Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég hygg að ekki séu nema 18 klukkutímar liðnir frá því að fundi fjh.- og viðskn. hv. Nd. lauk. Nefndarmenn, og meira að segja maður úr stjórnarliðinu, voru með tillögur. Þá svaraði formaður nefndarinnar því til að ekki kæmi til greina að breyta neinu í frv. frá því sem það lægi fyrir frá Ed. Þessi stjórnarliði varð að láta sér lynda að ekki kæmi til greina að gera breytingar og tefja þannig afgreiðslu þessa máls þannig að það þyrfti að fara til Ed.
    Nú kemur þessi sami hv. formaður fjh.- og viðskn. með tvær brtt. sem hefði verið auðvelt að fá afgreiddar í nefndinni í gær að mínum dómi. Það er ekki talað við einn einasta mann í nefndinni um tillögurnar, ekki einu sinni stjórnarliða. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? ( Gripið fram í: Þetta er eins og þeim er líkt.) Er þetta yfirhandbendi ríkisstjórnarinnar orðið einrátt hér á Alþingi? Hingað til hefur nefndarmönnum verið sýnd sú kurteisi að sýna þeim tillögur sem á að flytja við síðustu umræðu máls. Það er víst búið að breyta því og hverfa frá öllu sem heitir að viðhalda þingræði og virða það.