Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir nál. á þskj. 467. Nál. er afar stutt og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hafði lítinn tíma til að fjalla um málið. Efnismeðferð var því nær engin. Annar minni hl. stendur þó ekki gegn afgreiðslu málsins fyrir jólahlé.
    Fjárlög og lánsfjárlög fyrir árið 1990 einkennast af hallarekstri ríkissjóðs vegna útgjaldaþenslu eins og á þessu ári.
    Líkur benda til þess að lánsfjáröflun í ár gangi treglega og ríkissjóður verði að brúa bilið með erlendri lántöku í byrjun næsta árs. Horfur á næsta ári eru enn verri.
    Annar minni hl. mun taka afstöðu til einstakra greina frv., en situr hjá við málið í heild.``
    Undir þetta ritar ásamt mér hv. þm. Matthías Bjarnason, en við skipum 2. minni hl. fjh.- og viðskn.
    Það er kannski ástæðulaust fyrir mig að fara mörgum orðum um frv. sem hér liggur fyrir. Hæstv. ríkisstjórn veit auðvitað eins og minni hlutinn að hér er byggt á sandi. Sú ákvörðun var hins vegar tekin að afgreiða þetta mál fyrir jól sem er eðlilegt því að lánsfjárlög eiga auðvitað að fylgja fjárlögum á hverjum tíma. Sé flett í frv. og skoðaðar greinar, einkum og sér í lagi greinarnar frá 18. gr. og til 37. gr., má lesa þar þessar ,,þrátt fyrir``-greinar sem hv. Alþingi sendir frá sér ávallt þegar lánsfjárlög eru samþykkt. Þessar greinar eru e.k. syndaregistur þingsins og lýsa því að hv. þm. hafa samþykkt og lofað miklu meiru en þeir eru síðan menn til að standa við. Það væri vissulega efni til þess hér og nú að flytja ádrepu um þetta enn einu sinni, eins og svo margir hv. alþm. hafa gert, að benda á að nú sé kannski mál til komið að hætta því að samþykkja lög um markaða tekjustofna og önnur lögbundin ákvæði þess efnis að svo og svo miklir
fjármunir skuli renna til þessara og hinna verkefnanna á meðan stjórnarmeirihlutar á hverjum tíma geta ekki --- og vilja stundum ekki --- staðið við það sem stendur í lögum. Það mætti leggja út af þessu með margvíslegum hætti. Það er alveg ljóst að þetta eykur ekki traust á löggjafarstarfseminni, en ég ætla að láta það vera núna, aðeins að nefna örfá atriði sem mér finnst ástæða til að benda á.
    Mig langar til að benda á það að í 24. gr. er fjallað um Kvikmyndasjóð. Þar er um að ræða sömu tölu og var í lánsfjárlögum á yfirstandandi ári. Það kom í ljós í nefndinni að fulltrúi þaðan sagði að þar lægju umsóknir um 400 millj. kr.
    Þá langar mig til að minnast á 32. gr., en í þeirri grein er fjallað um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar er um að ræða skerðingarákvæði og ég vil lýsa því hér yfir að fulltrúar Sjálfstfl. munu greiða atkvæði gegn þessari grein og reyna að koma í veg fyrir að hv. stjórnarmeirihluti hér á þingi komi þessari grein í gegn.
    Þá kem ég að 35. og 36. gr. sem eru báðar á sama

meiði. Þetta eru greinar sem voru færðar inn í frv. í Ed. og fjalla um það að nú á í fyrsta skipti með þessum hætti að taka annars vegar fjármuni sem fengist hafa inn sem sóknargjöld og fleira, þ.e. samkvæmt lögunum frá árinu 1987, en eins og hv. alþm. muna urðu breytingar á lögunum með lögum nr. 91/1987 og enn fremur með lögum nr. 89/1987, og við þær breytingar var horfið frá því að leggja nefskatt á almenning vegna annars vegar kirkjugarðanna og hins vegar sóknargjaldanna. Það er ljóst að kirkjan og þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli hafa efnast nokkuð af þessum ástæðum þegar nefskattur var færður saman við aðra skatta í staðgreiðslukerfinu.
