Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Jón Bragi Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Þessi brtt. er væntanlega flutt í tilefni samnings sem Háskóli Íslands og ríkisstjórnin gerðu vegna sértekna Háskólans af happdrættisfé sínu. Vil ég nota tækifærið og fagna þeim samningi um leið og ég lýsi þeim skilningi mínum að ríkisstjórn og Alþingi hafi fallist á þann skilning háskólaráðs að Háskólinn hafi með þessar sértekjur sínar að gera.
    Ég vil jafnframt taka þá áhættu að gerast ósmekklegur og benda á einn lið hér, 7. lið, sem mér er einnig kær og nær, um Raunvísindastofnun Háskólans. Það gerist stundum í svona vinnu að smáliðir fjúka í leiðinni. Hér er það liðurinn Tækjakaup deilda sem fellur brott. Til skýringar vil ég nefna að þessi upphæð var áður hluti af rekstrarfé Raunvísindastofnunar Háskólans. Fyrir nokkrum árum var þessu skipt upp í rekstur og tækjakaup og nú fellur hann alfarið út úr liðnum.
    En ég endurtek að ég fagna þessum samningi og þeim skilningi sem ég lagði í hann og segi því já.