleðjast saman. Og það fer væntanlega að koma að því hér líka.
    Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þetta mál til þess að taka afstöðu með eða á móti. Þess vegna vildi ég láta það koma hér fram úr ræðustóli að ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þess hversu tíminn er skammur og eins og ég hef lýst hér fyrr í dag þá viljum við stjórnarandstæðingar hreint ekki tefja málin eins og komið er.