    Mér er sagt og það kom fram í nefndarstarfinu að klerkleg yfirvöld hafi haft samband við þau veraldlegu ( Gripið fram í: Andleg.) eða andleg yfirvöld getum við sagt, en við skulum taka svona til orða --- geistleg getum við líka orðað það ef við vildum verða virðuleg. Við skulum bara orða þetta beint, að þegar hæstv. dómsmrh. ræddi við biskup Íslands hafi verið skilningur af hálfu kirkjunnar á því að rýra þyrfti aðeins þessar tekjur kirkjunnar og þá hafi verið minnst á annars vegar 4% og hins vegar 10%. Síðan hækkaði þetta en tilkynning þess efnis barst ekki biskupi fyrr en eftir að sú breyting hafði átt sér stað í Ed.
    Nú er kannski lítið við því að segja að skerðingarákvæði séu aukin en í þessu tilviki finnst mér full ástæða til að nefna það atriði sérstaklega, að hér var um að ræða nefskatt sem lagður var á fólk. Síðan er horfið frá nefskattinum, hann er færður inn í almennu staðgreiðsluna. Svo þegar í ljós kemur að þarna safnast fyrir peningar, sem auðvitað eru heilmikil not fyrir, þá er sagt: Er nú ástæða til þess að vera að safna aurum í bankabækur á vegum þessara aðila? Er ekki betra að þeir skili einhverju af þessu aftur? Og þá kem ég að stóra atriðinu: Hverjum á að skila? Auðvitað segir hæstv. ráðherra: Það á að skila þessu í ríkiskassann. En ég segi: Hverjum á að skila? Það á auðvitað að skila fólkinu því sem af því var tekið. Það er algjört siðleysi
þegar það á sér stað að einu eða tveimur árum eftir að nefskattinum er breytt með þessum hætti og hann fellur inn í staðgreiðsluna skuli ríkissjóður taka þessa peninga til sín af því að honum finnst að of mikið hafi verið tekið af fólkinu í landinu. Næsta ár fáum við síðan kannski að sjá enn meiri skerðingarákvæði. Ég ætlaði nú að segja: Guð einn veit svo hvar það endar, en sjálfsagt vita fulltrúar ríkissjóðs það líka, a.m.k. ef þeir hafa lært eitthvað af reynslunni og telja að slíkar hækkanir muni eiga sér stað á hverju ári.
    Ég nefni þetta, virðulegur forseti, af því að ég held að formsins vegna og til þess að sýna þetta sé full ástæða til að flytja brtt. og færa þessar greinar í það horf sem um var rætt í upphafi við kirkjuna, en það voru 4% í 35. gr. og 10% í 36. gr. Það skal tekið fram að fulltrúi fjmrn. sagði frá því í nefndarstarfinu að tillaga dóms- og kirkjumrn. hefði verið eins og biskup sagði að milli þeirra hefði farið, ráðuneytismanna og hans, varðandi þau atriði sem ég

hef nú þegar nefnt. Þessi hugmynd þeirra er ekki fædd í kirkjumrn. heldur í fjmrn. og dettur manni þá í hug það sem maður hefur lesið, að það á ekki að rétta skrattanum litla fingur því þá tekur hann alla höndina. Nú má segja að ekki megi rétta skattinum litla fingur því að þá tekur hann alla höndina og ætti hæstv. dóms- og kirkjumrh. að læra af því.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta nál. Ég á von á því innan tíðar að verða tilbúinn með örfáar brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni um þessi atriði og einnig um 26. gr. sem ég hygg að hv. 1. þm. Vestf. muni fjalla um í sinni ræðu.