Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Í tilefni af ummælum sem forseti lét falla nú vil ég vekja athygli á því að verið er að afgreiða hér mál sem venjulega tekur marga mánuði að afgreiða. Það hefur verið til meðferðar á einum fundi í hv. nefnd og það er eðlilegt að þingmenn þurfi að tala. En einkum og sér í lagi vil ég benda á að það var formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem hér var að flytja ræðu og ég býst við að einhver þurfi að taka til máls til þess að svara þeirri ræðu a.m.k. Ég hvet því virðulegan forseta til þess, þegar hann beinir orðum sínum til manna um að stytta mál sitt, að byrja þá fyrst í heimahögum.