Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í ágúst 1988 var gerður þríhliða samningur milli Akureyrarbæjar, fjmrn. og menntmrn. um Leikfélag Akureyrar og rekstur þess. Það er augljóst mál og hefur reyndar lengi verið að sá samningur stenst ekki miðað við þann pólitíska vilja sem legið hefur fyrir á Alþingi á undanförnum missirum. Þess vegna er algerlega óhjákvæmilegt að þessi samningur verði endurskoðaður og það verður gert. Ég tel þess vegna að það væri algerlega fráleitt að fara að ákveða nú að verja til Leikfélags Akureyrar fjármunum af því tagi sem hér er gerð tillaga um.
    Ég tel hins vegar rétt að láta það koma fram, virðulegi forseti, að ég tel nauðsynlegt og það sé metnaðarmál fyrir menntmrn. og menningarmálaráðuneytið í þessu landi að til verði atvinnuleikhús utan höfuðborgarsvæðisins. Ég tel tillöguna hins vegar óþarfa í þeirri stöðu sem nú er í málinu og segi því nei.