Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason flutti hér í sinni upphafsræðu ágæta hugvekju um lánsfjárlög, og ég er sammála hv. þm. að mörgu leyti. Það er ekki undarlegt þó að hv. þm. hafi á hornum sér ,,þrátt fyrir``-kafla þessara laga. Þar eru auðvitað vinnubrögð sem ekki eru til fyrirmyndar og eru hreint og beint til skammar. Það á auðvitað ekki að marka tekjustofna með þeim hætti sem hér er gert eða sem við höfum gert á undanförnum árum. Menn samþykkja af göfugmennsku og stórhug lagabálka sem síðan er ómögulegt að standa við. Þá er gripið til þess að setja ,,þrátt fyrir``-kaflann eða að skerða með ,,þrátt fyrir``-ákvæðum í lánsfjárlögum og það er náttúrlega ómöguleg aðferð. Ég held að ekki bara ríkisstjórn heldur stjórnarandstaða líka ættu að sameinast um það að reyna að breyta þessum lögum sem skert hafa verið, reyna að komast að samkomulagi um það að gera þær lagabreytingar sem gera ,,þrátt fyrir``-kaflann óþarfan. Ég segi að stjórnarandstaðan þurfi að taka þátt í þessu vegna þess að þessir lagabálkar eru tilkomnir á ýmsum tímum og flestir flokkar bera þar einhverja ábyrgð og er eðlilegt að reynt sé að skapa um það breiða samstöðu að breyta þeim lögum sem hér er um að ræða þannig að unnt sé að standa við þau. Það er alveg hárrétt hjá hv. 1. þm. Vestf. að svona vinnubrögð eru ekki góð.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði hér sögulega úttekt og fór yfir hver hefði fundið upp á því að skerða tekjur Ríkisútvarpsins vegna aðflutningsgjalda eða svipta útvarpið tekjum af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum og láta þá fjármuni renna í ríkissjóð. Það er að sjálfsögðu á allra vitorði að þá var fjmrh. í landinu Þorsteinn Pálsson og þetta var tekið upp í lánsfjárlögum 1987. En það er rétt að það komi fram að síðan hefur þetta ,,þrátt fyrir``-ákvæði verið við lýði og hv. 1. þm. Vestf. hefur setið í fjh.- og viðskn. deildarinnar síðan 1987 og sem
stjórnarsinni og meirihlutamaður mest af þeim tíma og samábyrgur um þessa tekjusviptingu Ríkisútvarpsins.
    Því miður hefur komið í ljós, herra forseti, að í frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 427, leynast villur, þ.e. það er ekki samræmi í því sem þar stendur prentað, í tveimur atriðum, og því sem fjvn. hefur ákveðið í brtt. sínum sem vonandi verða samþykktar hér á eftir. Þar af leiðir að þetta verður að leiðrétta og ég leyfi mér að bera fram skriflega brtt. sem að sjálfsögðu þarf afbrigða við til þess að þarna verði samræmis gætt. Ég er fús að kveðja fjh.- og viðskn. saman ef nefndarmönnum þykir það þurfa til þess að skoða þessar leiðréttingar, en mér sýnist sjálfum að kannski sé nú tæplega efni til þess því að hér er um augljósar leiðréttingar að ræða. Það er í fyrsta lagi við 23. gr. frv. til lánsfjárlaga. Þar stendur að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skuli framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi

nema hærri fjárhæð en 38,6 millj. á árinu 1990. Hv. fjvn. leggur til að þessum tölum verði breytt í 48,6 millj. kr. Þetta tel ég að þurfi að leiðrétta í frv.
    Við 30. gr. gerði hv. fjvn. einnig breytingu. Í frv. til lánsfjárlaga hljóðar hún svo:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra eigi vera hærra en 160.000 þús. kr. á árinu 1990.``
    Hv. fjvn. hefur lagt til, og ég geri ráð fyrir að tillaga hennar verði samþykkt hér á eftir, að hækka þessa tölu úr 160 millj. upp í 205 millj. og þar af leiðir að óhjákvæmilegt er að leiðrétta þessa tölu í lánsfjárlögum þannig að samræmis sé gætt.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram skriflega brtt. sem er of seint fram komin og þarf að sjálfsögðu afbrigða við.